Leyfisfrumskógurinn erfiður yfirferðar og íþyngjandi

Morgunblaðið greindi frá því í gær að ferðaþjónustufyrirtækið Hvíldarklettur hafi þurft að sækja um tæplega 400 leyfi og vottorð til að fá að starfa og kostnaður fyrirtækisins við leyfisgjöldin væri orðinn meiri en fjórar milljónir króna! Pétur Reimarsson, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið í dag þetta vera ótrúlegt og sýni hversu leyfisfrumskógurinn er orðinn ógegnsær og erfiður yfirferðar fyrir íslensk fyrirtæki. Fréttin komi þó ekki á óvart þar sem forsvarsmenn SA hafi um nokkurra ára skeið talað fyrir því að leyfisveitingar væru einfaldaðar.

 

Vísaði Pétur m.a. til skýrslu SA frá 2004 sem nefnist Eftirlit með atvinnustarfsemi – tillögur til úrbóta. „Við höfum verið að gera kröfu til ráðuneytanna um að fækka leyfum, einfalda leyfisveitingar og eftirlitskerfið. Þannig að menn gætu í raun á einum stað fengið öll þau leyfi sem þyrfti til reksturs eins og þessa," segir Pétur og segist vilja sjá að komið væri upp faggiltum skoðunarskrifstofum á markaði sem hefðu eftirlit með fyrirtækjum og sæju um öll samskipti milli fyrirtækja og ráðuneytanna og eftirlitsaðila á þeirra vegum.”

 

Pétur segir að svo virðist sem mjög erfitt sé að fá hið opinbera til að leggja af eftirlit sem einu sinni er búið að koma á. „Það tengist því að mönnum finnst fyrirtækjunum ekki treystandi til þess að standa almennilega að hlutunum og að það þurfi opinbera eftirlitsmenn til að fara á svæðið og tryggja það að allt sé í lagi, sem er í raun og veru algjör misskilningur á því hvernig öryggi verður best tryggt. Það verður best tryggt með því að fyrirtækjunum sé falin sem mest ábyrgð á þessu sjálfum. Og gera á kröfu um það að fyrirtækin reki gæðakerfi sem hið opinbera getur haft aðgang að og fylgst með að gerðar séu þær athuganir sem eðlilegt er að reksturinn geri. En öll þessi leyfi og allt þetta eftirlit er í mörgum tilfellum meira eða minna drifið af hagsmunum eftirlitsins, en ekki hagsmunum almennings eða fyrirtækjanna."

 

Rætt var við Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóra Hvíldarkletts, í Morgunblaðinu í gær. „Við rekum ferðaþjónustufyrirtæki sem gerir út 22 sjóstangabáta. Við erum með gistingu fyrir gestina, veitingahús og söluskála. Þegar við erum búin að komast í gegnum reglugerðafrumskóginn til að fyrirtækið geti rekið sig án þess að vera stöðvað af hinu opinbera, eru þetta hátt í 400 leyfisbréf og vottorð sem við þurfum að uppfylla." Listinn yfir leyfin er langur eins og kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins:

 

„Hvíldarklettur þarf að greiða vitagjöld af öllum bátunum 22 en hvert gjald er 3.500 kr. Fyrirtækið borgar yfir 200 þúsund í STEF-gjöld. Það borgar 103 þúsund í skipagjöld en aðspurður sagðist Elías ekki vita hvað væri á bak við það. Hvíldarklettur er með tóbakssöluleyfi, veiðileyfi, hreinlætisvottorð, vottorð fyrir áttavita, slökkvitæki og björgunarbáta. Fyrirtækið borgar 200 þúsund til Póst- og fjarskiptastofnunar vegna leyfis til að reka radíóstöð í skipi með flugtíðni. Hvíldarklettur er með starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd, hótelleyfi, gistileyfi, vínveitingaleyfi og byggingarleyfi til að fá að byggja húsin sem reksturinn er í. Fyrirtækið þarf að borga Siglingastofnun Íslands 6.500 krónur á hvern bát fyrir mælibréf. Fyrirtækið er líka með leiðarbréf til að fá að sigla bátunum á milli hafna þegar þeir eru ekki skráðir. „Ég spurði tvo starfsmenn mína hvert væri uppáhaldsleyfið þeirra. Annar nefndi vinnsluleyfi frá Fiskistofu – eftirlitsmaður kemur einu sinni á ári og kannar hvort rottur eru um borð í bátunum. Þetta kostar 5.000 krónur á ári. Hinn nefndi vottorð frá lyfjafræðingi til að staðfesta sjúkrakassann um borð. Persónulega finnst mér furðulegast í þessu að við borgum slysatryggingu sjómanna upp á 1,2 milljónir fyrir ferðamennina sem eru um borð í bátunum en þar að auki borgum við og ferðaskrifstofan tryggingu fyrir sömu mennina sem ferðamenn. Þeir eru því tvítryggðir," segir Elías.”

 

Sjá nánar í Morgunblaðinu 23. og 24. október

 

Sjá einnig skýrslu SA:

 

Eftirlit með atvinnustarfsemi – tillögur til úrbóta