Kynbundinn launamunur þingmanna 4-6%

Meðallaun kvenna á Alþingi eru 5,7% lægri en karla þegar horft er til þingmanna sem ekki eru ráðherrar. Meðallaun karlkyns þingmanna eru rúmlega 602 þúsund krónur en meðallaun kvenkyns þingmanna rúmlega 34 þúsund krónum lægri á mánuði. Með því að beita algengri aðferð við að skýra launamun kynjanna fæst sú niðurstaða að óútskýrður kynbundinn launamunur þingmanna sé 3,7%, þ.e. að sá munur verði eingöngu rakinn til kynferðis. Ef málið er hins vegar skoðað ofan í kjölinn, og tillit tekið til álagsgreiðslna sem þingmenn fá, hverfur óútskýrður launamunur – en karlkyns þingmenn fá þær í ríkari mæli en þingkonur. Vilji Alþingi jafna þennan launamun í gildandi launakerfi, verður það ekki gert nema með auknum hlut þingkvenna í álagsgreiðslum, t.d. með fjölgun kvenna sem eru formenn stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu.

 

Upplýsingaskortur brenglar niðurstöður

Algengasta aðferðin við greiningu á launamun kynjanna er svokölluð aðhvarfsgreining. Aðhvarfsgreining er tölfræðileg aðferð við greiningu á sambandi milli háðrar stærðar og einnar eða fleiri óháðra skýringarstærða. Hún er þeim eðlilega annmarka háð að niðurstöður brenglast ef mikilvæga skýringarþætti vantar í greininguna. Launamunurinn er oft skýrður með gróft flokkaðri starfsstétt, starfsaldri, aldri, menntun og kyni án þess að upplýsingar um ábyrgð eða inntak starfa liggi fyrir. Skortur á upplýsingum í rannsóknum veldur því að mikilvæga skýringarþætti að baki launamyndun vantar. Það veldur því að kyn mælist sem marktækur skýringarþáttur þótt kynið hafi í raun ekkert með launin að gera. Ein ástæða fyrir þeirri algengu niðurstöðu tölfræðigreininga að kyn sé marktæk skýring á launum er að ábyrgð er ekki meðal skýringarþátta í rannsóknum á launamun kynja, en svo háttar til að hlutfallslega fleiri karlar gegna ábyrgðarstöðum en konur. Taka má launakerfi þingmanna sem dæmi um þetta.

 

Aðhvarfsgreining á launum þingmanna leiðir í ljós að starfsaldur á þingi er marktækur skýringarþáttur en aðrir þættir á borð við aldur og menntun skipta litlu máli. Sé kyni bætt við sem skýringarþætti tekst þó aðeins betur að skýra breytileika í launum þingmanna en ef starfsaldur er eini skýringarþátturinn.  

 

Eftirfarandi jafna var prófuð með aðhvarfsgreiningu:

 

Ln (laun) = fasti + b1*starfsaldur + b2*kyn

 

þar sem Ln er náttúrulegur lógariþmi af launum.

Niðurstaða greiningarinnar er sú að stuðullinn við starfsaldur er 0,01 sem þýðir að fyrir hvert ár á þingi hækka laun þingmanna um 1%. Stuðullinn við kyn er -0,037 sem þýðir að það að vera kvenkyns þingmaður felur í sér 3,7% lægri laun en ella.  Margir kjósa að orða niðurstöðu á borð við þessa að í þessu felist launamismunun sem einvörðungu verði rakin til kyns.

 

Hin sanna mynd

Þegar betur er að gáð reynist skýringin á launamuni þingmanna vera allt önnur en kynferði. Launakerfi þingmanna er þannig byggt upp að þingfararkaup er kr. 531.098 en síðan bætast við álagsgreiðslur sem fara eftir ábyrgð. Starfskostnaði, kr. 63.090 á mánuði, er sleppt í þessari umfjöllun. Forseti þingsins fær t.d. ráðherralaun (79,5% álag á þingfararkaup), formenn stjórnmálaflokka sem ekki eru ráðherrar fá 50% álag á þingfararkaup, varaforsetar þingsins og formenn nefnda fá 15% álag og varaformenn tveggja nefnda fá 10% álag. Aðrir fá ekki álag á þingfararkaup.

 

Álagsgreiðslur þingmanna. Fjöldi eftir tegundum álagsgreiðslna

 

 

Laun þingmanna fara því ekki eftir starfsaldri eða kyni eins og aðhvarfsgreiningin hér að framan benti til heldur byggjast þau eingöngu á grunnlaunum og álagsgreiðslum. Með því að taka þá þætti inn í aðhvarfsgreininguna fæst önnur niðurstaða sem útilokar að laun þingmanna ráðist af kynferði þeirra. Ástæðan fyrir því að starfsaldur á þingi og kyn ná að skýra hluta af breytileika í launum þingmanna er sú að þingmenn með langa starfsreynslu eru oftar formenn flokka og nefnda eða varaforsetar þings.  Sama gildir um kyn þar sem karlkyns þingmenn eru hlutfallslega fleiri með álagsgreiðslur vegna ábyrgðar en þingkonur (59% karla eru með álag en 47% kvenna).  Leiðin til að jafna laun karla og kvenna á Alþingi er að fleiri konur fái aukna ábyrgð í þinghúsinu.

 

Hér má sjá skilgreiningu á launamyndum þingmanna að teknu tilliti til ábyrgðar þeirra:

 

Ln (laun) = fasti + b1*forseti þings +b2*formaður flokks + b3*formaður nefndar + b4*varaformaður nefndar.

 

Niðurstaða úr aðhvarfsgreiningu sem skilgreind er á þennan hátt er eftirfarandi:

 

Fasti = 13,18 , þ.e. kr. 531.098 (e13,18 = 531.098),

b1 = 0,585, þ.e. forseti þings fær 79,5% álag á þingfararkaup (e0,58 = 79,5%),

b2 = 0,405, þ.e. formennska í stjórnmálaflokki veitir 50% álag (e0,405 = 50%),

b3 = 0,140,  þ.e. formennska í nefnd og varaforsæti veitir 15% álag (e0,14 = 15%),

b4 = 0,095, þ.e. varaformennska í tveimur nefndum veitir 10% álag (e0,095 = 10%).

 

Þessi jafna skýrir breytileika í launum þingmanna fullkomlega, þ.e. 100%, þannig að ekkert er eftir óútskýrt. Jöfnunni sem byggði á starfsaldri og kyni tókst hins vegar mun verr að skýra breytileika í launum þingmanna enda vantaði þá skýringarþætti sem máli skipta, þ.e. álagsgreiðslur vegna aukinnar ábyrgðar.