Karlar um borð

Karlar fjölmenntu í dag í Salinn í Kópavogi til að ræða jafnréttismál út frá sjónarhóli karla á ráðstefnunni Karlar um borð. Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins var meðal frummælenda, en í erindi sínu  fjallaði hann um það hvernig atvinnulífið græðir á jafnrétti og mismunun feli í sér sóun. Nefndi Ari einnig að áhersla á jafnrétti og fjölbreytileiki innan fyrirtækja tengdist betri stjórnunarháttum og betri afkomu fyrirtækja. Ari benti m.a. á þá jákvæðu þróun að á síðustu fimm árum hefur konum í stöðu framkvæmdastjóra í skráðum hlutafélögum fjölgað umtalsvert - íslenskt þjóðfélag stefni því í rétta átt þó allt of hægt miði.

 

Alþjóðleg karlaráðstefna haustið 2006

Félagsmálaráðherra boðaði til ráðstefnunnar, en hún var aðeins opin körlum með einni undantekningu. Heiðursgestur og verndari ráðstefnunnar var Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, en hugmyndin að karlaráðstefnu um jafnrétti er frá henni komin. Í ályktun fundarins voru karlar hvattir til að gera gera jafnréttismál að sínum, jafnrétti snérist í raun um mannréttindi og hvatti fundurinn jafnframt alla karla heimsins til að fylgja í kjölfar íslenskra kynbræðra sinna. Stefnt er að því að halda alþjóðlega karlaráðstefnu um jafnréttismál á Íslandi haustið 2006.

 

Að ráðstefnunni stóðu, Morgunblaðið, Íslandsbanki, Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaháskólinn á Bifröst, VR og Félagsmálaráðuneytið. Erindi frá ráðstefnunni má nálgast á vef félagsmálaráðuneytisins.