Jákvæðar fréttir leynast í atvinnulífinu

Þrátt fyrir mikinn mótbyr sem íslenskt atvinnulíf mætir um þessar mundir leynast jákvæðar fréttir í atvinnulífinu. Þær mættu sannarlega vera fleiri en vert er að vekja athygli á því sem vel er gert. Undanfarið hafa SA óskað eftir jákvæðum fréttum frá fyrirtækjum landsins og fjöldi frétta borist í jákvætt pósthólf SA. Fréttirnar má nú lesa á vef SA en þar kemur m.a. fram að yfirstandandi ár hefur verið eitt hið besta í sögu Promens Dalvík og þar verður að vinna um helgar til að anna eftirspurn. Um 45 manns starfa hjá fyrirtækinu og er gert ráð fyrir óbreyttum umsvifum á næsta ári.

 

Samtök atvinnulífsins hvetja fyrirtæki og frumkvöðla til að halda áfram að stinga að SA góðum fréttum með því að smella hér.

 

Hér að neðan má lesa jákvæðar fréttir sem hafa borist SA:

 

Promens Dalvík eykur útflutning

Yfirstandandi ár hefur verið eitt hið besta í sögu Promens Dalvík (áður Sæplast Dalvík). Unnið hefur verið á þrískiptum vöktum 5 daga vikunnar allt árið og útflutningur verið mjög blómlegur. Undanfarna mánuði hefur fimm daga vinnuvika ekki dugað til að anna eftirspurn og því hefur framleiðslan einnig verið keyrð um helgar. Promens Dalvík er með sterka stöðu á innanlandsmarkaði, en styrkur fyrirtækisins liggur ekki síður í mjög sterkri markaðsstöðu á helstu kerjamörkuðum erlendis.

 

„Það hefur því reynst okkur happadrjúgt í niðursveiflunni að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni. Mikilvægi nýsköpunar og þróunarstarfs hefur einnig sannað sig, því nærri lætur að um 20% af veltu ársins komi frá vörum sem markaðssettar hafa verið undanfarin ár. Hjá Promens Dalvík starfa um 45 manns og er gert ráð fyrir óbreyttum umsvifum á næsta ári," segir Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri Promens Dalvík. „Á 25 ára sögu fyrirtækisins þá telst okkur til að við séum búinn að flytja út vörur frá verksmiðjunni á Dalvík til 61 lands í öllum heimsálfum. Það er magnað ef haft er í huga hvers eðlis framleiðsluvörur okkar eru því þær eru mjög rúmfrekar og söluverðmæti per rúmmeter er tiltölulega lágt miðað við margt annað."

 

ISS hlýtur norrænu umhverfisvottunina Svaninn

Þann 20. nóvember afhenti Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra,  ISS Ísland ehf. norrænu umhverfisvottunina Svaninn. ISS Ísland er fjórða fyrirtækið á Íslandi til að innleiða Svaninn en það er ræstingarþjónusta fyrirtækisins sem er vottuð. Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og hefur skapað sér ótvíræðan sess sem mikilvægasta og áreiðanlegasta umhverfismerkið á Norðurlöndunum, með mikla útbreiðslu og traust meðal neytenda. Starfsfólk ISS Ísland er ákaflega stolt yfir þessum áfanga og hlakkar til að vinna með viðskiptavinum að sífellt vistvænni framkvæmd og á þann hátt að leggja sitt lóð á vogarskálarnar að vistvænu atvinnulífi á Íslandi. 

 

 

Aukið öryggi í flutningum Samskipa

Yfir 60 bílstjórar á vegum Samskipa sátu árlegar bílstjóraráðstefnur á Akureyri og í Reykjavík á dögunum þar sem farið var yfir öryggismál, réttindi, forvarnir og fleira til að auka enn frekar öryggi í flutningum á vegum félagsins. Ráðstefnurnar eru liður í öflugri fræðsludagskrá Samskipa um öryggismál, þar sem m.a. er boðið upp á stöðuga endurmenntun í formi námskeiða, fyrirlestra, o.fl. Óhætt er að segja að mikill áhugi hafi verið á meðal bílstjóra á ráðstefnunum, þar sem þeir eiga mikið undir því að allt gangi að óskum.

 

Voru merkingar settar upp á hinum ýmsu stöðum innan fyrirtækisins til að minna starfsfólk á notkun persónuhlífa og mikilvægi þess að fara varlega. Samskip leggja áherslu á að starfsfólk geri öryggismál að órjúfanlegum hluta af daglegum störfum sínum og geti þannig veitt viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu með tryggri og góðri vörumeðhöndlun. Samskip leggja sig einnig fram um að öll réttindamál starfsmanna séu til fyrirmyndar. M.a. hefur verið komið upp mentorkerfi sem tryggir að nýliði í starfi fái allar nauðsynlegar upplýsingar og finni fyrir öryggi frá fyrsta degi. Einnig var gefin út handbók um öryggismál sem öllum nýliðum ber að lesa til að efla enn frekar öryggisvitund þeirra.

 

Júlíus Geirmundsson hefur aflað fyrir 24 milljarða!

Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. fagnaði því nýverið að tuttugu ár eru um þessar mundir liðin frá því frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270 kom til landsins. Á þessum tuttugu árum lætur nærri að aflaverðmæti skipsins nemi 24 milljörðum króna á núvirði. Um eitt hundrað gestir sóttu hóf sem fyrirtækið hélt til að minnast þessara tímamóta. Sjá nánar á vef LÍÚ.

 

Samkeppni um hönnun og gerð tölvuleikja í apríl 2010

Samtök tölvuleikjaframleiðenda á Íslandi - Icelandic Gaming Industry - eru vaxandi samtök enda er tölvuleikjaframleiðsla á Íslandi í örum vexti. Samtökin eru að hefja sína fyrstu árlegu samkeppni í hönnun og gerð tölvuleikja, IGI Awards sem fram fara í apríl 2010. Þetta er keppni opin öllum og kostar þátttaka ekkert. Samtökin bjóða upp á ókeypis mánaðarlegar kynningar á helstu grunnatriðum tölvuleikjagerðar, til að gera keppnina sem aðgengilegasta.

 

„Með þessari keppni getum við vonandi kynnt þennan mannaflsfreka iðnað fyrir sem flestum og hjálpað þeim sem vilja að komast af stað innan hans. Einnig eru verðlaun keppninnar ekki síst hugsuð til að styðja sigurvegarann í að fullvinna sína hugmynd og jafnvel stofna nýtt sprotafyrirtæki í kringum hana," segja aðstandendur keppninnar. Það er von IGI samtakanna að á tímum atvinnuleysis sé hægt að hjálpa fólki að skapa sér sín eigin tækifæri. Frekari upplýsingar má finna á www.igi.is.

 

Eitthvað annað - íslenskt vel hannað

Fyrir nokkru opnaði Dagný Reykjalín bloggsíðuna www.eitthvadannad.is sem sýnir vörur sem eru hannaðar og framleiddar á Íslandi fyrir almenna neytendur, helst af öllu úr alíslensku hráefni og jafnvel umbúðum sem einnig eru framleiddar á Íslandi. „Með því að hafa aðgengilegan lista yfir íslenskar vörur getum við kynnst betur því sem er framleitt hér á landi og okkur gefst betra tækifæri til að velja íslenskt þegar við á. Með því að sjá breiddina sem svo sannarlega er í íslenskri framleiðslu, getur það blásið okkur byr í brjóst og hvatt okkur til að framkvæma þær hugmyndir sem við göngum með í maganum," segir Dagný.

 

„Einnig sjáum við betur hvar tækifæri liggja á íslenskri framleiðslu í framtíðinni og ætlum að benda á ónýtt tækifæri í verðmætasköpun fyrir þá sem vilja stökkva á þau. Með því að velja innlenda framleiðslu fram yfir erlenda sköpum við ný störf og viðhöldum störfum, gerum vöruskiptajöfnuð hagstæðari og spörum gjaldeyri. Þessi fyrirtæki eru mörg hver á frumstigi. Græðlingar. Ímyndum okkur ef við uppfærum þau um nokkur level þannig að þau færu að framleiða ekki bara á innanlandsmarkað heldur líka til útflutnings (sem getur gerst á undraskömmum tíma) hvernig landslagið í fyrirtækjarekstri og menningu breytist til hins betra um allt land," segir Dagný.

 

Helga stofnaði eigið fyrirtæki: Tölvur og Tungumál
Helga G. Hinriksdóttir er menntaður kennari og kerfisfræðingur. Hún lærði kerfisfræði í Danmörku en fjölskyldan flutti heim til Íslands, á Hvammstanga nánar tiltekið, fyrir tæpu ári síðan. „Mér stóð til boða vinna við forritun í litlu fyrirtæki en við bankahrunið var það dregið til baka. Við vorum þá þegar farin að undirbúa flutning heim. Ég fékk vinnu við afleysingar á leikskólanum eftir áramót og með vorinu var mér boðin full vinna og deildarstjórn fyrir komandi vetur. Að vinna á leikskóla er ekki það sem ég hafði haft í huga við heimkomu svo ég lagði höfuðið í bleyti og ákvað í kjölfarið að stofna mitt eigið fyrirtæki," segir Helga.

 

 Fyrirtæki Helgu hóf síðan starfsemi í ágúst en það heitir  Tölvur og Tungumál og er heiti þess lýsandi fyrir starfsemina. „Í dag vinn ég 60% vinnu á leikskólanum ásamt því að vinna í fyrirtækinu mínu. Ég er með 3 tungumálanámskeið í gangi; eitt íslenskunámskeið fyrir útlendinga og tvö enskunámskeið. Ég er með þýðingarverkefni fyrir lítið fyrirtæki og eitt verkefni varðandi heimasíðu. Eftir áramót stefni ég að framhaldsnámskeiðum í ensku og íslensku, námskeiði í pólsku og ítölsku fyrir byrjendur og tölvunámskeiðum. Viðtökur hafa farið fram úr mínum björtustu vonum! Stefnan er auðvitað að geta sinnt þessu 100% frá og með næsta hausti," segir Helga G. Hinriksdóttir sem er að hasla sér völl í íslensku atvinnulífi. Gangi henni vel!

 

Magneat slær í gegn

Fyrirtækið Preggioni ehf. framleiðir í dag eina vöru - Magneat sem hefur slegið í gegn. Varan var sett á markað í október 2008 og hefur selst í yfir 120 þúsund eintökum í 9 löndum á þessum skamma tíma.

„Varan er "patent pending" og þar af leiðandi einstök. Magneat leysir eitt af þessum daglegu vandamálum. Varan styttir of langar heyrnartóla-snúrur sem eru yfirleitt framleiddar í einni stærð," segir Daði Agnarsson, framkvæmdastjóri Preggione. Í nóvember fór fram hönnunarkeppni í EPAL þar sem fólki gafst kostur á að koma hönnun sinni á framfæri í gegnum Magneat. Allar nánari upplýsingar ar er að finna á www.magneat.com.

 

Fréttavefur með jákvæðum fréttum: www.360.is

Á vefnum www.360.is er ætlunin að gera mikið úr jákvæðum fregnum af fólki og fyrirtækjum sem ganga vel og/eða eru að hefja starfsemi.  Safnað hefur verið saman efni og heimildum víðs vegar að landinu.  Á vefnum verða birtar umfjallanir og myndir úr atvinnulífinu og er öllum velkomið að hafa samband og koma á framfæri efni. Nafn síðunnar (www.360.is) vísar til þess að í hringnum eru 360 gráður en ritstjórar vefsins mun líta hringinn í kringum sig eftir góðu efni.

 

Jákvæð tíðindi á www.tidindi.is

Offramboð er á neikvæðum fréttum á fréttavefjum landsins en á www.tidindi.is verða eingöngu birtar jákvæðar fréttir - fyrst og fremst innlendar en einnig erlendar. Birtar verða fréttir af íslenskum fyrirtækjum sem einbeita sér að uppbyggingu íslensks atvinnu- og þjóðlífs, fréttir úr daglegu lífi, fréttir af fólki, tækni, íþróttum o.fl. en bara það sem jákvætt telst. Takmarkið með er að hleypa von og birtu inn á heimili Íslendinga á erfiðum tímum.

 

Hvalalíf tekur glæsilegt farþegaskip í notkun

Á undanförnum misserum hefur komum ferðamanna fjölgað jafnt og þétt til Íslands og áhugi þeirra á hvalaskoðun og skemmtisiglingum frá Reykjavíkurhöfn aukist umtalsvert. Hvalaskoðunarfyrirtækið Life of Whales (Hvalalíf ehf.), sem starfað hefur í rúm 3 ár í Reykjavík, hefur nú fest kaup á glæsilegu farþegaskipi sem verður fyrst og fremst notað í hvalaskoðunarferðir. Að sögn aðstandenda Hvalalífs er skipið það stærsta sem tekið hefur verið í slíka notkun hérlendis og markar tímamót fyrir ferðamenn sem leggja leið sína í hvalaskoðun. Hefur það fengið nafnið ANDREA og getur tekið allt að 240 manns þó farþegafjöldinn verði takmarkaður við 150 manns til aukinna þæginda.

 

„Skipið rúmar 130 manns í sæti innandyra og 65 utandyra. Stærð þess er 34 metrar á lengd og 7,8 metrar á breidd. Skipið ANDREA er hið glæsilegasta með stílhreinu yfirbragði, góðum sölum, 5 salernum, stórum og löngum gluggum á báðum hæðum og miklu útsýnisrými á þilfari skipsins. Skipið mun liggja við suðurbugt í Reykjavíkurhöfn. Mögulegt verður að nýta skipið undir veislur, ýmsar uppákomur, árshátíðir, skemmtisiglingar o.fl. Frekari upplýsingar um ferðir Life of Whales er að finna á www.hvalalif.is".

 

Frí gisting og morgunverður á Hótel Keflavík í desember

Níunda árið í röð býður Hótel Keflavík upp á fría gistingu á hótelinu í desember og styður þannig við verslun og þjónustu í Reykjanesbæ. Þetta uppátæki hótelsins mælist vel fyrir og þegar hafa hótelinu borist margar fyrirspurnir hvort þessi háttur verið ekki hafður á nú eins og áður. Hótel Keflavík hefur stutt við verslun í Reykjanesbæ með því að bjóða upp á allt að 20 herbergi á dag sem gestir borga fyrir með því að framvísa kvittunum úr verslunum í Reykjanesbæ. Gegn kvittun upp á 16.800 kr. fæst frí gisting í 2ja manna herbergi en sé framvísað kvittun upp á lágmark 20.800 krónur fæst gisting í fjölskylduherbergi. Að auki fylgir frír morgunmatur með gistingunni, en Hótel Keflavík er rómað fyrir sérlega glæsilegan morgunmat.

 

„Morgunverðarhlaðborðið á Hótel Keflavík samanstendur m.a. af smurðu brauði, heimabökuðum kökum og fjölbreyttu úrvali af ferskum ávöxtum og ýmsu fleiru sem prýðir gott morgunverðarborð. Við teljum að oft hafi verið þörf, en nú er nauðsyn að Suðurnesjamenn standi saman og versli heima og fái vini og ættingja til að koma til Suðurnesja og gera jólainnkaupin. Tilboðið á Hótel Keflavík stendur frá 1. til 20. desember og allt að 20 herbergi eru í boði á sólarhring," segir í frétt frá Hótel Keflavík.

 

Farfuglar 70 ára - farfuglaheimili orðin 34 - gistinætur aldrei fleiri

Farfuglar halda í ár uppá 70 ára afmæli hreyfingarinnar og hafa mikið að gleðjast yfir á þessu viðburðaríka ári. Í mars var hér haldin fundur framkvæmdastjóra aðildaþjóða alþjóðasamtaka Farfugla (Hostelling International). Fleiri farfuglaheimili hafa bæst við gistikeðjuna á Íslandi en nokkurt annað ár, eða níu talsins, og eru þau því orðin 34. Þar af má nefna nýtt glæsilegt farfuglaheimili á Vesturgötu í Reykjavík þar sem gestir og gangandi eru velkomnir á kaffihúsið Dulcineu á fyrstu hæð.

 

Farfuglaheimilið á Vesturgötu tók þátt í að skapa skemmtilega stemningu í borginni á meðan á Airwaves tónlistarhátíðinni stóð en þar tróðu listamenn upp síðdegis og fyrripart kvölds nokkra daga í röð. Þá tóku Farfuglar yfir allan rekstur í Húsadal í Þórsmörk og gekk fyrsta sumarið afar vel. Á haustdögum var Umhverfisdagur Farfugla haldinn með opinni dagskrá þar sem rætt var um umhverfisáhrif ferðalaga og hvernig draga megi úr þeim. Í ár stefnir í að gistinætur á íslenskum farfuglaheimilum verði um 155.000 talsins og hafa þær aldrei verið fleiri. Þar sem starfsemin á skrifstofu Farfugla sprengdi utan af sér fyrra húsnæði með auknum fjölda bókana og öðru umfangi hafa Farfuglar nú flutt skrifstofur sínar í Borgartún 6, þangað sem allir eru velkomnir til að fá sér farfuglaskírteini sem tryggja bestu kjör á góðum gististöðum.

 

Hvatningarverðlaun SSNV - atvinnuþróunar árið 2009 til Léttitækni á Blönduósi

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) veitir árlega hvatningarverðlaun til fyrirtækis á starfssvæði samtakanna. Hvatningarverðlaun SSNV - atvinnuþróunar hafa verið veitt frá árinu 1999 og eru þau í senn hvatning til áframhaldandi starfsemi og viðurkenning fyrir góðan árangur. Markmið verðlaunanna er að hvetja til nýsköpunar og þróunar og vekja athygli á því sem vel er gert á Norðurlandi vestra.

 

Árið 2009 er það fyrirtækið Léttitækni á Blönduósi sem hlýtur verðlaunin vegna þess frumkvæðis og framsýni sem stjórnendur og starfsmenn hafa sýnt við uppbyggingu fyrirtækisins og þróunar á gæðavörum. Fyrirtækið er í eigu Jakobs Jónssonar og Katrínar Líndal á Blönduósi og er stofnað árið 1995. Léttitækni sérhæfir sig í framleiðslu og innflutningi á tækjum til að létta dagleg störf og auka afköst, allt frá léttum vögnum og trillum upp í stóra sérhæfða lyftara. Fyrirtækið hefur frá upphafi haft það að megin markmiði að framleiða og flytja inn vörur til að létta störf og auka afköst starfsmanna í íslenskum fyrirtækjum. Þessi tæki eru nefnd "léttitæki" og af því er nafn fyrirtækisins dregið. Þá er fyrirtækið umsvifamikið í framleiðslu og uppsetningu hillukerfa.

 

Léttitækni hefur sýnt fram á að fyrirtæki í sérhæfðri framleiðslu geta náð góðum árangri með starfsemi á landsbyggðinni. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa lagt áherslu á vöruþróun með það að markmiði að mæta síbreytilegum þörfum markaðarins. Fyrirtækið hefur vaxið mikið síðustu misseri ekki síst vegna opnunar söludeildar í Reykjavík og aukinnar áherslu á innflutning.

 

Nánari upplýsingar um Hvatningarverðlaun SSNV veitir framkvæmdastjóri SSNV, Jón Óskar Pétursson.

 

Jarðvarminn dregur evrópska háskólanema til Íslands

Nemendafélag evrópskra tækni- og verkfræðinema sem heitir BEST (Board of European Students of Technology) efnir til námskeiðs í vor á Íslandi um nýtingu jarðvarma. BEST er starfrækt í 82 háskólum í 30 löndum Evrópu en félagið á Íslandi hefur veg og vanda að námskeiðinu sem verður haldið um 9.-17. mars. Þátttakendurnir verða 22 tækni- og verfræðinemar úr ýmsum háskólum Evrópu. Samstarfsaðillar vegna námskeiðsins eru meðal annars Háskóli Íslands, ÍSOR og Orkuveita Reykjavikur. Auk þess að læra um nýtingu jarðvarma munum þátttakendur meðal annars fara í vettvangsferðir og kynnst íslenskri menningu. Sjá nánar á hér.

 

Króatar vilja íslenska þekkingu á sviði jarðhitanýtingar

Verkfræðistofan Efla hefur gert samning um ráðgjöf á sviði jarðhitarýtingar við rafveitufyrirtækið HEP-ESCO um ráðgjöf á sviði jarðhitanýtingar í Króatíu. Verkefnið felur í sér nýtingu gamallar tilraunaholu, sem gefur af sér 1,5MWth af heitu vatni, til hitunar á skólahúsnæði í borginni Krževci. Verkefnið var kynnt á ráðstefnunni Nordic Days í Zagreb og hafa fjölmiðlar í Króatíu sýnt málinu mikinn áhuga.

 

Að sögn Hafsteins Helgasonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Eflu, eru miklir möguleikar í nýtingu á jarðhita fyrir hendi í Króatíu. Víða um landið hafi verið boraðar holur í leit að olíu eða gasi og þeim síðan verið lokað þegar þær gáfu af sér heitt vatn, þar sem ekki hafi verið þekking til að nýta það. Hafa fulltrúar Eflu fundað með fleiri aðilum í Króatíu varðandi frekari ráðgjafarverkefni á sviði jarðhitanýtingar. Nordic Days er samstarfsverkefni viðskiptaskrifstofa norrænu sendiráðanna í Zagreb en umsjón með þátttöku Eflu í ráðstefnunni hafði Útflutningsráð Íslands.

 

Þjóðverjarnir koma!
Flugfélögin German Wings, Air Berlin og Lufthansa hyggjast auka sætaframboð til Íslands næsta sumar og sama er að segja um Iceland Express og Icelandair. Þannig er gert ráð fyrir að í boði verði um 5000 sæti á viku til Íslands frá Þýskalandi næsta sumar. Útflutningsráð Íslands, Ferðamálastofa og Samtök ferðaþjónustunnar efna til markvissrar kynningar á íslenskri ferðaþjónustu á næstu mánuðum. Í því skyni hefur verið stofnaður sérstakur markaðshópur 13 öflugra ferðaþjónustufyrirtækja sem munu kynna þjónustu sína á völdum mörkuðum í Evrópu.

 

ReMake Electric skrifar undir samning við alþjóðlegt stórfyrirtæki
Íslenska nýsköpunarfyrirtækið ReMake Electric ehf. hefur skrifað undir samning við alþjóðlegt stórfyrirtæki. ReMake er nú skrefinu nær að koma sínum einkaleyfisvörðu vörum á markað en hjá fyrirtækinu sem ReMake hefur samið við starfa um 70 þúsund manns og vörur þess eru seldar í 150 löndum. ReMake Electric hefur unnið að þróun nýrrar kynslóðar rafmagnsöryggisvara sem fyrirtækið á alþjóðaeinkaleyfi yfir. Fyrirtækið er staðsett í Hafnarfirði en hefur þróað vörurnar í Kína.

 

Lítið útrásarverkefni á sviði ferðamála

Fyrirtækið NETIÐ markaðs- og rekstrarráðgjöf starfrækir MarkaðsNetið innan ferðaþjónustu og vefmála. Fyrirtækið hefur meðal annars gefið út bókina Visitor‘s Guide síðastliðin 10 ár og einnig vefinn

Deila: