Íslenskt feðraorlof vekur athygli FT

Fjallað er um góða stöðu jafnréttismála á Íslandi í stórblaðinu Financial Times í vikunni. Einkum vekur það athygli að 90% feðra á Íslandi taki feðraorlof og að fæðingartíðni á Íslandi sé á uppleið. Blaðamaður FT í Þýskalandi kallar Ísland barnaparadís og segir Þjóðverja geta tekið sér Íslendinga til fyrirmyndar. Meðal annars er rætt við Hrafnhildi Stefánsdóttur, yfirlögfræðing Samtaka atvinnulífsins.

 

Þjóðverjar taki íslenska feður til fyrirmyndar

Þýska ríkisstjórnin veltir nú vöngum yfir því hvernig hægt sé að fá Þjóðverja til eignast fleiri börn og að fá feður til að annast börn sín í auknum mæli. Í þýsku útgáfu Financial Times segir að svörin við vangaveltum ríkisstjórnarinnar sé að finna á Íslandi. Eftir umfangsmikla endurskoðun laga fari um 90% allra nýbakaðra íslenskra feðra í feðraorlof og tíðni fæðinga sem var mikil fyrir, hafi enn aukist. Fæðingartíðni á Íslandi er að meðaltali 2,1 barn á konu en í Þýskalandi nær fæðingartíðnin einungis 1,3.

 

Algjör umskipti

Ingólfur Gíslason verkefnisstjóri hjá Jafnréttisstofu segir nýja fyrirkomulagið hafa leitt til þess að báðir foreldrar komi að umönnun barnanna í auknum mæli og fæðingum hafi fjölgað. Hann bendir á að gríðarlegar breytingar hafi orðið í þessum efnum en á 9. áratugnum fóru aðeins 0,3% feðra í orlof við fæðingu barns en á síðasta ári fóru 90% nýbakara feðra í að meðaltali 97 daga orlof innan við eins og hálfs árs frá fæðingu barns! Ingólfur segir að hlutfall feðra sem taki orlof sé hvergi jafn hátt og á Íslandi.

 

Jákvætt fyrir frama kvenna

Í fæðingar- og feðraorlofi fá foreldrar 80% af fyrri launum sínum en þak er á greiðslunum. “Við erum afar ánægð með nýja fyrirkomulagið, því það er á endanum fyrirtækjum í hag að fæðingartíðni  lækki ekki,” segir Hrafnhildur Stefánsdóttir yfirlögfræðingur SA. “Tiltölulega há mörk á greiðslu leiða til þess að jafnvel hátekjufólk lendir ekki í umtalsverðu tekjutapi.” Fæðingarorlofið er fjármagnað af atvinnurekendum og segir Hrafnhildur í viðtalinu við FT að jákvætt sé að stjórnendur og starfsmenn ákveði saman  hvernig foreldraorlofinu er skipt. Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir að frami kvenna njóti góðs af fyrrgreindum breytingum þar sem eins líklegt sé að karlar taki frí eftir fæðingu barns og þá séu færri ástæður fyrir því að konur sitji eftir á vinnumarkaðnum.