Íslendingar hálf milljón árið 2050?

Í mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna, sem gerð var á síðasta ári, kemur fram að Íslendingar verði um 355 þúsund árið 2050 en um síðustu áramót voru íbúar landsins taldir vera tæplega 308 þúsund. Fjölgunin nemur þannig um 47 þúsund á tímabilinu. Sameinuðu þjóðirnar gera einnig það sem kallað er háspá en samkvæmt henni verða íbúar landsins um 412 þúsund á þessum tíma en í lágspá er gert ráð fyrir að þeir verði um 305 þúsund.

 

Mannfjöldaspá SA

Samtök atvinnulífsins hafa gert eigin mannfjöldaspá en samkvæmt henni verða íbúar á landinu orðnir um 400 þúsund um miðja öldina. Til þess að það gangi eftir þurfa fleiri að flytja til landsins en frá því. Gert er ráð fyrir að til landsins flytji 500 til 600 manns á ári umfram þá sem flytjast brott. Þannig verði á landinu milli 40 þúsund manns af erlendu bergi brotnir árið 2050 eða sem nemur 10% íbúa.

 

Könnun Capacent Gallup og horfur á vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins fengu Capacent Gallup til þess að spyrja almenning annars vegar og hóp áhrifavalda í þjóðfélaginu hins vegar að því hver þeir teldu að íbúafjöldi Íslands yrði árið 2050. Almenningur telur að íbúafjöldinn verði 533 þúsund en hópur áhrifafólks að hann verði tæp 500 þúsund. Báðir hóparnir gera þannig ráð fyrir að íbúum fjölgi mun meira en spár gera ráð fyrir. Almenningur telur að íbúarnir verði um 180 þúsund fleiri en meðalspá Sameinuðu þjóðanna segir til um og 130 þúsund fleiri en spá SA gerir ráð fyrir.

 

SA spá því að ef ekki er gert ráð fyrir fleiri flytji til landsins en frá því muni störfum á vinnumarkaði aðeins fjölga um 20 þúsund fram til ársins 2025 en síðan muni fjöldinn standa í stað og verða um 190 þúsund talsins. Með því að gera ráð fyrir að 500 – 600 fleiri einstaklingar flytji til landsins árlega en frá því má reikna með að á vinnumarkaði verði um 205 þúsund manns árið 2050. Því má gera ráð fyrir því að hæg fjölgun íbúa á Íslandi mun setja lífskjaraþróun ákveðnar skorður á næstu árum og áratugum.

 

Mikil fjölgun aldraðra

Aldurssamsetning þjóðarinnar mun breytast mikið. Nú eru Íslendingar 65 ára og eldri tæplega 34 þúsund en verða um 110 þúsund árið 2050 og hefur þá fjöldi þeirra meira en þrefaldast á tímabilinu. Íslendingar 80 ára og eldri eru nú rúmlega níu þúsund en verða um 45 þúsund 2050. Þessi fjölgun eldri borgara krefst þess að stefna í málefnum aldraðra verði mótuð til lengri tíma en sem nemur fjögurra ára kjörtímabilum.

 

Á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins þann 17. apríl verður könnun Capacent Gallup kynnt í heild sinni ásamt spá SA um þróun mannfjöldans á Íslandi fram til ársins 2050. Fundarmenn fá ritið Ísland 2050, eldri þjóð – ný viðfangsefni, þar sem fjallað er um þau viðfangsefni sem þjóðin þarf að fást við vegna breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar.