Hverju skipta breytt lög um ábyrgð á framleiðslugöllum?

Miðvikudaginn 5. júlí efna SVÞ–Samtök verslunar og þjónustu til kynningarfundar um áhrif laga um neytendakaup sem tóku gildi um mitt ár 2003 á ábyrgðartíma söluvöru. Breytingar á ábyrgðartíma í lögunum eru nú að byrja að hafa áhrif í versluninni hér á landi, en þar er um að ræða ábyrgð vegna framleiðslugalla á vöru. Samkvæmt nýju lögunum getur ábyrgðartími orðið allt að 5 ár í stað 2ja ára áður, ef viðkomandi „söluhlut eða hlutum hans, er ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti“ eins og það er orðað í lögunum. 

 

Á fundinum mun Ólöf Embla Einarsdóttir lögfræðingur í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti fjalla um lögin og kynna úrskurðanefnd sem er ætlað að skera úr álitamálum. Einnig mun Hrafnhildur Stefánsdóttir yfirlögfræðingur Samtaka atvinnulífsins fjalla um áhrif breytts ábyrgðartíma fyrir verslunina. Eftir framsögur gefst fundarmönnum kostur á að bera fram fyrirspurnir.

 

Fundurinn verður í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni 35 á 6. hæð og hefst klukkan 8:30. Hann er fyrst og fremst ætlaður stjórnendum og starfsfólki í verslunum en allir aðrir sem vilja kynna sér þessi nýju lög og þau áhrif sem þau eru líkleg til að hafa eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

 

Vinsamlega tilkynnið þátttöku fyrirfram á svth@svth.is