Hvati til að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda

Það er innbyggður hvati í rekstri álfyrirtækja að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda þar sem það hefur bein áhrif á rekstrarlega afkomu fyrirtækjanna. Þetta kom fram í máli Óskars Jónssonar, framkvæmdastjóra hjá Norðuráli, á fundi Samtaka atvinnulífsins um útstreymi frá álverum á Íslandi. Ræddi Óskar jafnframt um mögulega framtíðarþróun í greininni varðandi útstreymi lofttegunda vegna framleiðslu áls og kynnti hvernig Norðurál hefur unnið að því að takmarka útstreymi frá rekstrinum.

 

Engin álbræðsla á Íslandi

Óskar Jónsson lýsti á greinargóðan hátt hvernig framleiðslu áls er háttað á Íslandi og víðar. Ál væri unnið úr súráli (efnasambandi áls og súrefnis) en álið væri framleitt í álverum með því að kljúfa súrefnið frá álinu, það væri gert með rafgreiningu og ætti ekkert skylt við „álbræðslu”.

 

Óskar Jónsson, Norðuráli.

 

Umhverfisþættir og rekstur fara saman

Í erindi Óskars kom fram að álfyrirtæki hafi af því ríka hagsmuni að lágmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda.  Það hafi bein áhrif á rekstrarlega afkomu álveranna og því sé innbyggður hvati í rekstrinum til að sinna þessum málum af kostgæfni s.s. með góðri nýtingu forskauta sem gerð eru úr kolefni. Nefndi Óskar fjölmarga þætti sem Norðurál hefur ráðist í til að lágmarka útstreymi lofttegunda, fyrirtækið notist til dæmis við öflugt hreinsunarkerfi sem auðveldlega væri hægt að útnefna sem „stærstu ryksugu landsins.” Þá notist Norðurál við mjög fullkomið stjórnkerfi sem fylgist með öllum þáttum framleiðslunnar og nefndi Óskar til dæmis að liðstjórnendur fái send SMS skilaboð í símana sína frá sérstökum vélbúnaði ef hann skynji hættu á frávikum í framleiðslunni.

 

Breytingar í sjónmáli

Innan álgeirans eru verið að þróa ýmsar aðferðir til að bæta árangur í rekstri og kynnti Óskar nokkrar þeirra, til dæmis leiðir til að auka orkunýtingu og að framleiða ál með minni orku en nú er gert. Nefndi  hann einnig að jafnvel yrði á einhverjum tímapunkti hægt að notast við svokölluð hlutlaus forskaut í álframleiðslu.

 

Fundurinn var hluti af fundaröð Samtaka atvinnulífsins um atvinnulíf og umhverfi. Næsti fundur í fundaröðinni fer fram á Grand hótel Reykjavík, þriðjudaginn 5. desember nk. Þar verður rætt um viðhorf atvinnulífsins til loftslagsmála, bæði út frá alþjóðlegum sjónarmiðum og út frá sjónarmiðum íslensks atvinnulífs.

 

Erindi Óskars Jónssonar, Norðuráli.