Hvaða forsendur standast ekki?

Á vef Bandalags háskólamanna er því haldið fram að þær forsendur sem Samtök atvinnulífsins gefi sér við útreikning á áhrifum betri lífeyrisréttar opinberra starfsmanna standist engan veginn, þar sem „opinber starfsmaður í sambærilegu starfi, með samsvarandi ábyrgð og sömu menntun [sé] alla starfsævina á mun lægri launum en jafningi hans á almenna markaðinum og betri lífeyrisréttur [nái] engan veginn að jafna mismuninn í ævitekjum.” Í samantekt SA eru borin saman lífeyrisréttindi tveggja einstaklinga miðað við sambærilegar forsendur um laun, vexti og starfstíma, nema hvað annar greiðir í Lífeyrissjóð verslunarmanna en hinn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Forsendur samanburðar SA liggja alveg skýrt fyrir. BHM bera í grein sinni ekki á nokkurn hátt brigður á þær forsendur. Og því hljóta SA að spyrja, hvaða forsendur standast ekki að mati háskólamanna?

 

Í grein BHM er einungis fjallað um aðra hluti en lífeyrisréttindin, þ.e. um heildarkjör. Um þann samanburð mætti margt segja. Hvað eru t.d. „sambærileg störf“? Á almennum markaði verðleggjast störf einkum eftir framlagi og eftirspurn, en síður eftir stöðluðum mælikvörðum á borð við fjölda ára í háskóla. Þetta er hins vegar ekki efni samanburðar SA, heldur einangraður samanburður á lífeyrisréttindum. Væri þá samkvæmt aðferðafræði háskólamanna ekki hægt að bera saman mismunandi veikindarétt eða uppsagnarvernd tveggja einstaklinga, vegna mismunandi hás bílastyrks? Hvernig á að bera saman lífeyrisréttindi, ef ekki svona? Er ekki heimilt að bera saman epli og epli? Furðu sætir ef háskólamenn hafa þá skoðun.

 

Það er engin leið að bera saman lífeyrisrétt nema tala um lífeyrisrétt fyrir sömu laun. Engu er líkara en upphrópun BHM sé ætlað að slá vitræna umræðu útaf borðinu. Eða hvernig vilja háskólamenn að borin séu saman lífeyrisréttindi, ef ekki miðað við sömu laun?