Helmingi minni viðskiptahalli

„Seðlabankinn gaf út tölur um viðskiptahalla og erlenda skuldastöðu fyrir árið 2006 hinn 6. mars sl. Niðurstaðan var sú að viðskiptahallinn hefði numið 305 milljörðum króna eða 26,7% af VLF og að hrein skuldastaða í árslok hefði verið neikvæð um 120% af VLF. Þessar tölur eru ótrúlega háar og ættu að vekja skelfingu meðal allra sem eiga hagsmuna að gæta í íslensku efnahagslífi. Samt virtust viðbrögð almennt vera furðu róleg og fæstir í raun trúa því að eitthvað mikið sé að í efnahagslífinu.

 

Óraunverulegar tölur

Ástæða þess að viðbrögðin eru ekki eins og þau hefðu átt að vera samkvæmt bókinni er fyrst og fremst sú að enginn kannast við þann raunveruleika sem tölurnar lýsa. Þær aðferðir sem Seðlabankinn notar til þess að safna saman tölunum og þær tölur, sem birtar eru, lýsa ekki þeim raunveruleika sem íslenskt efnahagslíf býr við. Allt væri á öðrum endanum í atvinnulífinu ef tölur bankans væru réttar, fjöldi fyrirtækja væri á vonarvöl, stórfellt atvinnuleysi framundan og lánstraust íslenskra banka og íslenska ríkisins væri á við það sem gerist meðal þróunarlanda.

 

Fjármálageirinn hefur vaxið mjög á síðustu árum. Samkvæmt tölum Seðlabankans hafa eignir Íslendinga erlendis tífaldast á fjórum árum og eru núna 3,8 sinnum VLF. Þessi þróun hefur afgerandi þýðingu fyrir íslenskt efnahagslíf og það er ekkert sem bendir til annars en að fjármálageirinn haldi áfram að eflast. Það eru einkum tvær ástæður fyrir því að tölur Seðlabankans stemma ekki við raunveruleikann. Fyrri ástæðan er sú að bankinn afskrifar að hluta til beinar fjárfestingar Íslendinga erlendis (og erlendra aðila hérlendis) þannig að þessar tölur eru stórlega vanmetnar. Seinni ástæðan er sú að söluhagnaður, áfallinn eða innleystur, er ekki talinn til tekna (eða gjalda) í útreikningum á viðskiptahalla í samræmi við alþjóðlega staðla. Það hefur í för með sér stórar skekkjur í mati á viðskiptahallanum vegna þess að Seðlabankinn gerir heldur ekki sérstaklega grein fyrir söluhagnaði eða öðrum verðbreytingum á eignum samhliða hefðbundum útreikningum á viðskiptahalla eins og staðlarnir gera ráð fyrir að hægt sé að gera.

 

Verulegt vanmat á tekjum

Beinar fjárfestingar Íslendinga erlendis voru skráðar að heildarverðmæti 927,9 milljarðar í árslok 2006. Raunverulegt virði þessara eigna gæti verið á bilinu 1300 – 1400 milljarðar og árlegar tekjur af þeim á bilinu 100 til 180 milljarðar. Verðmæti beinna fjárfestinga á Íslandi er líka vanmetið og tekjur af þeim. Eign Íslendinga í skráðum verðbréfum námu 589,7 milljörðum í árslok 2005 og 922,4 milljörðum í árslok 2006. Viðbótarfjárfestingin á árinu í skráðum verðbréfum var talin vera 93,1 milljarður þannig að nú skyldi ætlað að verulegar tekjur hefðu myndast. Ekki svo segir Seðlabankinn og telur að arðsemi þeirra hafi aðeins verið 1,2% á síðasta ári sem er tala vel innan við 10 milljarða. Rauverulegar tekjur af þessum eignum hafa hins vegar verið í kringum 150 milljarðar sem vantar alveg inn í tekjur landsmanna samkvæmt aðferðum þjóðhagsreikninganna.

 

Samskonar útreikninga er unnt að gera á öðrum liðum eigna og skulda landsmanna. Það virðist vera verulegt vanmat á fjármagnstekjum og fjármagnsgjöldum bæði af hlutafé og lánsfé. Þegar allt er talið virðist svo sem tekjur af fjármagnseign Íslendinga erlendis séu á bilinu 370 – 480 milljarðar króna og gjöld vegna skulda Íslendinga erlendis og erlendra fjárfestina á Íslandi séu á bilinu 310 – 360 milljarðar. Þessar tölur eru í miklu betra samhengi við eigna- og skuldasafnið en tekju- og gjaldafærslurnar í greiðslujafnaðartölunum frá Seðlabankanum. Mismunur tekna og gjalda er því Íslendingum í hag um 10 – 170 milljarða meðan tölur Seðlabankans meta þær sem 100 milljarða halla. Ekki er ólíklegt að afgangurinn af þessum liðum sé yfir 50 milljarðar þannig að raunverulegur viðskiptahalli sé jafnvel innan við helmingur af því sem fram hefur komið. Það er vissulega mikill viðskiptahalli en hvorki óeðlilegur né óviðráðanlegur í ljósi mikilla fjárfestinga í íslensku atvinnulífi á síðasta ári.

 

Mikilvægt er að Seðlabankinn hafi forgöngu um að koma fram með tölur sem skýra betur raunverulega stöðu íslenska þjóðarbúsins. Það þarf að gera með því að meta raunvirði fjárfestinga Íslendinga erlendis og setja fram talnaefni um söluhagnað og aðrar verðbreytingar á erlendum eignum og skuldum. Ennfremur þarf bankinn að taka virkan þátt í endurskoðun alþjóðlegra staðla um gerð greiðslujafnaðarreikninga og tala fyrir breytingum sem lýsa betur þeim veruleika sem alþjóðlegt nútíma fjármálakerfi starfar í. Íslendingar eru í sama báti og ýmsar aðrar þjóðir að þessu leyti og slíkt frumkvæði væri afar vel þegið af mörgum aðilum.”       

 

Vilhjálmur Egilsson

 

Sjá einnig minnisblað Vilhjálms um efnið á ensku:

 

Memorandum on the Current Account Balance and Net International Investment Position in Iceland (PDF-skjal)