Hagvöxtur og heilbrigðisútgjöld

Á árinu 2002 voru útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála 65,5 milljarðar króna (bráðabirgðatölur), eða 8,4% af landsframleiðslu (VLF). Á árinu 1990 námu útgjöldin rúmum 25 milljörðum króna, en þá var hlutfallið 6,8% af VLF. Á árinu 1990 fór sjötta hver króna hins opinbera til heilbrigðismála en á árinu 2002 fer fimmta hver króna til málaflokksins.

 

 

 

 

Eins og fram kemur á myndinni hækkaði hlutfallið mest á  tímabilinu 1998-2002, eða um tæp 2%. Þetta segir okkur að heilbrigðisútgjöld hafa vaxið örar en hagvöxtur á mælikvarða landsframleiðslu, að stærri hluti af  vinnuframlagi og verðmæta- sköpun hafi runnið til málaflokksins á umræddu tímabili. Deila má um að hversu miklu leyti þróun heilbrigðisútgjalda eigi að fylgja hagvaxtarþróun almennt, en það hlýtur a.m.k. að teljast æskilegt markmið að þau vaxi ekki hraðar en landsframleiðslan hverju sinni.

 

32 milljarðar umfram hagvaxtarþróun

Á tímabilinu 1990-1997 að báðum árum meðtöldum var hlutfall heilbrigðisþjónustu af VLF að meðaltali, 6,7%. Ef heilbrigðis- útgjöld hefðu aukist í svipuðum takti og landsframleiðslan næstu fimm ár þar á eftir, þ.e. á tímabilinu 1998-2002, hefði það að öðru óbreyttu þýtt liðlega 32 milljarða kr. lægri útgjöld til heilbrigðismála á tímabilinu  en raun varð á.

 

76 þúsund krónur á mánuði á hverja fjögurra manna fjölskyldu 

Ef  tekið er mið af mannfjöldaþróun kemur í ljós að á árinu 1990 námu útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála rúmlega 151 þúsund kr. á mann, borið saman við rúmlega 227 þúsund kr. á árinu 2002, miðað við fast verðlag ársins 2002. Hér er ekki meðtalinn þáttur heimila í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu en hann var á árinu 2002 tæplega 43 þúsund kr.á mann en var á árinu 1990 rúmlega 23 þúsund krónur. 

 

 

 

Samkvæmt þessu voru útgjöld hins opinbera á hverja fjögurra manna fjölskyldu tæplega 76 þúsund krónur á mánuði á árinu 2002.

 

Hagræðing hlýtur að vera í brennidepli

Heilbrigðiskerfið er dýrt á Íslandi og heldur áfram að vaxa. Eins og Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað bent á er umfang kerfisins og vöxtur þess þvílíkur að leiðir til sparnaðar og hagræðingar í kerfinu hljóta að vera í brennidepli (um þetta er m.a. fjallað í skýrslunni Bætum lífskjörin!). Hafa samtökin m.a. bent á að hægt sé að nýta kosti samkeppni og einkarekstrar til lækkunar á kostnaði, án þess að hlutur hins opinbera í kostnaði við hvern sjúkling minnki, né heldur gæði þjónustunnar.