Hagsmunir Íslands í loftslagsmálum verði tryggðir

Samtök atvinnulífsins styðja eindregið að þingsályktunartillaga um hagsmuni Íslands í loftslagsmálum sem nú liggur fyrir Alþingi verði samþykkt. SA telja tillöguna bæði tímabæra og mikilvæga. Stefnt er að því að ljúka gerð nýs alþjóðlegs samkomulags um loftslagsmál á þessu ári, sem taka á við þegar tímabili Kyoto-bókunarinnar lýkur árið 2012. Alger nauðsyn er að útstreymisheimildir Íslands samkvæmt nýju samkomulagi endurspegli raunverulegt útstreymi að meðtöldum heimildum íslenska ákvæðisins svokallaða. Náist það ekki er vandséð hvernig Ísland geti átt aðild að nýju loftslagssamkomulagi.

 

Áætla má að útstreymi á Íslandi verði um 5,3 milljónir tonna árið 2013. Samkvæmt Kyoto-bókuninni hefur Ísland heimild fyrir allt að 3,7 milljóna tonna útstreymi á ári. Íslenska ákvæðið veitir síðan til viðbótar heimild fyrir útstreymi sem nemur 1,6 milljónum tonna á ári að meðaltali (sem telst ekki til útstreymis Íslands). Verði ekki samið um að íslenska ákvæðið gildi áfram fellur það niður eftir 2012. Fyrirtæki með starfsemi á Íslandi þyrftu þar með að sækja sér útstreymisheimildir erlendis frá og samkeppnisstaða orkuvinnslu hér á landi yrði verri en áður. Orkufyrirtækin myndu fá lægra verð fyrir orkuna og samkeppnisstaða fyrirtækja sem hyggjast nýta orkuna myndi versna líka.

 

Þetta stríðir gegn ákvæðum loftslagssamningsins sjálfs þar sem er að finna skýr ákvæði um að aðildarríki samningsins hafi fulla heimild til að nýta sínar auðlindir enda eru engar kvaðir lagðar t.d. á kola-, olíu- og jarðgasvinnslu í samningnum. Það er engan veginn ásættanlegt fyrir hagsmuni Íslands að nánast verði lagt bann við nýtingu endurnýjanlegra orkulinda þar sem orkan verður ekki flutt út nema í formi afurða en að olíuríkin geti stundað sína orkunýtingu óhindrað.

 

Í umsögn SA, SI, Samorku, LÍÚ, SF og LF um þingsályktunartillöguna segir að það sé frumskylda stjórnvalda að sjá til þess ekki verði lagðar skorður á uppbyggingu atvinnulífs í nýju alþjóðlegu samkomulagi um loftslagsmál. Sérstaklega þegar haft er í huga að atvinnurekstur á Íslandi sem samkomulagið nái til byggi á bestu fáanlegu tækni í umhverfismálum og nýti endurnýjanlegar orkulindir.

 

Sjá nánar:

 

Umsögn SA, SI, Samorku, LÍÚ, SF og LF (PDF)

 

Þingsályktunartillagan á vef Alþingis