Hagdeild SA: Fjárfestingarstefna lífeyrissjóða, áhættustýring og eftirlit

Árið 2008 var raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða sú sama og að meðaltali í OECD. Meginástæða neikvæðrar ávöxtunar lífeyrissjóða í heiminum var verðfall hlutabréfa en þau lækkuðu um 50% að meðaltali það ár. Verðlækkun hlutabréfa var hvergi meira en á Íslandi þar sem hlutabréfavísitalan lækkaði um 90%. Fjárfestingarstefna íslensku lífeyrissjóðanna á Íslandi á árunum fyrir efnahagskreppuna var svipuð og hjá lífeyrissjóðum í öðrum ríkjum.

 

Í samanburði við Norðurlöndin var fjárfestingarstefnan á Íslandi nánast sú sama, þar sem hlutdeild skuldabréfa í eignasafninu var 49% á Norðurlöndum en 46% á Íslandi og hlutdeild hlutabréfa á Norðurlöndum var 35% en 34% á Íslandi. Þetta kemur m.a. fram í nýrri samantekt hagdeildar Samtaka atvinnulífsins um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða, áhættustýringu og eftirlit. Þar er m.a. bent á að margt hafi breyst í regluumhverfi, eftirliti og innra starfi sjóðanna frá 2008 og eftirlit með þeim stóraukist. Nefnt hefur verið að allt að þriðjungur tíma framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna lífeyrissjóða fari nú í að sinna eftirlitsaðilum. Í umfjölluninni eru íslensku lífeyrissjóðirnir bornir saman við norska olíusjóðinn en fjárfestingarmarkið þeirra eru sambærileg.

 

Hagdeild SA bendir á að lífeyrissjóðir í ríkjum með hátt hlutfall hlutabréfa í eignasafni sínu hafi orðið fyrir mesta áfallinu. Lífeyrissjóðir í ríkjum þar sem saman fór að hlutur hlutabréfa í eignasafninu var stór og verðfall þeirra var mikið hafi hins vegar verið með lökustu ávöxtunina. Það á einkum við um Írland, Ástralíu og Bandaríkin. Lífeyrissjóðir með litla hlutdeild hlutabréfa í eignasafni sínu í ríkjum þar sem verð hlutabréfa lækkaði lítið komu best út úr efnahagskreppunni 2008. Það átti einkum við um Mexíkó, Tékkland og Slóvakíu, en lífeyrissjóðir í þessum ríkjum eru tiltölulega litlir, eða á bilinu 4-12% af landsframleiðslu.

 

Eignir norska ríkislífeyrissjóðsins (olíusjóðsins) eru svipaðar að stærð í hlutfalli við landsframleiðslu og eignir íslensku lífeyrissjóðanna. Eignir norska sjóðsins voru 125% af landsframleiðslu Noregs á árinu 2011 og hrein eign íslensku lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris í árslok 2011 námu 128% af landsframleiðslunni 2011. Ávöxtun norska sjóðsins var neikvæð um 23% árið 2008 en það snérist við á árinu 2009 í takt við þróun hlutabréfamarkaða þegar hún var jákvæð um 26%. Helsta markmið norska sjóðsins er að ná sem bestri ávöxtun að teknu tilliti til stýrðrar áhættu. Stefnt er að því að ávöxtun hans sé hærri en að meðaltali í ákveðnu viðmiðunarsafni verðbréfa. Helstu atriði stefnunnar er að sjóðurinn má einungis fjárfesta erlendis, 60% skal fjárfesta í hlutabréfum, 35-40% í skuldabréfum með fasta vexti og allt að 5% í fasteignum. Helmingi eignanna skal ráðstafa í Evrópu, 35% í Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum og 15% í Asíu og Ástralíu. Sjóðnum er heimilt að eiga allt að 10% í skráðu hlutafélagi. Ekki er heimilt að fjárfesta meira en 3% af eignum sjóðsins í skuldabréfum með lægri einkunn en Baa3/BBB-.

 

Í lífeyrissjóðalögunum segir að fé lífeyrissjóðs skuli ávaxta með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Þetta er nákvæmlega sama markmið og norska ríkislífeyrissjóðnum er sett.

 

Löggjafinn hefur gengið býsna langt í þeirri viðleitni að tryggja dreift eignasafn og dreifa áhættu lífeyrissjóða. Í ljósi þess sem gerðist í efnahagshruninu hefur þó t.d. takmörkun fjárfestinga erlendis ekki verið sjóðunum til hagsbóta. Við núverandi aðstæður á Íslandi, gjaldeyrishöft, örsmáan hlutabréfamarkað og fáa fjárfestingarkosti, takmarka þó lögin ekki svigrúm sjóðanna til ráðstöfunar fjármuna. Helsta hindrunin er að reynt getur á hámark óskráðra verðbréfa við 20% af hreinni eign sem getur takmarkað svigrúm sjóðanna til fjárfestinga.

 

Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna felst í því að gætt er varfærni í fjárfestingum og að eingöngu er litið til hagsmuna lífeyrisþega. Eðlilegt er að löggjöfin þróist með tilliti til breyttra aðstæðna og nýrra fjárfestingarkosta. Farsælast er að breytingar á löggjöfinni séu vel ígrundaðar og grundvallist á þeim langtímasjónarmiðum sem sjóðirnir byggja á. Þegar að endurskoðun löggjafarinnar kemur mun 3,5% ávöxtunarviðmiðið eflaust koma til ítarlegrar umfjöllunar en breyting á því hefur gríðarleg áhrif. Sem dæmi má nefna að ef ávöxtunarviðmiðið væri 3,0% þyrfti að koma til 2% hækkun á iðgjaldi, úr 12% í 14%, ef lífeyrisréttindi ættu að haldast óbreytt.

 

Eftirlit Fjármálaeftirlitsins (FME) með lífeyrissjóðunum hefur aukist mikið á undanförnum árum. Einn mælikvarði á aukið eftirlit FME er fjölgun starfsmanna þess í í eftirliti með lífeyrissjóðum. Ársstörfum í eftirliti með lífeyrissjóðum fjölgaði úr 5,7 í 14,4 eða um 150% milli áranna 2008 og 2011.

 

Því verður ekki með sanngirni haldið fram að eftirlit með lífeyrissjóðum sé ábótavant. Mjög vafasamt er að hægt sé að réttlæta aukinn kostnað við enn aukið eftirlit, því það er ærið nú þegar, og aukning þess gæti hugsanlega unnið gegn hagsmunum lífeyrisþega vegna aukins kostnaðar og þunglamalegri starfsemi. Sem dæmi um hversu umfangsmiklir eftirlitsþættir í rekstri lífeyrissjóða eru þá hefur því verið haldið fram að allt að þriðjungur tíma framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna lífeyrissjóða fari í að sinna eftirlitsaðilum.

 

FME er ekki eitt um það að hafa eftirlit með lífeyrissjóðunum. Umfangsmikið eftirlit felst einnig í störfum ytri og innri endurskoðenda og endurskoðunarnefnda. Tveir síðarnefndu aðilarnir hafa eftirlit með því að innra eftirlit og áhættustýring séu virk. Ríkari kröfur en áður eru nú gerðar til lífeyrissjóða hvað varðar fagmennsku, þekkingu og áhættustýringu. Hæfispróf FME á stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum lífeyrissjóða eru til marks um fyrrnefndu þættina. Nýlega tóku gildi leiðbeinandi tilmæli FME um áhættustýringu (eftirlitskerfi) lífeyrissjóða í desember 2011. Þær reglur sem sjóðunum ber að lúta samkvæmt þeim eru afar ítarlegar og eru fyrirmyndar sóttar í það sem best þykir gerast erlendis í þessu efni.

 

Sjá umfjöllun hagdeildar Samtaka atvinnulífsins í heild hér að neðan:

Hagdeild SA: Fjárfestingarstefna lífeyrissjóða, áhættustýring og eftirlit

Í kjölfar skýrslu úttektarnefndar á lífeyrissjóðunum í aðdraganda bankahrunsins hafa ýmsir látið í ljós það álit að þeir hafi verið of áhættusæknir á árunum fyrir efnahagshrunið og því þurfi stjórnvöld og Alþingi nú á árinu 2012 að herða eftirlit með sjóðunum og breyta lögum um lífeyrissjóði með það að markmiði að það dragi úr áhættu í fjárfestingum þeirra.

 

Þeir sem tjá sig í þessa veru virðast telja að tap lífeyrissjóðanna við efnahagshrunið 2008 hafi að einhverju leyti stafað af óeðlilega áhættusækinni fjárfestingarstefnu og því séu lögin um lífeyrissjóði verulega gölluð að heimila slíkt. Þá sé eftirlit með sjóðunum lítið og þurfi að herða. Þessi umræða er nokkuð yfirborðskennd þar sem ekki er bent á hverju þurfi að breyta í lögum um lífeyrissjóði um fjárfestingar og áhættu og hún tekur ekki mið af því að margt hefur breyst í regluumhverfi, eftirliti og innra starfi lífeyrissjóða frá árinu 2008. Um þetta verður fjallað hér.

 

Neikvæð ávöxtun íslensku lífeyrissjóðanna 2008 í alþjóðlegu samhengi.

Samkvæmt OECD var raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða -22,9% árið 2008 samanborið við -23,0% í OECD-ríkjunum, sem er vegið meðaltal þeirra 23 OECD-ríkja þar sem eignir lífeyrissjóða nema a.m.k. 4% af landsframleiðslu. (Sjá mynd 1. og töflu 1.). Ávöxtun lífeyrissjóðanna á Íslandi var þannig sú sama og í OECD að meðaltali. Óvegið meðaltal raunávöxtunar þessara ríkja var -17,4% og var Ísland með fjórðu lökustu ávöxtunina á eftir Írlandi, Ástralíu og Bandaríkjunum. Þessi mikli munur á vegnu og óvegnu meðaltali stafar af því að Bandaríkin vega þungt í vegna meðaltalinu og þar var ávöxtunin einna neikvæðust, eða -26,7%.

 

Megin ástæða neikvæðrar ávöxtunar í öllum ríkjunum var fall hlutabréfaverðs á árinu 2008. Að meðaltali féll hlutabréfaverð í heiminum um 50% á því ári. Mesta verðfallið var í kauphöllinni á Íslandi, tæp 90%, þar á eftir kom Írland með 64% lækkun og í Bandaríkjunum og Ástralíu féll verðið um 40%. Þrátt fyrir þetta mikla áfall á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði þá er reynslan sú að markaðirnir ná sér aftur á strik eftir áföll og til lengri tíma er ávöxtun fjárfestinga í hlutabréfum mun meiri en í ríkisskuldabréfum.

 

Ríki þar sem lífeyrissjóðir voru með hátt hlutfall hlutabréfa í eignasafni sínu hlutu því að verða fyrir mesta áfallinu. Lífeyrissjóðir í ríkjum þar sem saman fór að hlutur hlutabréfa í eignasafninu var stór og verðfall þeirra mikið hlutu þar af leiðandi að verða fyrir mestu tjóni. Þetta á einkum við um Írland, Ástralíu og Bandaríkin. (Sjá töflu 1 og mynd 2). Lífeyrissjóðir með litla hlutdeild hlutabréfa í eignasafni sínu í ríkjum þar sem verð hlutabréfa lækkaði hlutfallslega lítið komu hins vegar best út úr efnahagshruninu. Það á einkum við um Mexíkó, Tékkland og Slóvakíu, en lífeyrissjóðir í þessum ríkjum eru tiltölulega litlir, eða á bilinu 4-12% af VLF. Íslenskir lífeyrissjóðir voru með svipaða hlutdeild hlutabréfa í eignasafni sínu og almennt gerðist í OECD-ríkjunum en verð hlutabréfa lækkaði mest og því lentu þeir í hópi þeirra sjóða sem verst fóru út úr efnahagskreppunni.

 

Fjárfestingarstefna íslensku lífeyrissjóðanna í alþjóðlegu samhengi

Lífeyrissjóðir ráðstafa fjármunum sem þeir hafa yfir að ráða í innlán í bönkum, skuldabréf opinberra aðila og einkaaðila, lánveitingar til sjóðsfélaga, hlutabréf, fasteignir og jarðnæði, fjárfestingarsjóði, tryggingasamninga og framtakssjóði. Lífeyrissjóðir Í OECD-ríkjunum 23 ráðstöfuðu árið 2007 að meðaltali 41,5% eigna sinna í skuldabréf opinberra aðila og einkaaðila og 25,6% í hlutabréf. (Sjá töflu 2). Á Norðurlöndum, að Íslandi undanskildu, voru skuldabréf 49% eigna lífeyrissjóða og hlutabréf 35%. Í þeim níu ríkjum þar sem eignir lífeyrissjóða nema meira en 30% af landsframleiðslu voru skuldabréf 26% eignanna og hlutabréf 37%. Lífeyrissjóðirnir á Íslandi skáru sig ekki á nokkurn hátt úr í þessum samanburði þar sem skuldabréfin voru 46% eignanna og hlutabréf 34%. Í samanburði við meðaltal Norðurlanda var fjárfestingarstefnan á Íslandi nánast sú sama, þ.e. hlutdeild skuldabréfa var 49% á Norðurlöndum en 46% á Íslandi, hlutdeild hlutabréfa á Norðurlöndum var 35% en 34% á Íslandi og hlutdeild fjárfestingarsjóða á Norðurlöndum var 6% en 5% á Íslandi.

 

Í þessu sambandi er áhugavert að bera saman fjárfestingarstefnu norska olíusjóðsins (Statens pensjonsfond), sem norski seðlabankinn rekur, við þá stefnu sem löggjafinn hefur markað fyrir íslensku lífeyrissjóðina. Stærð sjóðsins er 3.400 milljarðar norskra króna sem nemur 125% af landsframleiðslu Noregs, samanborið við hreina eign íslensku lífeyrissjóðanna sem nam 128% af landsframleiðslu Íslands árið 2011. Ávöxtun norska sjóðsins var neikvæð um 23% árið 2008 en það snérist við á árinu 2009 í takt við þróun hlutabréfamarkaða þegar hún var jákvæð um 26%. Helsta markmið norska sjóðsins er að ná sem bestri ávöxtun að teknu tilliti til stýrðrar áhættu. Stefnt er að því að ávöxtun hans sé hærri en að meðaltali í ákveðnu viðmiðunarsafni verðbréfa. Helstu atriði stefnunnar er að sjóðurinn má einungis fjárfesta erlendis, 60% skal fjárfesta í hlutabréfum, 35-40% í skuldabréfum með fasta vexti og allt að 5% í fasteignum. Helmingi eignanna skal ráðstafa í Evrópu, 35% í Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum og 15% í Asíu og Ástralíu. Sjóðnum er heimilt að eiga allt að 10% í skráðu hlutafélagi. Ekki er heimilt að fjárfesta meira en 3% af eignum sjóðsins í skuldabréfum með lægri einkunn en Baa3/BBB-.

 

Umgjörð fjárfestingarstefnunnar í lífeyrissjóðalögunum

Í lífeyrissjóðalögunum (nr. 129/1997) eru ítarleg ákvæði um fjárfestingarstefnu sjóðanna. Í 36. gr.  segir að fé lífeyrissjóðs skuli ávaxta með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Í umræðu í kjölfar skýrslu úttektarnefndarinnar hefur því stundum ranglega verið haldið fram að þetta ákvæði feli í sér hvata til áhættusækni og skammtímasjónarmiða en svo er alls ekki því stjórnum sjóðanna ber skýra skylda til að vega og meta þá áhættu sem í fjárfestingum felast ekki síður en að líta til ávöxtunar. Í greininni eru tilteknir 11 eignaflokkar sem sjóðunum er heimilt er að fjárfesta í. Tiltekin er hámarksstærð hvers eignarflokks í hlutfalli við hreina eign sjóðsins til þess að tryggja áhættudreifingu.

 

Samkvæmt greininni skulu verðbréf (skuldabréf, hlutabréf, hlutdeildarskírteini) skráð á skipulegum markaði sem starfar reglulega, er opinn almenningi og er viðurkenndur af Fjármálaeftirlitinu (FME). Þó er sjóðunum heimilt að fjárfesta allt að 20% í óskráðum verðbréfum ef þau eru útgefin af aðilum innan OECD eða EES. Fjárfestingar í óskráðum hlutabréfum eru einungis heimilar ef engar hömlur eru á viðskiptum með þau og ársreikningar hlutafélaganna öllum aðgengilegir. Þannig mega fasteignaskuldabréf ekki vega meira en 35% af hreinni eign. Samanlögð eign í skuldabréfum útgefnum af sveitarfélögum og fjármálafyrirtækjum, hlutdeildarskírteinum og öðrum verðbréfum mega að hámarki nema 50% af hreinni eign. Hlutabréf mega ekki nema meira en 60% af hreinni eign. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að stór hluti eigna lífeyrissjóða erlendis tengist hlutabréfum. Samanlögð eign í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum má að hámarki nema 60% af hreinni eign. Samanlögð eign í verðbréfum útgefnum af sama aðila, tengdum aðilum eða aðilum sem tilheyra sömu samstæðu skulu að hámarki nema 10% af hreinni eign. Sjóðunum er ekki heimilt að eiga meira en 15% hlutafjár í fyrirtæki og ekki meira en 25% af hlutum útgefnum af verðbréfasjóði eða fjárfestingarsjóði. Óheimilt er að binda meira en 25% af hreinni eign í sama banka. Loks er óheimilt að binda meira en 50% af hreinni eign í erlendum gjaldmiðlum.

 

Samkvæmt umræddri lagagrein hefur löggjafinn gengið býsna langt í þeirri viðleitni að tryggja dreift eignasafn og dreifa áhættu. Vissulega er alltaf álitaefni hvaða takmörk eiga að gilda í einstökum eignaflokkun. Á grundvelli laganna setja lífeyrissjóðirnir sér eigin fjárfestingarstefnu innan þeirra marka sem þar eru sett. Framangreind flokkun og mörk eru sett til þess að tryggja áhættudreifingu og takmarka áhættu og er ekki augljóst að tilefni sé til þess að gera miklar breytingar á þessum ákvæðum. Í ljósi þess sem gerðist í efnahagshruninu hefur þó t.d. takmörkun fjárfestinga erlendis alls ekki verið sjóðunum til hagsbóta þótt í engu tilviki hafi reynt á 50% mörkin. Við núverandi aðstæður á Íslandi, gjaldeyrishöft, örsmáan hlutabréfamarkað og fáa fjárfestingarkosti, takmarka lögin ekki svigrúm sjóðanna til ráðstöfunar fjármuna. Helsta hindrunin er að reynt getur á hámark óskráðra verðbréfa við 20% af hreinni eign sem getur hugsanlega takmarkað svigrúm sjóðanna til fjárfestinga.

 

Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna hvetur þannig til þess að gætt sé varfærni í fjárfestingum og að eingöngu sé litið til hagsmuna lífeyrisþega. Eðlilegt er að löggjöfin þróist með tilliti til breyttra aðstæðna og nýrra fjárfestingarkosta. Farsælast er að breytingar á löggjöfinni séu vel ígrundaðar og grundvallist á þeim langtímasjónarmiðum sem sjóðirnir byggja á. Við endurskoðun löggjafar mun 3,5% ávöxtunarviðmiðið eflaust koma til umfjöllunar en breyting á því hefur gríðarleg áhrif. Sem dæmi má nefna að ef ávöxtunarviðmiðið væri 3,0% þyrfti að koma til 2% hækkun á iðgjaldi, úr 12% í 14%, ef lífeyrisréttindi ættu að haldast óbreytt.

 

Eftirlit með lífeyrissjóðunum

Samkvæmt lífeyrissjóðalögunum hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með lífeyrissjóðunum. Lögin mæla fyrir um umfangsmikið eftirlit stofnunarinnar með þeim og er FME nefnt 30 sinnum á nafn í lögunum. Í meginatriðum er eftirlitið þrenns konar, þ.e. upplýsingagjöf sjóðanna um rekstur og mikilvægar breytingar og viðbrögð FME við þeim, setning reglna og leiðbeinandi tilmæla um starfsemi sjóðanna og sérstakar athuganir á rekstri þeirra.  

Á síðasta ári tók FME upp hæfispróf fyrir stjórnarmenn lífeyrissjóða sem sambærilegt er við það sem stjórnarmenn fjármálafyrirtækja þurfa að standast. Þar er prófuð þekking, viðhorf og skilningur stjórnarmanns af þriggja manna nefnd í fjögurra klukkustunda munnlegu prófi. Ljóst er að hæfisprófið mun þrengja þann hóp sem velst til stjórnarsetu í lífeyrissjóðunum og gera hann einsleitari, en jafnframt er ljóst að prófið verður til þess að auka þekkingu stjórnarmanna og skilning þeirra á ábyrgð sinni.

 

Einn mælikvarði á aukið eftirlit FME á undanförnum árum er fjölgun starfsmanna þess. Milli áranna 2004 og 2011 þrefaldaðist starfsmannafjöldi FME, úr 33 starfsmönnum í 103. Sá hluti ráðstöfunartíma FME sem varið var til eftirlits með lífeyrissjóðunum var 17,5% árið 2004 og 14,0% 2011 sem svarar til þess að ársstörfum í eftirliti með lífeyrissjóðum hafi fjölgað úr 5,8 í 14,4 eða um 150%. Sama aukning er frá árinu 2008 en þá voru ársstörf í eftirliti með lífeyrissjóðunum 5,7.

 

Auk eftirlits FME felst umfangsmikið eftirlit með lífeyrissjóðum í störfum ytri og innri endurskoðenda og endurskoðunarnefnda.Tveir síðarnefndu aðilarnir hafa eftirlit með því að innra eftirlit og áhættustýring séu virk. 

Því verður ekki með sanngirni haldið fram að eftirlit með lífeyrissjóðum sé ábótavant. Mjög vafasamt er að hægt sé að réttlæta kostnað við enn aukið eftirlit, því það er ærið nú þegar, og aukning þess gæti þvert á móti unnið gegn hagsmunum lífeyrisþega vegna aukins kostnaðar og þunglamalegri starfsemi. Sem dæmi um hversu umfangsmiklir eftirlitsþættir í rekstri lífeyrissjóða eru þá hefur því verið haldið fram að allt að þriðjungur tíma framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna lífeyrissjóða fari í að sinna eftirlitsaðilum.

 

Auknar kröfur um áhættustýringu

Ríkari kröfur en áður eru nú gerðar til lífeyrissjóða hvað varðar fagmennsku, þekkingu og áhættustýringu. Hæfispróf FME á stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum lífeyrissjóða eru til marks um fyrrnefndu þættina auk þess sem nú er þess krafist að þeir hafi í þjónustu sinni starfsmann sem lokið hefur prófi í verðbréfaviðskiptum. Hvað áhættustýringu varðar þá tóku gildi leiðbeinandi tilmæli FME um áhættustýringu (eftirlitskerfi) lífeyrissjóða í desember 2011. Þær reglur sem sjóðunum ber að lúta skv. tilmælunum eru afar ítarlegar (15 bls.) og eru fyrirmyndar sóttar í það sem best þykir gerast erlendis í þessu efni.

 

Meðal þess sem sjóðunum ber nú að gera er að þróa aðferðir til að greina, mæla, fylgjast með, meta og stýra þeim áhættum sem starfseminni fylgja og bregðast við þeim. Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs á að tryggja með ýmsum aðgerðum að þetta gangi eftir. Í tilmælunum er talið mikilvægt að stjórnir móti fjárfestinga- og áhættustefnu til a.m.k. þriggja ára. Skilgreina ber áhættuþol og áhættuvilja. Setja ber upp sviðsmyndir af áhættuþáttum sem fylgja mismunandi eignaflokkum og kortleggja samspil milli áhættu og ávöxtunar. Þetta eru aðeins nokkur dæmi af mörgum um stórauknar kröfur til sjóðanna.

 

Á þessu ári og þau næstu þurfa lífeyrissjóðirnir að nota aukinn mannafla og fjármuni til þess uppfylla kröfur FME um áhættustýringu. Þótt tilmælunum fylgi aukinn kostnaður mun hann án vafa skila sér í bættu