Hækkar Alþingi rafmagnsreikninginn?

Þingmenn úr öllum flokkum Alþingis hafa sameinast um að leggja til að ríkisstjórn Íslands skipi nefnd til að móta stefnu um hvernig leggja megi á næstu árum og áratugum raflínur í jörð sem nú eru ofan jarðar. Þingsályktunartillaga þessa efnis var lögð fram skömmu fyrir jólafrí þingmanna en koma verður í ljós hvort jólagjöf þeirra verði á endanum metin til fjár. Þó er ljóst er að verðmiði hennar, m.v. núverandi aðstæður og fyrirliggjandi tækni, gæti hlaupið á yfir þrjú hundruð milljörðum króna. Verði það almenn stefna að leggja skuli raflínur í jörð mun flutningskostnaður raforku á Íslandi margfaldast og reikningurinn sendur til íslenskra fyrirtækja og heimila. Það mun hindra stofnun nýrra fyrirtækja og draga úr hvata til nýsköpunar auk þess að draga úr lífsgæðum landsmanna. Flutningskostnaður raforku er nú þegar tvöfalt hærri á Íslandi en á Norðurlöndunum, samkvæmt upplýsingum Landsnets, sem skýrist af miklum fjárfestingum og uppbyggingu á undanförnum árum.

 

Dýrt að fara alla leið  

Fyrirtækið Landsnet rekur flutningskerfið fyrir raforku á Íslandi. Fram hefur komið í máli forstjóra Landsnets að ef núverandi raforkukerfi landsins hefði verið byggt upp sem strengjakerfi, þ.e. raflínur grafnar í jörð, þá hefði það kostað um 260 milljarða króna í stað 58 milljarða króna. Flutningskostnaður væri jafnframt allt að þrefaldur á við það sem þekkist í dag. Því er ljóst að samkeppnisstaða Íslands myndi versna verulega, yrði ráðist í framkvæmdir sem þessar miðað við núverandi tækni.

 

Þetta sýnir umfangið á verkefninu en undanfarið hefur verið ráðist í mikla og dýra uppbyggingu á flutningskerfi Íslendinga sem hefur að litlu leyti verið afskrifuð – en endingartími raflína í lofti er áætlaður 50-60 ár samanborið við 30-35 ára endingu jarðstrengja. Rekstrar- og viðhaldskostnaður jarðstrengja er jafnframt meiri og viðgerðartími lengri og er jafnvel mældur í vikum. Því þyrfti að leggja fleiri rafmagnslínur í jörð til að viðhalda afhendingaröryggi í stað þess að nýta loftlínur. Rekstraröryggi er einnig minna og sveigjanleiki til breytinga er minni.

 

Lagning jarðstrengja stendur yfir

Talsvert hefur verið lagt af jarðstrengjum á Íslandi á undanförnum árum og til stendur að halda þeirri vinnu áfram. Það er gert í dreifikerfum í nágrenni við þéttbýli og þar sem umhverfi er viðkvæmt eða sérstakt. Jarðstrengir eru hins vegar ekki notaðir enn sem komið er í flutningskerfum þar sem notast er við háspennu, þar sem það er hvorki tæknilega né kostnaðarlega fýsilegt. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er hlutfall jarðstrengja í flutningskerfi fyrirtækisins svipað og því sem gerist í öðrum Evrópulöndum.

 

Að halda Reykjanesi í sambandi

Reykjanes er nærtækt dæmi um kosti og galla þess að leggja rafmagnslínur í jörð en Landsnet hefur kynnt þar nýverið áform um uppbyggingu nýs flutningskerfis, þar sem núverandi kerfi er orðið úrelt og ekki nægilega öruggt. Að mati Landsnets er knýjandi að byggja upp og endurnýja raforkuflutningskerfið á Reykjanesskaga, burtséð frá öllum áformum flestra sveitarfélaga á svæðinu um uppbyggingu iðnaðarsvæða. Stofnkostnaður framkvæmda við loftlínur og jarðstrengi á tilteknum köflum er áætlaður 8,8 milljarðar króna. Viðbótarkostnaður við að leggja allar raflínur í jörð næmi hins vegar um 32 milljörðum króna. Til samanburðar má nefna að fyrir það fé væri hægt að tvöfalda Suðurlandsveg þrisvar sinnum og tvöfalda Reykjanesbrautina fimm sinnum alla leið með mislægum gatnamótum.

 

Eftir brotthvarf varnarliðsins og minnkandi aflaheimildir hafa komið fram stórhuga hugmyndir um atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi. Á teikniborðinu eru netþjónabú, alþjóðlegt kvikmyndarver, álver og fleira en þessi verkefni verða ekki að veruleika nema raforkukerfið verði styrkt á Reykjanesi. Verði þess krafist að rafmagnslínur á Reykjanesi verði grafnar í jörð, og fyrirtæki látin greiða kostnaðinn, eru takmarkaðar líkur á að þau verði starfrækt á Reykjanesi eða annars staðar á Íslandi.

 

Umhverfisáhrif af lagningu jarðstrengja

Þegar rætt er um kosti og galla rafmagnslína er sjálfsagt að halda til haga að báðir kostir hafa í för með sér umhverfisáhrif. Mikið hefur verið rætt um umhverfisáhrif af loftlínum en minna um umhverfisáhrif af jarðlínum. Þau eru hins vegar nokkur, sérstaklega þegar farið er um ósnortið land. Yfirleitt er reynt að leggja strengina þannig að lítið beri á en þegar jarðstrengur er lagður þarf að vera autt svæði í kringum strenginn (15-20 metrar) til að hægt sé að komast að honum til viðgerða og viðhalds og með honum þarf að liggja vegur, eins og meðfram loftlínum. Sjá skýringarmynd hér að neðan.

 

Raflínur í jörð - skýringarmynd

Mynd: Landsnet

 

Ef leggja á tvo strengi samhliða þarf ennfremur að grafa tvo skurði. Jarðstrengir þykja henta verr á svæðum þar sem er eldvirkni og hætta á jarðskjálftum.

 

Vilji SA

Samtök atvinnulífsins telja rétt að halda áfram lagningu jarðstrengja þar sem það er hagkvæmt og framkvæmanlegt en miðað við núverandi aðstæður og fyrirliggjandi tækni sé mikilvægara að efla svokallaða byggðalínu til að fyrirtæki út um allt land hafi aðgang að raforku til atvinnuuppbyggingar áður en leitað verði leiða til að grafa allar raflínur í jörð með tilheyrandi umhverfisraski og ómældum kostnaði. Benda má á að byggðalínan er þegar fullnýtt og fyrir liggur að styrkja þurfi hana til að unnt sé að halda áfram atvinnuuppbyggingu á ákveðnum svæðum. SA telja það jafnframt forgangsmál að fjarskipti fólks og fyrirtækja á landsbyggðinni verði bætt svo atvinnulíf þar geti setið við sama borð og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni þess.

 

SA telja rétt að stefnt skuli að því að þróun í lagningu jarðstrengja hér á landi byggist á hagkvæmnissjónarmiðum og verði áfram með svipuðum hætti og gerist í okkar samkeppnislöndum. Ekki sé tilefni til að krefjast þess að svo komnu máli að allar raflínur við einstök verkefni fari í jörð á kostnað atvinnulífsins og fólksins í landinu, eins og áðurnefnd tillaga þingmannanna felur í sér.

 

Sjá nánar:

 

Þingsályktunartillaga um lagningu raflína í jörð