Gögn frá fundi SA um kjarasamninga og efnahagshorfur

Samtök atvinnulífsins efndu í morgun til opins morgunverðarfundar á Hilton Reykjavík Nordica þar sem rætt var um komandi kjaraviðræður og lagt mat á stöðu og horfur í efnahagsmálum. Yfirskrift fundarins var Hvert stefnir vinnumarkaðurinn? Meðal frummælenda voru Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, Hrund Rudolfsdóttir, formaður SVÞ og Svana Helen Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Stika.

 

 

Fundurinn var vel sóttur, en glærur ræðumanna má nálgast hér að neðan. Vilhjálmur Egilsson fór yfir stöðuna á vinnumarkaðnum frá sjónarhóli SA, en í máli hans kom fram að meginatriði í komandi kjarasamningum væri m.a. að hækka lágmarkslaun - við núverandi aðstæður væru almennar launahækkanir ekki réttlætanlegar.

 

 

Sigurjón Þ. Árnason ræddi um stöðu og horfur í efnahagsmálum. Áhrif af alþjóðlegri fjármálakreppu þar sem Ísland er ekki undanskilið og heimatilbúinn vanda í hagstjórninni. Sigurjón benti á leiðir til úrbóta en hann sagði mestu máli skipta að koma sem fyrst á jafnvægi í efnahagsmálunum. Hófsamir kjarasamningar á næstu mánuðum væru lykilatriði í því sambandi.

 

 

Hrund Rudolfsdóttir formaður SVÞ talaði um hvað ætti að semja í komandi kjarasamningum og benti á að kjaraviðræður snúist um fleira en laun – til dæmis verði að ráðast gegn kynbundnum launamun og kynbundinni mismunun á vinnumarkaðnum.

 

 

Svana Helen Björnsdóttir ræddi um stöðu nýsköpunar og sprotafyrirtækja en hún sagði þensluna á vinnumarkaðnum gera þessum fyrirtækjum sérlega erfitt fyrir um þessar mundir – samkeppnisstaða þeirra gagnvart erlendri samkeppni væri afar erfið.

 

Ingimundur Sigurpálsson, formaður SA, stýrði fundi.

 

Glærur Vilhjálms

 

Glærur Sigurjóns

 

Glærur Hrundar