Gengi krónunnar, væntingar og einkaneysla

Væntingavísitala Gallup er mæld í hverjum mánuði og byggist á svörum almennings við fimm spurningum. Þær eru mat á núverandi efnahagsaðstæðum, væntingar til efnahagslífsins eftir 6 mánuði, mat á núverandi ástandi í atvinnumálum, væntingar til ástands í atvinnumálum eftir 6 mánuði og væntingar til heildartekna heimilisins eftir 6 mánuði. Vísitalan tekur gildi á bilinu 0-200 þannig að ef hún er yfir 100 þá eru fleiri bjartsýnir en svartsýnir.

 

Mikil fylgni er á milli breytinga væntingavísitölunnar og einkaneyslunnar og gefur hún jafnframt sterkar vísbendingar um þróun neyslu framundan. Þessi fylgni kemur glögglega fram á meðfylgjandi mynd.

Vöxtur einkaneyslu milli ársfjórðunga og væntingavísitala Gallup

Smellið til að sjá stærri mynd

 

Væntingavísitalan hefur hækkað mikið undanfarna mánuði og hefur aðeins tvívegis áður mælst hærri, í febrúar á þessu ári og í maí 2003. Vísitalan bendir því til þess að einkaneysla hafi aukist á þriðja ársfjórðungi ársins og muni verða mikil á næstu mánuðum. 

 

Sterk fylgni milli væntinga almennings og gengis krónunnar

Þar sem margir þættir mynda væntingavísitöluna eru eflaust margvíslegar skýringar á breytingum hennar, en athygli vekur hve sterk fylgni er á milli hennar og gengis krónunnar. Ef marka má þessa fylgni virðist gengi krónunnar hafa mikil áhrif á hugmyndir almennings um ástand efnahagsmála eins og það er og hvernig það muni þróast á næstunni. Fylgnin kemur skýrt fram á meðfylgjandi mynd. 

Væntingavísitala Gallup og gengi krónunnar

Smellið til að sjá stærri mynd

 

Þegar gengisvísitala hækkar þá veikist gengi krónunnar og þegar hún lækkar þá styrkist það. Sambandið milli gengis- og væntingavísitalnanna er mjög skýrt árið 2001 en þá hækkaði gengisvísitalan mikið og væntingavísitalan lækkaði jafnframt mikið. Sambandið milli vísitalnanna er því öfugt, þ.e. þegar gengisvísitalan hækkar þá lækkar væntingavísitalan. Sambandið er mjög sterkt og mælist tölfræðileg fylgni yfir 80%.

 

Á árinu 2005 lækkaði gengisvísitalan mikið (gengið styrktist) og væntingavísitalan hækkaði. Væntingavísitalan náði hámarki í febrúar 2006 þegar gengisvísitalan náði lágmarki við gildið 105. Þegar gengi krónunnar féll í mars síðastliðnum þá lækkaði væntingavísitalan jafnt og þétt á þeim mánuðum sem á eftir fylgdu og komst í júlí í sitt lægsta gildi frá árinu 2001. Þegar gengi krónunnar fór að styrkjast á ný í ágúst sl. fór væntingavísitalan að hækka á ný og var síðast svipuð og hún hefur orðið hæst.

 

Hækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands undanfarna mánuði hefur stuðlað að umtalsverðri hækkun á gengi krónunnar á ný eftir fall hennar í mars síðastliðnum. Peningastefna Seðlabankans hefur einkum haft áhrif á gengi krónunnar en áhrif hennar á vexti á markaði takmarkast við kjör á skammtímalánum, sem eru tiltölulega lítill hluti lánamarkaðarins. Hærri skammtímavextir stuðla vissulega að samdrætti eftirspurnar heimilanna að einhverju marki en hækkun á gengi krónunnar hefur hins vegar gagnstæð áhrif, m.a. með því að auka kaupmátt heimilanna. Peningamálastefna, sem nær ekki að þrengja það mikið að fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni að þau dragi saman seglin, og sem birtist heimilunum einkum í formi hærra gengis krónunnar og lægra innflutningsverðs, stuðlar að auknum kaupmætti heimilanna, jákvæðum væntingum og vexti einkaneyslu. Í ljósi þess sterka sambands sem virðist vera á milli gengis krónunnar, væntinga heimilanna og einkaneyslu kann að vera að áhrif peningamálastefnu Seðlabankans, þegar hún fer að mestu í gegnum gengisfarveginn, á kaupmátt og væntingar heimilanna séu vaxtaáhrifunum yfirsterkari og stuðli þannig ekki að aðhaldi heldur þvert á móti að aukinni einkaneyslu og umsvifum.

 

Gengi krónunnar og vísitala efnahagslífsins

Væntingar stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins hafa verið kannaðar af Gallup frá árinu 2002. Svonefnd vísitala efnahagslífsins er byggð á mati stjórnenda þessara fyrirtækja á því hvort núverandi aðstæður í efnahagslífinu séu almennt góðar eða slæmar. Þegar skoðuð er fylgni milli vísitölu efnahagslífsins og gengisvísitölu krónunnar kemur fram mikill munur eftir því hvort fyrirtækin starfa í sjávarútvegi eða í öðrum atvinnugreinum. Mjög mikil jákvæð fylgni er milli gengisvísitölu krónunnar og vísitölu sjávarútvegs (+88%), þ.e. þegar gengisvísitalan er há, og gengi krónunnar þar með veikt, þá telja stjórnendur í sjávarútvegi aðstæður vera góðar. Fylgnin er hins vegar neikvæð (-45%) milli vísitalnanna þegar allar aðrar greinar en sjávarútvegur eru spyrtar saman, þ.e. þegar gengið er sterkt þá telja stjórnendur í atvinnulífinu, að sjávarútvegi undanskildum, aðstæður vera góðar. Athygli vekur að í nýjustu mælingunni á mati fyrirtækja telja stjórnendur í sjávarútvegi aðstæður hafa batnað frá því í maí síðastliðnum þrátt fyrir hækkun gengis krónunnar, en skýringin á því liggur í rúmlega 10% meðalhækkun verðlags sjávarafurða í erlendri mynt síðastliðna mánuði. 

Mat stjórnenda fyrirtækja á núverandi aðstæðum og gengisvísitala krónunnar

Smellið til að sjá stærri mynd