Fyrirtækin best til að efla traust á atvinnulífinu

Traust almennings til fyrirtækja hefur verið mikið í deiglunni í Svíþjóð upp á síðkastið, meðal annars í kjölfar umdeildra kaupaukasamninga fyrirtækjastjórnenda. Sænsku samtök atvinnulífsins hafa kynnt skoðanakönnun sem Temo stofnunin gerði á því hverja sænskur almenningur telur best til þess fallna að efla traust á atvinnulífinu. Samtals telja 73% aðspurðra að eigendur (41%) og stjórnendur (32%) fyrirtækja séu best til þess fallnir að efla traust almennings á atvinnulífinu. 22% nefna stjórnmálamenn.

 

Í sömu könnun var spurt hvert sænskur almenningur teldi að sækja mætti bestu hugmyndirnar um leiðir til að efla hagvöxt í Svíþjóð. 72% aðspurðra telur að þær sé að finna innan atvinnulífsins. 19% nefna ríkisstjórnina.

 

Könnunin var gerð símleiðis sem hluti af spurningavagni Temo stofnunarinnar. Rætt var við 1.018 manns, 16 ára og eldri.

 

Sjá kynningu á niðurstöðum könnunar Temo á vef sænsku samtaka atvinnulífsins (pdf-skjal).