Fundur á föstudag gæti skipt sköpum

Aðilar vinnumarkaðarins og hins opinbera munu hittast á fundi á föstudag sem gæti skipt sköpum í þeim viðræðum sem hafa staðið yfir. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við mbl.is. Hann segir hækkun vísitölu neysluverðs ekki hafa áhrif á viðræðurnar en hækkunina megi nánast eingöngu rekja til gengis krónunnar. Formaður SA átti fund í gærkvöld með forystumönnum ríkisstjórnarinnar og öðrum aðilum á vinnumarkaði um stöðugleikasáttmála sem unnið er að því að koma á.

 

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Þór Sigfússyni, formanni SA, að hann sé ánægður með vilja stjórnvalda til viðræðna. Mikilvægt sé að á næstu dögum gerist nokkrir samverkandi þættir sem auki bjartsýni; tilkynnt verði um vaxtalækkun, kynnt verði markviss stefna í ríkisfjármálum, farið verði í viðræður við ESB og fyrningarleiðinni sálgað.

 

Sjá nánar:

 

Frétt mbl.is

 

Vefútgáfa Fréttablaðsins 26. maí