Frumkvöðlamót á Hótel Borg

Föstudaginn 19. október efna Samtök atvinnulífsins, Háskólinn í Reykjavík og Samtök iðnaðarins til frumkvöðlamóts á Hótel Borg. Þar mun bandaríski fyrirlesarinn Larry Farrell fjalla um hvernig megi auka hagvöxt á Íslandi og skapa viðvarandi velmegun en hann telur það aðeins mögulegt með því að örva nýsköpun og efla frumkvöðlaanda meðal íslensku þjóðarinnar - íslenskra stjórnenda og stjórnmálamanna. Þá mun Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, birta uppskriftina að farsælli nýsköpun en samtök atvinnulífsins á Norðurlöndum hafa tekið hana saman og gefið út í bók,The Nordic Recipe For Successful Innovation.

 

Uppskriftin að farsælli nýsköpun

Frumkvöðlamótið fer fram í Gyllta salnum á Hótel Borg og hefst með morgunverði og skráningu frá kl. 8:00-8:30 en á slaginu 8:30 hefst formleg dagskrá og stendur til kl. 10:00. Vilhjálmur Egilsson mun kynna helstu niðurstöður rits samtaka atvinnulífsins á Norðurlöndum en þar er staða nýsköpunar á Norðurlöndunum sett í alþjóðlegt samhengi. Ellefu sögur af farsælli nýsköpun fyrirtækja á Norðurlöndum er að finna í ritinu og á grundvelli viðtala við frumkvöðla og stjórnendur þeirra byggir uppskriftin að farsælli nýsköpun. Dæmi eru um að tiltölulega lítil framlög hins opinbera til nýsköpunar hafi skipt miklu máli í þróun fyrirtækjanna en fyrirtæki á Norðurlöndunum mega þó ekki sofa á verðinum þar sem ríki á borð við Indland og Kína verja sífellt auknum fjármunum í rannsóknir og þróunarstarf.

 

Fengur að komu Larry Farrells

Óhætt er að segja að fengur sé að komu Larry Farrells til Íslands. Hann hefur rekið samnefnt ráðgjafafyrirtæki í yfir tvo áratugi en það sérhæfir sig í að rannsaka grunnþætti skapandi hugsunar og hver galdurinn er á bak við velgengni  fyrirtækja sem vaxa með ógnarhraða og ná forskoti á keppinauta sína. Larry hefur rætt við farsæla frumkvöðla um víða veröld og greint hver kveikjan er að sköpun nýrra verðmæta. Á grunni rannsókna sinna hefur Larry kennt fólki að nýta skapandi hugsun – að hugsa eins og frumkvöðlar. Hann hefur veitt fjölmörgum ríkisstjórnum, fyrirtækjum, samtökum og einstaklingum ráðgjöf um allan heim. Larry er reglulegur pistlahöfundur í The Conference Board Review í New York.  

 

Larry Farrell hefur fjölbreyttan bakgrunn og hefur gefið út þrjár bækur um nýsköpun og frumkvöðla sem hafa verið þýddar á fjölda tungumála. Nánari upplýsingar um Farrell má nálagst á vef The Farrell Company.

 

Skráning nauðsynleg

Nauðsynlegt er að skrá þátttöku á frumkvöðlamótið en þátttökugjald er kr. 1.500 með morgunverði og eintaki af The Nordic Recipe For Successful Innovation.

 

Hægt er að skrá þátttöku hér á vef SA með því að smella hér