Framlög til fræðslu hækka

Framlög til Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) hækka um rúmlega hundrað milljónir á ári samkvæmt þjónustusamningi  menntamálaráðuneytis annars vegar og Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins hins vegar. Greiðslur til fræðsluaðila um land  allt verða því um 215 milljónir á ári. Áhersla er lögð á að veita fólki á vinnumarkaði með litla formlega grunnmenntun tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins hvetja fyrirtæki til að stuðla að símenntun starfsfólks sem kostur er.  

 

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins var stofnuð af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins í desember 2002. Hlutverk hennar er að vera samstarfsvettvangur þeirra sem að henni standa um fullorðinsfræðslu og starfsmenntun.  Í starfi FA er lögð áhersla á að starfsmenn sem ekki hafa lokið prófi frá framhaldskóla hafi tækifæri til að mennta sig, að þróa mat á raunhæfni og að efla starfs og námsráðgjöf í fyrirtækjum.

 

Aukin hvatning til símenntunar

FA hefur frá upphafi byggt upp mikla þekkingu og reynslu á sviði kennslufræði fyrir fullorðna og miðlað henni áfram til þeirra sem starfa við kennslu fullorðinna á vinnumarkaði. FA metur ekki nám eða sér um kennslu – því sinna símenntunarstöðvar og aðrir fræðsluaðilar þar með taldir framhaldsskólarnir. Undanfarið hefur áhersla á náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðið fólk á vinnumarkaði aukist. Sú þjónusta hefur ekki verið fyrir hendi og brýnt að koma henni á til að hvetja fólk á vinnumarkaði til símenntunar.

 

Fræðslumiðstöðin hefur sett sér að náð verði með náms- og starfsráðgjöf til fólks sem er með stutta skólagöngu að baki en talið er að í þeim hópi séu um 42 þúsund manns. Ætlunin er að veita 4600 einstaklingum slíka ráðgjöf á þessu ári. Rúmur þriðjungur er fólk sem hóf ýmiskonar iðnnám en lauk ekki.    

 

Fyrirkomulag og ávinningur

Í grein um náms- og starfsráðgjöf á vinnustað eftir Fjólu Maríu Lárusdóttur í nýjasta hefti Gáttar, ársriti um fullorðinsfræðslu og menntun, er rætt um framkvæmdina og ferlið rakið. Í upphafi hefur ráðgjafi samband við stjórnendur í fyrirtæki og kynnir þjónustuna. Þegar ákveðið hefur verið að ráðast í verkefnið er það kynnt starfsmönnum. Þeim gefst síðan tækifæri til að skrá sig í einstaklingsviðtal sem er skipulagt í samráði við yfirmenn. Viðtölin fara fram á vinnustað eða í húsakynnum símenntunarmiðstöðva. Eftirfylgni og úrvinnslu viðtalanna er mikilvæg.  Tilgangurinn er að hvetja fólk til þess að vera virkt í eigin símenntun og að byggja upp færni í starfi og einkalífi.  Í grein Fjólu segir:

 

„Tilgangur ráðgjafarinnar felur því í sér ávinning fyrir bæði fyrirtæki og starfsmenn þess. Styrkur mannauðsins er styrkur fyrirtækisins. Ráðgjafarnir leggja sig fram við að kynna sér fræðsluþarfir og fræðslustefnu fyrirtækjanna sem þeir sækja heim til að geta upplýst starfsmenn um möguleika til starfsþróunar.  Jafnframt geta þeir m.a. upplýst um ýmsar óformlegar námsleiðir sem sérstaklega eru sniðnar að þörfum fólks á vinnumarkaði svo og sjóði og styrkjamöguleika.  Í náms- og starfsráðgjöf er lögð áhersla á hagsmuni einstaklingsins og ráðgjöf veitt út frá forsendum hans. Staðan er þó aðeins önnur þegar um er að ræða ráðgjöf fyrir starfsmenn fyrirtækis á vinnutíma. Þá er mikilvægt að vinnuveitandinn sé vel upplýstur um tilgang og innihald ráðgjafarinnar.“                             

 

Aukinn mannauður sameiginlegt hagsmunamál

Náms- og starfsráðgjafarátakið hófst í fyrra, víðast þó ekki fyrr en síðla árs. Markmið um fjölda viðtala á því ári reyndust óraunhæf miðað við að margir fóru seint af stað og náðust ekki. Þegar leitað var skýringa kom m.a. í ljós að ráðgjafarnir sögðust óvanir markaðsetningu og því að selja fyrirtækjum og einstaklingum þá hugmynd að akkur sé í náms- og starfsráðgjöf á vinnustaðnum, tenging við fyrirtæki hefði tekið lengri tíma en búist hafði verið við.

  

Aukinn mannauður er sameiginlegt hagsmunamál einstaklinga, atvinnulífs og þjóðfélagsins í heild. Verkefni Fræðslustöðvar atvinnulífsins eru metnaðarfull og mikilvæg. Samtök atvinnulífsins hvetja félagsmenn sína til virkrar þátttöku í ofangreindu verkefni og að stuðla að símenntun starfsfólks sem kostur er.

 

Nánari upplýsingar vegna náms- og starfsráðgjafar á vinnustað má fá hjá símenntunamiðstöðvum um land allt og hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.