Fræðslufundur um tækifæri og skyldur sem fylgja CE merkinu á Evrópumarkaði

Ef þú ert framleiðandi, dreifingaraðili eða innflytjandi er nauðsynlegt fyrir þig að þekkja reglurnar um CE merkingar sem nú er verið að uppfæra og skerpa. CE merking sem gerð er samkvæmt reglum EES felur einnig í sér mikil tækifæri því hún opnar greiða leið fyrir vörur inn á Evrópumarkaðinn. Merkingunni fylgja hins vegar einnig  ýmsar skyldur sem þarf að uppfylla áður en CE merkt vara er sett á markað.

 

Á vegum Evrópusambandsins fer nú fram kynningarátak um CE-merkið í öllum ríkjum EES og verður fræðslufundur um CE merkið haldinn hér á landi á Grand Hóteli við Sigtún í Reykjavík,  29. nóvember 2011.  

 

Á fundinum verður fjallað um lagaumhverfi CE merkinga, skyldur markaðsaðila og eftirlit stjórnvalda. Rætt verður um stöðu CE merkinga í íslenskum iðnaði og velt upp spurningunni hvort íslensk fyrirtæki starfi í samræmi við reglur um CE merkingar? Fyrirtækjum sem þurfa að CE merkja vörur verður leiðbeint um fyrstu skrefin og þeir sem nú þegar eru með CE-merktar vörur í samræmi við reglur EES greina frá reynslu sinni. Fundinum lýkur með pallborðsumræðu með þátttöku fundargesta.

 

Fundurinn verður í Gullteigi B á Grand Hóteli við Sigtún og hefst með skráningu og morgunverði  kl. 8:00 og er stefnt að því að honum ljúki um klukkan 11:30.  Aðgangur er ókeypis og öllum heimill en tilkynna þarf um þátttöku eigi síðar en föstudaginn 25. nóvember á netfangið: postur@neytendastofa.is