Flutningur á hættulegum efnum

Samgönguráðuneytið hefur óskað eftir umsögn Samtaka atvinnulífsins um drög Umferðarstofu að endurbættum reglum um flutning á hættulegum efnum en nýja reglugerðin mun koma í stað gildandi reglugerðar nr. 984 frá árinu 2000. Drögin er að finna á vef ráðuneytisins.

 

Horft til jarðganga

Drögin eru unnin með hliðsjón af skýrslu starfshóps sem dómsmálaráðherra skipaði í mars árið 2001 og var falið að fjalla um þingsályktun Alþingis um flutning á hættulegum efnum um jarðgöng. Helstu breytingar eru þær að innleitt er flokkunarkerfi í tengslum við takmarkanir á flutningi hættulegra efna og í 13. grein er kveðið á um heimild lögreglustjóra til að ákvarða takmarkanir flutnings samkvæmt þeirri flokkun. Sjá nánar um flokkun í grein 4.2 og viðauka X.

 

Umsögn SA

Samtök atvinnulífsins munu skila umsögn um drögin og eru aðildarfyrirtæki sem málið tengist hvött til að koma hugsanlegum sjónarmiðum á framfæri við Pétur Reimarsson á skrifstofu samtakanna.