Fjölmenni í Þjóðmenningarhúsinu

Bókasalur Þjóðmenningarhússins var þétt setinn á hádegisfundi með prófessor Arthur B. Laffer í dag en hann er einn kunnasti hagfræðingur heims. Í afar líflegu erindi fjallaði hann um áhrif skattalækkana og skattahækkana á einstaklinga, fyrirtæki og þjóðfélög. Vísaði hann til reynslu Bandaríkjamanna í þeim efnum allt frá byrjun 20. aldar til dagsins í dag. Laffer vakti heimsathygli þegar hann setti fram þá kenningu á 8. áratug 20. aldar, að skatttekjur ríkisins þyrftu ekki að minnka, heldur gætu jafnvel aukist, þegar skattar væru lækkaðir.

 

Ráðgjafi Ronalds Reagans

Laffer hafði talsverð áhrif á skattastefnu Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og skattar hafa verið lækkaðir eftir þessari hugsun annars staðar, meðal annars á Spáni í lok 20. aldar. Á Íslandi hafa skattalækkanir, sérstaklega á fyrirtækjum, líka haft í för með sér auknar skatttekjur. Sagði Laffer lækkun skatta leysa úr læðingi mikilvæga krafta en of mikil skattheimta virki letjandi á einstaklinga og fyrirtæki og leiði oftar en ekki til samdráttar og lakari lífsskilyrða þjóða.

 

Arthur B. Laffer

 

Frægastur er Laffer fyrir að draga upp boga sem sýnir skatttekjur aukast við aukna skattheimtu (í %), þangað til komið er að ákveðnu hámarki, en eftir það minnka skatttekjurnar. Þetta merkir að minni skattheimta gæti leitt til aukinna skatttekna. Laffer sagði á fundinum bogann vera skýringartæki en ekki algilt mælitæki sem hægt væri að bregða á efnahag þjóða.

 

Aðdáandi Clinton og Kenndy

Í erindi sínu mærði hann bæði John F. Kennedy og Bill Clinton fyrrverandi forseta Bandaríkjanna en hann sagði engan hafa náð viðlíka árangri og Clinton við að hemja útgjöld ríkisins. Lágir skattar eru því ekki spurning um vinstri eða hægri pólitík að mati Laffers – heldur einfaldlega spurning um skynsemi og vilja til að viðhalda blómlegu efnahagslífi og góðum lífsskilyrðum fólks.

 

Bókasalurinn þétt setinn

 

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra flutti setningarávarp og prófessor Guðmundur Magnússon brást við erindi Laffers. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar flutti lokaorð en fundarstjóri var Ingimundur Sigurpálsson, formaður SA.

 

Samtök atvinnulífsins stóðu að fundinum í samstarfi við ýmsa aðila.

 

Hægt er að horfa á erindi Laffers á www.skattamal.is