Fjarvistir vegna veikinda virðast hafa minnkað

Niðurstöður rannsóknar Heilbrigðisþjónustu InPro, sem gerð var í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands, benda til þess að veikindafjarvistir á íslenskum vinnumarkaði hafi farið minnkandi frá árinu 2000. Gagnasafn InPro náði til 11 þúsund einstaklinga árið 2006 en meðalfjöldi veikindadaga var 8,4 árið 2006 eða 3,8% vinnudaga á árinu. Það jafngildir því að launagreiðslur í veikindum hafi numið 26 milljörðum króna á einu ári. Fjarvistir fólks aukast yfir vetrartímann og yngra fólk er mun oftar frá vegna veikinda en þeir sem eldri eru. Þá axla konur fjölskylduábyrgð mun oftar en karlar vegna veikinda barna. Um er að ræða ítarlegustu athugun sem fram hefur farið á veikindafjarvistum á íslenskum vinnumarkaði.

 

Um rannsókn InPro

Niðurstöður rannsóknarinnar má nálgast í heild hér að neðan en Heilbrigðisþjónusta InPro hefur um árabil boðið fyrirtækjum upp á trúnaðarlæknisþjónustu og fjarvistaskráningar. Samstarfið kemur í stað hefðbundinna læknisvottorða og er markmiðið að veita starfsmönnum ráðgjöf og lágmarka fjarvistir vegna veikinda og slysa.

Skráðar hafa verið upplýsingar frá fjölda fyrirtækja um land allt og því gefur gagnasafn InPro færi á því að útbúa staðtölur sem geta gefið vísbendingu um fjarvistir frá vinnu í atvinnulífinu í heild.

 

Helstu niðurstöður

Heldur hefur dregið úr fjarvistum vegna veikinda hjá fyrirtækjum sem nota þjónustu InPro við skráningu og greiningu fjarvista. Samkvæmt upplýsingum gagnasafns InPro námu veikindafjarvistir starfsmanna 8,4 vinnudögum að meðaltali árið 2006 sem nemur 3,8% af heildarvinnudögum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

 

Eldra fólk á vinnumarkaði er síður fjarverandi vegna veikinda en yngra starfsfólkið og er aldurshópurinn 21-25 ára tvöfalt meira frá vinnu en 41-45, eða sem nemur 9 dögum á ári. Yngra fólk er oftar fjarverandi frá vinnu en þeir eldri en skemmri tíma í einu, en langtímafjarvistir fara vaxandi með aldri. Konur fá leyfi vegna veikinda barna í mun meira mæli en karlar og er skiptingin 70% á móti 30%.  Hlutur kvenna hefur lækkað lítillega á síðustu árum en sú lækkun er óveruleg eins og sjá má á myndinni hér að neðan:

 

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

 

Fjarvistir vegna veikinda barna vega 6% af fjarvistum í heild eða sem nemur hálfum degi á hvern starfsmann á ári að meðaltali.

 

Mikill kostnaður vegna veikindafjarvista

Mikill beinn og óbeinn kostnaður fellur til vegna fjarvista af völdum veikinda og slysa og þar af leiðandi er mikið í húfi fyrir atvinnulífið að halda fjarvistum í lágmarki. Árið 2006 eru heildarlaun allra launamanna ásamt launatengdum gjöldum áætluð 686 milljarðar króna. Það ár námu veikindafjarvistir 3,8% vinnudaga sem jafngildir því að launagreiðslur í veikindum hafi numið 26 milljörðum króna. Við þá fjárhæð bætist síðan kostnaður vegna staðgengla þeirra sem fjarverandi, oft í formi aukinnar yfirvinnu annarra starfsmanna, og ýmis annar kostnaður vegna röskunar á starfsemi.

 

Fjarvistir minnka með hækkandi sól

Mikill munur er á fjarvistum vegna veikinda innan ársins þar sem þær minnka mikið með hækkandi sól og hlýrra loftslagi. Í meðfylgjandi töflu má sjá hvernig veikindafjarvistir ársins 2006 skiptast milli ársfjórðunga en þar kemur fram að þær eru lang minnstar á þriðja ársfjórðungi og mestar á þeim fyrsta. Veikindadagar eru tæplega tveir á starfsmann að meðaltali á þriðja ársfjórðungi og 3,4% af vinnudögum, en vera kann að sumarleyfi hafi þau áhrif að fjarvistirnar eru minni á öðrum og þriðja ársfjórðungi.

 

  Inrpo tafla

 

Veikindafjarvistir mestar hjá þeim yngstu

Veikindafjarvistir eru mjög mismunandi eftir aldri starfsmanna og vekur athygli að þær eru áberandi mestar í yngstu aldurshópunum. Á aldursbilinu 20-25 ára eru veikindadagar að meðaltali 14 á starfsmann á ári, sem er 6% vinnudaga og í aldurshópnum 26-30 ára eru veikindadagarnir 12 á ári og veikindahlutfallið 5%. Vera kann að fjarvistir vegna veikinda barna eigi þarna nokkurn hlut að máli. Minnstar eru fjarvistir hjá einstaklingum á aldrinum 41–45 ára eða 5 veikindadagar á ári að meðaltali og er veikindahlutfallið 2,3% í þeim aldurshópi. Eftir fimmtugt er veikindahlutfallið nokkuð stöðugt á bilinu 3-3,5% og veikindadagarnir 6-7 að meðaltali.

 

Sjá nánar: Veikindafjarvistir 2000-2006 samkvæmt gagnagrunni InPro (PDF)