Faggiltar skoðunarstofur sjái um vinnueftirlit

Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Vinnueftirliti ríkisins koma fram margar athyglisverðar ábendingar. Ríkisendurskoðun leggur til að stór hluti þess eftirlits með atvinnurekstri sem Vinnueftirlitið sinnir í dag verði færður til faggiltra skoðunarstofa. Eins er lagt til að eftirlit Vinnueftirlitsins beinist að því fyrst og fremst að aðgæta hvort innra starf fyrirtækjanna sé eins og ætlast er til samkvæmt lögum og reglugerðum. Hvort gert hafi verið áhættumat og hvort öryggistrúnaðarmenn og verðir séu að störfum hjá fyrirtækjunum enda liggur meginábyrgð á því að skapa gott vinnuumhverfi hjá atvinnurekendum. Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að eftirlitið verði að vera hlutlægt, gegnsætt og fyrirsjáanlegt. SA taka undir með Ríkisendurskoðun í veigamiklum atriðum en benda á að hafa verði náið samráð við atvinnulífið við innleiðingu tillagna stofnunarinnar.

 

SA taka undir megintillögur Ríkisendurskoðunar

Ríkisendurskoðun leggur til að skoðunarstofur sinni eftirliti með vinnuvélum, lyftum, tækjum og búnaði. Eins að þær sjái einnig um markaðseftirlit það sem Vinnueftirliti er nú falið. Lagt er til að kennsla og námskeiðahald sem stofnunin hefur sinnt verði framvegis í höndum þeirra sem slíkt annast á almennum markaði. Það verði að gæta jafnræðis gagnvart sjálfstætt starfandi ráðgjöfum og sjá til þess að fræðsla og ráðgjafarstarf stofnunarinnar stangist ekki á við ákvæði samkeppnislaga. Áhersla er lögð á að Vinnueftirlitið verði fyrst og fremst stjórnsýslustofnun sem hafi umsjón með málaflokknum í heild eða „leiðandi verkefnum á sviði vinnuverndar”eins og það er orðað í skýrslunni. Undir allar þessar megintillögur Ríkisendurskoðunar geta Samtök atvinnulífsins tekið.

 

Stjórnsýsla Umferðarstofu verði endurskoðuð

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er svo að finna önnur atriði sem þurfa meiri umhugsunar og skoðunar við. Til dæmis er lagt til að Umferðarstofa annist stjórnsýslu með vinnuvélaeftirliti og veitingu réttinda sem því tengist. Mikil óánægja ríkir með stjórnsýslu Umferðarstofu og viðhorfi stofnunarinnar gagnvart atvinnulífinu. Umferðarstofa er þekkt fyrir að hafa lítið sem ekkert samráð við atvinnulífið og mjög háar gjaldskrár. Það er því lykilatriði að komið verði upp formlegu ferli umsagna og raunverulegu samráði við hagsmunaaðila þannig að Umferðarstofa verði ekki eini aðilinn sem fær að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ráðuneyti og Alþingi þegar um er að ræða lagasetningu, útgáfu reglugerða og ákvörðun gjaldskráa.

 

Hlutverk ráðgefandi stjórnar VER

Ríkisendurskoðun fjallar einnig um hlutverk ráðgefandi stjórnar Vinnueftirlitsins þar sem sitja fulltrúar aðila vinnumarkaðarins auk formanns sem skipaður er án tilnefningar af félagsmálaráðherra. Ríkisendurskoðun telur að stjórnin hafi truflað samskipti ráðuneytisins og stofnunarinnar. Samkvæmt lögum skal ráðgefandi stjórn VER koma að undirbúningi að gerð reglna og veita umsögn um nýjar reglugerðir og hefur gert það samviskusamlega. Það hefur hins vegar oft tekið langan tíma fyrir ráðuneytið að ljúka málum og gefa reglugerðirnar út. Eins hefur það vilja bregða við að ekki hafi verið séð til þess að nýjar tilskipanir frá ESB hafi verið innleiddar á tilsettum tíma.

 

Nú í mars ákvað Eftirlitsstofnun EFTA að senda tvö mál til EFTA dómstólsins þar sem ekki hafi verið innleiddar tvær tilskipanir sem falla undir verksvið félagsmálaráðuneytisins og Vinnueftirlitsins. Auk þess tókst nú á fyrstu mánuðum ársins rétt að bjarga fyrir horn þriðja málinu sem Eftirlitsstofnun EFTA hafði hug á að senda sömu leið. Stundum hefur félagsmálaráðuneytinu heldur ekki tekist vel upp við að staðfæra tilskipanir frá ESB. Þegar reglugerð um varnir gegn álagi vegna titrings á vinnustöðum var t.d. birt kom í ljós að ákvæði hennar voru mun strangari en ætlunin var bæði samkvæmt ESB tilskipuninni sem og þeim drögum sem hin ráðgefandi stjórn hafði haft til umsagnar. Ekki hefur fengist nein skýring á því hvers vegna þetta varð en líklega er um mistök að ræða sem enginn fæst til að viðurkenna og hvað þá leiðrétta þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar Samtaka atvinnulífsins.

 

Sniðganga lög um opinberar eftirlitsreglur

Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er sú að leggja til að þessi ráðgefandi stjórn skuli lögð niður en í stað þess skuli sett upp ráðgefandi vinnuverndarráð sem gegni svipuðu ráðgjafarhlutverki stjórnin gerði áður. Má vera að það auðveldi samskipti Vinnueftirlitsins og félagsmálaráðuneytisins. En líkleg ástæða fyrir erfiðleikum í samskiptum þessara aðila, og er lýst í skýrslu Ríkisendurskoðunar, er sú að félagsmálaráðuneytið hafi ekki brugðist við aukinni ábyrgð og þeim skyldum sem lagðar voru á ráðherra árið 2003 með lagabreytingum. Auk þess hafa félagsmálaráðuneytið og Vinnueftirlitið kerfisbundið með öllu sniðgengið lög frá 1999 um opinberar eftirlitsreglur en samkvæmt þeim ber að meta áhrif nýrra eftirlitsregla á þá sem fyrir eftirlitinu verða.

 

Tímabær stjórnsýsluúttekt

Stjórnsýsluúttekt á Vinnueftirlitinu var löngu tímabær en benda verður jafnframt á að hjá viðskiptavinum stofnunarinnar ríkir samkvæmt skýrslunni ánægja með þá þjónustu sem hún veitir og eins bendir Ríkisendurskoðun á að upplýsinga- og áróðursherferðum í forvarnarskyni hefur Vinnueftirlitið sinnt með ágætum. Samtök atvinnulífsins hvetja félagsmálaráðuneytið til hefjast þegar handa við mat á tillögum Ríkisendurskoðunar og að hrinda þeim í framkvæmd í kjölfarið í nánu samráði við hagsmunaaðila.