Færri ár í framhaldsskóla

Fjöldi framhaldsskólakennara mótmælir um þessar mundir fyrirhugaðri fækkun ára í framhaldsskóla. Í grein í Morgunblaðinu spyr Gústaf Adolf Skúlason, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins, m.a. hvers vegna íslenskir nemendur þurfi að ljúka framhaldsskólastigi einu til tveimur árum síðar en nemendur í nágrannalöndunum, og hvort auknar ævitekjur nemenda og aukin þjóðarframleiðsla upp á milljarða króna skipti ekki máli í þessu samhengi. Grein Gústafs fylgir hér á eftir:

 

Færri ár í framhaldsskóla

Fjölmargir kennarar við nokkra framhaldsskóla landsins hafa nú tekið sig saman og mótmæla fyrirhugaðri fækkun námsára í framhaldsskóla. Í Morgunblaðinu laugardaginn 5. nóvember sl. mátti lesa að í tilkynningu frá hópi kennara segði að þeir teldu styttingu náms til stúdentsprófs fela í sér skerðingu náms, gengisfellingu stúdentsprófs og veikari stöðu íslenskra nemenda. Fram kemur í samtali blaðsins við fulltrúa kennaranna að fækkun námsára í framhaldsskóla úr fjórum árum í þrjú hafi „gríðarlegar afleiðingar fyrir alla krakka í framtíðinni“ og loks er því haldið fram að hagræðing og sparnaður í menntakerfinu sé augljóslega markmiðið.

 

Hér er ekki ætlunin að ræða einstök atriði þeirrar útfærslu sem nú er fyrirhuguð á fækkun námsára til stúdentsprófs. Þó skal strax vakin athygli á því að fækkun námsára þarf ekki nauðsynlega að tákna styttingu námsins. Þá má vissulega færa ýmis rök fyrir ágæti þess að hafa framhaldsskólaárin fjögur í stað þriggja, en í mörgum tilfellum er þar jafnframt um að ræða rök fyrir lengingu framhaldsskólans, til dæmis í fimm ár eða sex. Hér er hins vegar ætlunin að setja fram tvær lykilspurningar við framangreind mótmæli fjölda kennara:

  • Hvers vegna þurfa íslenskir nemendur að ljúka framhaldsskólastigi einu til tveimur árum síðar en nemendur í nágrannalöndunum?
  • Skipta auknar ævitekjur nemenda og aukin þjóðarframleiðsla svo milljörðum skiptir ekki máli?

Nú er það reyndar svo að við einhverja af þeim skólum sem umræddir kennarar starfa við er nú þegar hægt að ljúka stúdentsprófi á þremur árum, jafnvel skemmri tíma. Þá er starfandi framhaldsskóli í Reykjavík þar sem nemendur ljúka stúdentsprófi á tveimur árum. Því má jafnframt spyrja: Eru þetta þá allt saman gengisfelld stúdentspróf? Eða hverjar verða eiginlega „afleiðingar“ þess fyrir umrædda nemendur að hafa valið þessar leiðir?

 

Íslendingar lengur en aðrir í framhaldsskóla

Það stendur upp á gagnrýnendur fyrirætlana um fækkun námsára í framhaldsskóla að útskýra hvers vegna íslenskir nemendur þurfa að verja einu til tveimur árum lengri tíma á grunn- og framhaldsskólastigi en raunin er í löndunum í kringum okkur. Í erlendum háskólum eru íslenskir nýnemar iðulega eldri en aðrir. Hvers vegna er þetta nauðsynlegt?

 

Auknar ævitekjur nemenda

Í athyglisverðri skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Verzlunarmannafélag Reykjavíkur og gefin var út í janúar 2002 er meðal annars sýnt fram á að þjóðhagslegur ávinningur yrði talsverður með styttingu grunn- og framhaldsskóla. Ávinningurinn fælist meðal annars í auknum tekjum nemenda og þar með í aukinni þjóðarframleiðslu. Í skýrslunni er talað um alls fjóra milljarða fyrst í stað, en um 69 milljarða á fimmtíu ára tímabili. Á núvirði væru þetta 4,6 milljarðar fyrst í stað og 77 milljarðar á fimmtíu ára tímabili. Skipta auknar ævitekjur nemenda og aukin þjóðarframleiðsla ekki máli?

 

Áherslur atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins hafa lengi lagt áherslu á að nýta þurfi betur hvert skólaár og telja samtökin að skipuleggja beri skólastarf með þeim hætti að nemendur geti lokið grunn- og framhaldsskóla á samtals tólf árum, í stað fjórtán eins og nú er algengast, samhliða auknum kröfum til kennara og nemenda og hugsanlegri lengingu skólaársins að vori. Með þessu næðist betri nýting skólaársins og íslenskt menntakerfi yrði sambærilegra menntakerfum bæði austan hafs og vestan, að ógleymdum þeim stórauknu ævitekjum og mikla þjóðhagslega ávinningi sem áætlaður hefur verið samfara slíkri breytingu.

 

Samtökin hafa jafnframt skilgreint öflugt menntakerfi sem eitt lykilatriða í að tryggja samkeppnishæfni Íslands í sívaxandi alþjóðlegri samkeppni. Líklega snýr stærsta verkefnið á því sviði að þeim ógnarstóra hópi fullorðinna sem einungis hefur lokið grunnskólaprófi, en sá hópur telur nær 40%  fólks á íslenskum vinnumarkaði. Hafa SA og viðsemjendur þeirra starfrækt starfsmenntasjóði um árabil, sem enn voru efldir í síðustu kjarasamningum, og má segja að grettistaki hafi þar verið lyft í formi aukinna möguleika fólks á vinnumarkaði til að bæta við sig þekkingu. Næstu skref eru að tryggja að fólk geti fengið færni sína, námskeið, starfsreynslu o.s.frv., metna inn í hið formlega skólakerfi og að þessum hópi standi til boða viðurkenndar og einingarbærar námsleiðir. Að þessum verkefnum starfar Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem starfrækt er af SA og ASÍ í krafti þjónustusamnings við menntamálaráðuneytið. Þarna bíður þjóðarinnar stórátak og það mun kosta talsverða fjármuni, sem eðlilegt er að komi að stærstum hluta úr sameiginlegum sjóðum landsmanna líkt og gildir um fjármögnun hefðbundins framhaldsskólanáms í dag. Ef reyndin verður sú – sem ekki er þó að skilja á yfirvöldum menntamála - að fækkun námsára í framhaldsskóla leiði til sparnaðar, á opinberu fé sem og á tíma námsfólks, þá er það að sjálfsögðu jákvætt, enda verði gæði námsins sambærileg því sem gerist í nágrannalöndunum.Vandséð er hví svo ætti ekki að vera. Það skortir hins vegar ekki verkefni í menntakerfinu sem kalla á opinbert fjármagn til fjárfestingar í aukinni samkeppnishæfni Íslands.

 

Gústaf Adolf Skúlason