Evrópubúar þurfa að vinna meira

Undanfarin misseri hefur mikil umræða farið fram um skort á sveigjanleika á evrópskum vinnumarkaði, of stutta vinnuviku, of lágan eftirlaunaaldur o.s.frv., á sama tíma og meðalaldur fer hratt hækkandi í löndum álfunnar. Samtök atvinnulífsins hafa iðulega vakið athygli á þessari umræðu og á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins í apríl 2003 fjallaði yfirhagfræðingur þýsku samtaka atvinnulífsins um orsakir þýska efnahagsvandans. Í máli hans kom m.a. fram að Þýskaland hefur um árabil búið við hverfandi hagvöxt og mikið atvinnuleysi. Ástæðurnar má ekki síst rekja til ósveigjanlegs vinnumarkaðar – svo sem ríkrar uppsagnarverndar, hás óbeins launakostnaðar, stuttrar vinnuviku og rausnarlegra atvinnuleysisbóta. Áhrif þessa ósveigjanleika eru m.a. þau að fyrirtæki hika við að bæta við starfsfólki þegar vel gengur og því hefur störfum ekki fjölgað.

 

Tilraunir til umbóta

Undanfarna mánuði hafa nokkur þýsk fyrirtæki náð tímamótasamningum við starfsfólk sitt um lengingu vinnuvikunnar. Jafnt þar í landi sem í Frakklandi hafa stjórnvöld ennfremur uppi áform um lengingu vinnuvikunnar og fleiri umbætur, en fyrir fjórum árum batt ríkisstjórn Sósíalistaflokksins 35 klukkustunda vinnuviku í lög í Frakklandi.

 

Tilmæli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) blandaði sér í þessa umræðu fyrr í þessum mánuði, þegar skýrsla sjóðsins skoraði á Evrópusambandið að stuðla að auknum sveigjanleika á vinnumarkaði og til að hvetja til lengri vinnutíma og aukinnar atvinnuþátttöku á evrusvæðinu. Á vef sjóðsins er að finna útskrift af áhugaverðum blaðamannafundi sem Michael Deppler, yfirmaður Evrópudeildar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hélt um efni skýrslu sjóðsins.

 

Á fundinum segir Deppler mikilvægasta verkefni ríkja evrusvæðisins vera að koma á umbótum í átt til aukins sveigjanleika á vinnumarkaði, þar sem atvinnuþátttaka hafi farið minnkandi áratugum saman á sama tíma og þjóðirnar eldist. Sífellt færri standi því undir rekstri kostnaðarsamra velferðarkerfa og þessari þróun verði hreinlega að snúa við. Ýmsar aðgerðir undanfarinna áratuga hafi miðað að því að draga úr atvinnuleysi með því að draga úr atvinnuþátttöku, svo sem með lækkun eftirlaunaaldurs og styttingu vinnuvikunnar. Nú verði einfaldlega að draga úr höftum og auka sveigjanleika á vinnumarkaði, stuðla að lengri vinnuviku og lægri eftirlaunaaldri, líkt og ríkisstjórnir séu að reyna að gera í t.d. Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu, þótt í litlum mæli sé enda pólitísk andstaða víða mikil. Þessum umbótum verði hins vegar að halda áfram, eigi áfram að vera hægt að halda úti kostnaðarsömum velferðarkerfum. Öðru vísi verði Evrópuríkin heldur ekki samkeppnishæf við t.d. Bandaríkin, þar sem vinnumarkaður er sveigjanlegri. Evrópubúar verði með öðrum orðum einfaldlega að vinna meira en þeir geri í dag.

 

Sjá fundinn með Deppler á vef IMF (og tengla þaðan í skýrslu sjóðsins).