Evrópa og einstök ríki græða á frjálsri för launafólks

Aðgangur íbúa nýrra aðildarríkja ESB að vinnumarkaði eldri aðildarríkjanna hefur einkum haft þar jákvæð áhrif, en þó almennt séð minni áhrif en talið var. Þetta eru helstu niðurstöður nýrrar skýrslu framkvæmdastjórnar ESB. Starfsfólk frá nýjum aðildarríkjum ESB hefur lagt sitt af mörkum til bætts efnahags og til að draga úr skorti á starfsfólki. Einungis þrjú af eldri aðildarríkjum ESB ákváðu þó að heimila strax frjálsan aðgang íbúa allra nýju aðildarríkjanna að sínum vinnumarkaði við stækkun ESB um tíu ríki 1. maí 2004. Þetta voru Bretland, Írland og Svíþjóð. Þessi ríki hafa síðan búið við góðan hagvöxt og minnkandi atvinnuleysi. Takmarkanir annarra aðildarríkja hafa verið misjafnlega miklar.

 

Minni fólksflutningar en reiknað hafði verið með

Samkvæmt skýrslu ESB hefur innganga tíu nýrra ríkja í ESB leitt til mun minni fólksflutninga en reiknað hafði verið með og ekki virðist heldur hafa orðið aukning útgjalda til velferðarmála í eldri aðildarríkjunum. Fólk frá nýju aðildarríkjunum er innan við eitt prósent mannafla á vinnumarkaði gömlu aðildarríkjanna allra nema Austurríkis (1,4%) og Írlands (3,8%). Fyrir lok apríl nk. þurfa eldri aðildarríki ESB að ákveða hvort þau heimili frjálsan aðgang nýrra ESB-borgara að vinnumarkaði sínum, eða óski eftir frekari tímabundnum takmörkunum í þeim efnum. Vladimir Spidla, sem fer með vinnumarkaðsmál í framkvæmdastjórn ESB, segir það vissulega undir hverju ríki komið en hvetur þó einstök aðildarríki til að íhuga vandlega hvort þörf sé á frekari takmörkunum á vinnumarkaðsaðgangi, í ljósi þessarar jákvæðu reynslu. Hann minnir á að frjáls för sé mikilvægur hluti innri markaðarins, fjórfrelsisins svokallaða, og að reynslan sýni að jafnt Evrópa sem einstök aðildarríki hafi hagnast á frjálsri för hingað til.

 

Takmarkanir hér

Þess má geta að EFTA-aðildarríki EES settu á sínum tíma takmarkanir á aðgang nýrra EES-borgara að vinnumarkaði sínum, m.a. Ísland. Gera verður ráð fyrir að það fyrirkomulag verði ekki framlengt hér á landi 1. maí nk., heldur verði opnað fyrir þessi réttindi íbúa nýrra EES-borgara hér á landi.

 

Sjá nánar um skýrslu ESB á vef sambandsins.