„Danska árásin“ ýtir undir verðbólgu

„Danska árásin“ á íslenskt efnahagslíf getur valdið meiri skaða en virtist þegar hún hófst. Hin mikla gengislækkun krónunnar virðist ekkert ganga til baka þrátt fyrir 0,75% hækkun á stýrivöxtum Seðlabankans. Gengisvísitalan hefur enn verið um og yfir 120 en með vaxtahækkuninni hefði mátt gera ráð fyrir því að hún lækkaði sem þar með hækkaði gengi krónunnar. Gengi krónunnar hefur verið helsta miðlunartæki peningastefnunnar, fyrst og fremst vegna þess hve lág hlutdeild íslensku krónunnar er á íslenska lánamarkaðnum. Þótt gengi krónunnar hafi verið orðið of hátt með tilliti til afkomu útflutningsatvinnuvega og jafnvægis í utanríkisviðskiptum þá er snörp lækkun gengisins, eins og átt hefur sér stað undanfarið, óæskileg með hliðsjón af áhrifunum á verðbólgu.

 

Verðbólgumælingar að undanförnu sýna enn að verðbólgan er óásættanlega mikil og Seðlabankinn á engan annan kost en að bregðast við. Mánuðum saman hefur ársverðbólgan verið vel yfir 4% og aðalhættan er sú að væntingar um framtíðarverðbólgu séu smám saman að festast í þessu fari. Gengi krónunnar hefur lækkað það ört og það mikið að þegar lækkunin gengur ekki til baka finna fyrirtæki sig knúin til þess að bregðast hraðar við með hækkuðu vöruverði en annars hefði orðið og markaðurinn tekur síðan við verðhækkunum vegna mikils eftirspurnarþrýstings.

 

Hætta af verðbólguvæntingum

Væntingar um meiri verðbólgu eru hættulegar efnahagslífinu vegna þess að þær sjálfar eru til þess fallnar að stuðla að verðhækkunum og aukinni verðbólgu. Það getur orðið mjög erfitt að brjóta upp slíkar væntingar við núverandi efnahagsástand þar sem innstreymi fjármagns vegna stórframkvæmda er áfram mikið og Seðlabankinn spáir hverju framkvæmdametinu á fætur öðru í íbúðabyggingum. Almenningur hefur verið að byggja sem svarar til eins álvers ásamt stórvirkjun sé einungis litið til aukningar íbúðabygginga á þessum áratug umfram þann síðasta. Með hliðsjón af kostnaðarsamsetningu og vægi innlendra og erlendra starfsmanna áætla SA að þensluáhrif aukningarinnar samsvari byggingu a.m.k. tveggja álvera og tilheyrandi virkjana.

 

Það sem helst getur unnið gegn miklum verðbólguvæntingum er að það hægist um á fasteignamarkaði og verðhækkun íbúða stöðvist eða þær lækki jafnvel. Fyrstu merkin ættu að vera að tregar gangi að selja nýjar eignir í nýjum hverfum höfuðborgarsvæðisins og að veltan á markaðnum minnki almennt. Ekki er þó heppilegt að það verði miklar kollsteypur á þessum markaði frekar en öðrum þótt íbúðaverð ætti samkvæmt öllum venjulegum lögmálum að lækka nokkuð þar sem verð á eldri íbúðum er enn verulega hærra en framleiðslukostnaður nýrra íbúða.

 

Innistæðulausar launahækkanir sveitarfélaga

Þróunin á vinnumarkaðnum er líka óhagstæð með tilliti til verðbólgunnar og auknar verðbólguvæntingar hafa án efa ýtt enn frekar undir óánægju ýmissa hópa sem kviknaði við stórútgáfu sveitarfélaganna á innistæðulausum launaávísunum nú rétt fyrir og eftir áramótin. Væntingar um aukna verðbólgu kveikja almennt óróa á vinnumarkaði eins og annars staðar í hagkerfinu. 

 

Aukin verðbólga býr til kröfur um sérstakar launahækkanir til þess að bæta upp fyrir meint kaupmáttartap. En meiri launahækkanir fóðra svo áfram miklar verðbólguvæntingar og verðbólguna sjálfa. Þetta er gamli vítahringurinn sem hélt raunverulegum framförum á Íslandi í gíslingu áratugum saman fyrir árið 1990.

 

Gætir kæruleysis

Að undanförnu hefur gætt ákveðins kæruleysis varðandi verðbólguna. Það er afar hættulegt þar sem verðbólga er mjög kostnaðarsöm fyrir efnahagslífið og heimilin í landinu. Hún dregur úr árangri fyrirtækjanna þar sem allar fjárhagslegar ákvarðanir þeirra verða mjög ómarkvissar. Sama gildir um heimilin og þar við bætist að verðtryggðar skuldir hverfa ekki heldur hækka í takt við verðbólguna. Ennfremur er við lýði fjármagnstekjuskattur sem skattleggur verðbólguhagnað jafnt og raunhagnað og sú skattlagning verður verulega íþyngjandi um leið og verðbólgan fer af stað. Verðbólgureikningsskil fyrirtækja voru aflögð og aukin verðbólga ruglar allt verðmætamat í atvinnulífinu og leiðir til hærri skattbyrði.

 

„Danska árásin“ getur þess vegna kostað hagkerfið umtalsvert vegna þess að baráttan gegn verðbólgunni verður erfiðari en ella. En það má ekki leggja árar í bát heldur verður að verjast árásinni og ná árangri í því að ná verðbólgunni niður. Mikilvægt er að ríkisvald og sveitarfélög fari þar fram með góðu fordæmi og að dregið verði úr opinberum útgjöldum sem frekast er unnt. Það er kannski metnaðarfullt verkefni, ekki síst fyrir sveitarfélög í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. En verkefnið er líka gríðarlega mikilvægt fyrir landsmenn alla og sveitarfélögin ekki síst sem langflest eru þegar skuldum hlaðin.

 

Vilhjálmur Egilsson