Breytingar á Íbúðalánasjóði alvarleg mistök

Í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um hagstjórnarumhverfið og sambýli atvinnuveganna, kemur fram að alvarleg mistök hafi verið gerð þegar Íbúðalánasjóði var gert kleift að hækka hámarkslán og rýmka veðheimildir í kjölfar síðustu kosninga þrátt fyrir afgerandi viðvaranir óháðra innlendra og erlendra sérfræðinga. Í máli Tryggva Þórs Herbertssonar, sem kynnti skýrsluna fyrir jól, kom fram að afleiðingarnar hafi verið fyrirsjáanlegar og að þessar breytingar hafi valdið mikilli þenslu í hagkerfinu.

 

Viðbrögð við hótun

Í skýrslu Hagfræðistofnunar, sem unnin var undir forystu Tryggva Þórs Herbertssonar, er því lýst hvernig breytingarnar á Íbúðalánasjóði og aukin samkeppni á húsnæðismarkaði hafi torveldað peningamálastjórnina og stuðlað að ójafnvægi í hagkerfinu. Á blaðamannafundi þar sem skýrslan var kynnt sagði Tryggi Þór að áhrif vegna breytinganna á Íbúðalánasjóði hafi mátt sjá fyrir og hafi m.a. verið lýst nákvæmlega í annarri skýrslu Hagfræðistofnunar sem gefin var út áður en breytingarnar tóku gildi.

 

Tryggvi Þór sagði að bankarnir hafi í raun ekki átt neinn annan kost en að hefja mjög mikla samkeppi á íbúðalánamarkaði vegna breytinganna á Íbúðalánasjóði. Hótun hafi verið yfirvofandi um að mjög yrði þrengt að bönkunum á lánamarkaði og þeir hafi þurft að bregðast við henni.

 

Leggja þarf niður Íbúðalánasjóð

Á blaðamannafundinum sagði Tryggvi Þór jafnframt að margt af því sem hefði þurft að gera í hagstjórninni væri nú þegar orðið of seint. Enn væri hins vegar hægt að leggja niður Íbúðalánasjóð sem þyrfti að gera sem allra fyrst.

 

Skýrsla Hagfræðistofnunar

 

Kynning Tryggva Þórs Herbertssonar