Breyta verður Íbúðalánasjóði sem fyrst

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hrósar íslenskum stjórnvöldum fyrir stefnufestu og fyrir að hafa lagt grunninn að öflugum hagvexti með stóriðjuframkvæmdum. Umfangi þeirra hafi hins vegar fylgt sveiflur í hagkerfinu sem sé nauðsynlegt að bregðast við með auknu aðhaldi í ríkisfjármálunum og hröðum breytingum á Íbúðalánasjóði. Þetta kemur fram í útdrætti nefndarinnar úr væntanlegu áliti hennar sem birt verður í heild á heimasíðu Alþjóðagjaldeyris-sjóðsins á næstu dögum og í íslenskri þýðingu á heimasíðu Seðlabankans. Þar segir m.a. að innkoma viðskiptabankanna á húsnæðismarkaðinn hafi verið jákvæð með tilliti til fjármálastöðugleika til langs tíma, en nauðsynlegt sé að gera skjótar umbætur á Íbúðalánasjóði til að bankarnir geti haldið áfram að starfa á þessum markaði. Mikilvægt sé að breyta Íbúðalánasjóði sem fyrst til að draga úr vaxandi misvægi og áhættu.

 

SA hafa ítrekað bent á að endurskoða  þurfi hlutverk Íbúðalánasjóðs þar sem óeðlilegt sé ríkið stundi beina samkeppni við einkafyrirtæki á frjálsum markaði um fjármögnun á íbúðarhúsnæði. Hafa SA bent á að afmarka ætti lán Íbúðalánasjóðs við lánveitingar til félagslegra húsnæðiskaupa og byggingar leiguíbúða til afmarkaðra hópa.

 

Útdráttur út áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslensku.