Björgólfur Jóhannsson formaður SA 2014-2015

Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, var endurkjörinn formaður samtakanna á aðalfundi SA í dag. Björgólfur var kjörinn með rúmlega 96% greiddra atkvæða í rafrænni atkvæðagreiðslu sem fram fór meðal aðildarfyrirtækja SA. Björgólfur ávarpaði Ársfund atvinnulífsins sem nú stendur yfir í Hörpu og fjallaði um þau tækifæri sem eru til staðar til að koma Íslandi í röð samkeppnishæfustu þjóða heims á næstu 10 árum. Ræðu Björgólfs má lesa á vef SA.

 „HAGUR ALLRA ER HAGUR SÉRHVERS"

 

Forsætisráðherra, ráðherrar, alþingismenn, félagar, góðir gestir

 

Aukin samkeppnishæfni þjóðarinnar er yfirskrift þessa ársfundar atvinnulífsins. Í dag kynna Samtök atvinnulífsins tillögur um hvernig Ísland geti komist í hóp 10 samkeppnishæfustu ríkja heims innan 10 ára. Það hefur lengi legið fyrir hvað þarf til en það er ekki nóg að vita hvert menn vilja stefna - við þurfum að trúa því að við getum bætt stöðu okkar og náð fyrri styrk.

 

Arnljótur Ólafsson bóndi og prestur á Bægisá orðaði það svo í riti sínu Auðfræðin sem kom fyrst út árið 1880: „Í frjálsum og óháðum viðskiptum manna ber enginn til lengdar hærra hlut frá borði en annar, nema því aðeins að hann að öllu samtöldu standi öðrum framar". „Sama er um þjóðirnar, og engu síður; sú þeirra verður að hafa...verkhyggni, dugnað, framsýni, þrifnað, sparsemi...eða kunnáttu ef henni á að vegna betur til langframa eða bera meira úr býtum."

 

Framtíðarsýn Samtaka atvinnulífsins byggir á 10 áhersluatriðum sem við teljum að atvinnulífið og stjórnvöld eigi að nýta til að endurheimta samkeppnishæfni Íslands á næstu 10 árum. Við finnum öll aukinn meðbyr í íslensku atvinnulífi. Einmitt nú er því mikilvægt að setja skýr og raunhæf markmið og freista þess að fá alla, sem að málum koma, til að róa í sömu átt. Það hefur tekist áður - og það er nauðsynlegt að okkur takist það á nýjan leik. Við viljum einbeita okkur að framtíðinni en læra af því sem liðið er.

 

Kjarasamningar með stöðugleika sem markmið

Undanfarin ár hefur komið fram mikil óánægja aðila á vinnumarkaði um hvernig staðið væri að gerð kjarasamninga. Undirbúningur þeirra hafi verið ómarkviss og launahækkanir, sem samið hafi verið um, hafi ekki skilað sér í auknum kaupmætti launa og aukinni atvinnu, heldur hafi horfið í hít verðbólgunnar. Í kjölfarið urðu aðilar að kjarasamningum á almennum og opinberum vinnumarkaði sammála um að kanna hvernig til hefði tekist á Norðurlöndunum, að bæta kaupmátt í samræmi við efnahagsleg skilyrði og með stöðugleika að leiðarljósi.

 

Í janúar 2013 gerðu samningsaðilar á almenna vinnumarkaðnum með sér samkomulag um að hefja þegar undirbúning að kjarasamningi með sameiginlegri sýn um hvernig unnt væri að auka kaupmátt í samræmi við efnahagslegan stöðugleika og svigrúm atvinnulífsins.

 

Þessi vinna leiddi síðan til kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum í desember síðastliðnum ásamt viðbótum í nýliðnum febrúar. Í fyrsta skipti í langan tíma var samið um launahækkanir sem samræmast verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Enda var ársverðbólgan í febrúar og mars komin niður í 2,1 - 2,2% en lægri tölur hafa ekki sést nema einu sinni á undanförnum 10 árum. Auðvitað er of snemmt að fagna, en nýlegar verðbólgumælingar bera þess órækt vitni, að með því að setja ákveðin markmið og vinna af heilindum að því marki, geta aðilar vinnumarkaðarins lagt grunn að langtímakjarabótum fyrir alla.

 

Í nýrri könnun meðal stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins vænta þeir 3,0% verðbólgu næstu 12 mánuði og 3,5% eftir tvö ár. En í síðustu könnunum voru væntingar um verðbólgu 4 - 5%. Stjórnendur búast við að gengi krónunnar haldist stöðugt næsta árið og að stýrivextir Seðlabankans verði óbreyttir. Þessar væntingar eru óþarflega háar og nauðsynlegt að áætlanir fyrirtækja og hins opinbera miðist við að verðbólgan haldist innan marka Seðlabankans og að væntingarnar séu í samræmi við það.

 

Með kjarasamningunum hefur verið stigið skref í átt að nýju tímabili stöðugleika, sem verður meginmarkmið viðræðna um samninga sem taka eiga við í mars á næsta ári. Verðbólga verði svipuð og í nágrannaríkjum, vextir fari lækkandi og forsendur skapist fyrir aukinni verðmætasköpun. Samkeppnisstaða fyrirtækjanna batnar. Þannig verður best lagður grunnur að betri lífskjörum hér á landi.

 

Kjarasamningar, peningastefna og opinber fjármál eru nátengd

Stöðugleiki mun aldrei nást án þess að stjórnvöld hafi hann sem grundvöll. Peningastefnan verður að vera fastmótuð og tryggja lága verðbólgu og vexti í námunda við það sem gerist í samkeppnisríkjunum. Ábyrg fjármálastjórn og afgangur af rekstri hins opinbera eru lykilþættir. Þrátt fyrir fyrirheit ríkisstjórna í áratugi um ábyrg ríkisfjármál, hefur reynslan sýnt að slíku er vart að treysta. Fjármál ríkis og sveitarfélaga hafa yfirleitt magnað hagsveiflur og stuðlað að óstöðugleika, verðbólgu og háum vöxtum. Fagnaðarefni er, að fjármálaráðherra hefur kynnt frumvörp til laga um betri umgjörð opinberra fjármála, sem hafa í för með sér aukinn aga við framkvæmd fjárlaga.

 

Fjármagnskostnaður er mun hærri en í samkeppnislöndunum. Raunvaxtamunur hefur að jafnaði verið 4%-stigum hærri undanfarna tvo áratugi en nafnvextir 6%-stigum hærri. Þessi munur skapar hundruð milljarða króna hærri fjármagnskostnað fyrir skuldug fyrirtæki og heimili. Þessi kostnaður er eitt af því sem heldur  niðri lífskjörum. Í ljósi hjöðnunar verðbólgu, aukins aga í ríkisfjármálum og markmiða samningsaðila á vinnumarkaði hljóta stýrivextir Seðlabankans að lækka hratt á næstunni.

 

Náin tengsl eru milli peningastefnu, ríkisfjármála og kjarasamninga á vinnumarkaði. Til að stöðugleiki ríki í efnahagsmálum verða allir þessir þættir að stefna að sama marki. Gagnkvæmt traust verður að vera milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðar geta ekki gagnrýnt Seðlabanka fyrir hátt vaxtastig, ef þessir aðilar leggja ekki sitt af mörkum til að ná markmiðum peningastefnunnar. Í nálægum löndum ríkir mikil samstaða um efnahagsstefnuna og alger undantekning að stórvægilegar breytingar verði þótt ríkisstjórnir komi og fari. Stefnan byggir á frjálsum viðskiptum í opnu hagkerfi þar sem stöðugleiki, lág verðbólga og traust afkoma hins opinbera leggja grunn að aukinni framleiðni, betri samkeppnishæfni og leiðir til þess að framfarir verða og lífskjör batna.

 

Verkefnið er sameiginlegt og það duga stjórnvöldum, aðilum vinnumarkaðar og Seðlabanka engar afsakanir til annars en að nýta tækifærið og festa í sessi efnahagslegan stöðugleika.

 

Gjaldeyrishöft skapa óvissu

Þrátt fyrir þetta er töluverð óvissa framundan í efnahagsmálum. Gjaldeyrishöftin voru upphaflega samþykkt sem tímabundin aðgerð til tveggja ára. Síðan eru liðin rúm fimm ár.  Gárungarnir segja að sennilega sé ekkert meira viðvarandi en tímabundnar ráðstafanir hins opinbera. Stjórnvöld hafa ekki komið fram með stefnu um hvernig losa eigi um höftin og tryggja aðgang íslenskra fyrirtækja að alþjóðamörkuðum og frjálsri ráðstöfun eigin fjármuna. Ekki er ljóst hvernig skipan peningamála verður háttað. Boðuð hefur verið endurskoðun á lögum um Seðlabankann án þess að markmið hennar séu skýr. Ég tel brýnt að ríkisstjórnin eyði þessari óvissu og skapi festu og trú á að efnahagsstefnan tryggi áframhaldandi stöðugleika. Það er forsenda þess að kjarasamningar takist framvegis á svipuðum nótum og nú síðast.

 

Háir skattar, mikil útgjöld en lítill árangur einkenna opinberan rekstur

Ísland er háskattaland þegar tekið er tillit til greiðslna í lífeyrissjóði þar sem hver kynslóð safnar fyrir sínum eftirlaunum en í flestum nálægum ríkjum greiðir vinnandi fólk lífeyri eftirlaunaþega með sköttum. Verði lífeyrissjóðum áfram bannað að fjárfesta erlendis leiðir það til þess að þeir munu á örfáum áratugum eignast verðmæti sem samsvara virði alls atvinnulífs og íbúðarhúsnæðis í landinu. Það er með öllu óviðunandi framtíðarsýn.

 

Útgjöld hins opinbera eru einnig mikil. Af ríkjum innan OECD ver Ísland þriðja hæsta hlutfallinu til opinberrar þjónustu, fjórða hæsta hlutfallinu til heilbrigðismála og hæsta hlutfallinu til menntamála. Þrátt fyrir þetta er árangurinn lakari en efni standa til. Við eyðum miklu en fáum of lítið í staðinn. Samtök atvinnulífsins hafa lagt til að nemendur útskrifist úr framhaldsskólum tveimur árum yngri en nú er með því að stytta nám um eitt ár bæði í grunnskóla og framhaldsskóla.

 

Undanfarin ár hefur ríkissjóður verið rekinn með miklum halla og því nauðsynlegt að ná afgangi af rekstrinum sem fyrst og greiða niður skuldir. Í fjárlögum 2014 er gert ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs en skuldir ríkissjóðs eru ógnvænlega háar eða um 125% af landsframleiðslu að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum. Undanfarin ár hafa skattar verið hækkaðir langt umfram það sem skynsamlegt er. Þeir geta valdið alvarlegum skaða í efnahagslífinu og draga úr þrótti og skilvirkni fyrirtækjanna. Nauðsynlegt er að einfalda skattkerfið og leggja áherslu á breiða skattstofna og lægri skatthlutföll og að undanþágur verði sem fæstar. Einnig verður að lækka útgjöld hins opinbera. Vænlegast til árangurs í opinberum fjármálum er að  stuðla að fjölgun skattgreiðenda og auknum umsvifum í hagkerfinu með góðum rekstrarskilyrðum atvinnulífsins.

 

Aukinn einkarekstur og dreifðara eignarhald ríkisfyrirtækja getur hjálpað

Á Norðurlöndum er mun stærri hluti heilbrigðis- og menntakerfisins í höndum einkaaðila en hér á landi. Þar vilja menn nýta sem best fjármuni hins opinbera og beita til þess útboðum og útvistun verkefna. Samkeppni, fjárhagsleg ábyrgð, nýsköpun og útsjónarsemi einstaklinga leiðir til aukinnar hagkvæmni og sparnaðar í rekstri bæði í skólum og sjúkrastofnunum auk þess sem árangurinn verður betri. Þetta er besta leiðin sem ríki og sveitarfélög hafa til að bæta gæði þjónustunnar, auka hagkvæmni og spara fé.

 

Til að lækka skuldir ríkisins er kjörið að losa um eignarhald á fjármálafyrirtækjum eins og Landsbanka Íslands. Ríkið á mikið fé bundið í Landsvirkjun og RARIK en með breiðara eignarhaldi á þessum fyrirtækjum er unnt að lækka skuldir og vaxtagreiðslur ríkisins.

 

Séra Arnljótur sagði:„Óneitanlega getur sumum þótt það vekja ánægjuríka og enda mikilmannlega tilfinningu í brjósti sér, að vita sig staddan á alþingi með landsjóð í hendinni og útbýta landsmönnum úr honum eftir vild sinni...", og hann bætti við „... hver sá er ör vill vera á hjálpinni og góðgerðaseminni og útbýtir til þess almannafé, hann hlýtur og að vera jafnör á aukning tolla og íþyngd skatta". Þetta mega stjórnmálamennirnir hugleiða áður en þeir leggja fram tillögur um ný útgjöld eða nýjar framkvæmdir hvort sem það eru jarðgöng, vegaframkvæmdir, ný áburðarverksmiðja eða háhraðalest og flutningur flugvallar. Það er auðvelt að vera stórhuga fyrir annarra manna fé.

 

Óvissa dregur úr fjárfestingu

Það er útilokað að meta af einhverri nákvæmni tjón vegna gjaldeyrishaftanna. Tækifæri glatast og ávinningur með. Starfsemi sem aldrei var byggð upp skilar engum skattgreiðslum, fyrirtæki sem flytja úr landi skapa ekki störf. Skattar á fólk og fyrirtæki verða hærri en ella en skatttekjurnar aukast ekki. Möguleikar til rannsókna, nýsköpunar og þróunar dragast saman. Höftin fela í sér óvissu og leiða til þess að íslenskt efnahagslíf sækir hægar fram en í samkeppnislöndunum. Við drögumst aftur úr.

 

Undanfarin ár hafa einkennst af skattahækkunum, tíðum breytingum á skattalögum, sífellt hertum reglum um fjármagnsflæði og auk þess hafa lög um ívilnun vegna fjárfestinga verið sett og felld úr gildi aftur. Óvissa leiðir til þess að fjárfestar halda að sér höndum og fjárfestingar verða minni en ella. Með þetta í huga kemur ekki á óvart að fjárfestingar séu minni en nauðsynlegt er, til að tryggja eðlilega endurnýjun framleiðslutækja og innviða samfélagsins. Þeir sem horfa til nýfjárfestinga hljóta að vega og meta þessi atriði með hliðsjón af efnahagsumhverfi sem fyrirtæki búa við í nálægum löndum. Stöðugleiki, festa og samkeppnishæft rekstrarumhverfi er vænlegasta leiðin til að auka fjárfestingar. Fjárfestingar fela í sér ný störf, þær skapa tækifæri og betri lífskjör. Fjárfesting í dag er hagvöxtur á morgun.

 

Það er kraftur í litlu fyrirtækjunum

Íslenskt atvinnulíf er byggt upp af litlum og meðalstórum fyrirtækjum og því er ein besta leiðin til að auka hagvöxt að skapa þeim hagstæð skilyrði. Lítil fyrirtæki eru uppspretta nýrra starfa, þau hleypa krafti í atvinnulífið og gera það fjölbreytt og áhugavert. Fyrirtæki með færri en 50 starfsmenn greiddu um 44% heildarlauna og fyrirtæki með 1 - 9 starfsmenn greiddu 21% heildarlauna í atvinnulífinu árið 2012. Launagreiðslur þessara fyrirtækja voru um alls 360 milljarðar króna árið 2012. Í litlum og meðalstórum fyrirtækjum á sér stað nýsköpun og tækni fleygir fram. Stuðningur við þessa þætti er mjög mikilvægur og skilar sér margfalt til baka eins og fjölmargar frásagnir hraðvaxandi fyrirtækja vitna um. Hættan er hins vegar sú að mörg þessara fyrirtækja fái ekki þrifist innan múra gjaldeyrishafta og að eignarhald þeirra og vöxtur verði annars staðar en hér.

 

Hagræða þarf í rekstri eftirlitsstofnana og stokka upp kerfið

Til þess að störfum fjölgi og ný tækifæri skapist verður almennt rekstrarumhverfi fyrirtækja að vera eins og best verður á kosið. Það verður að vera auðvelt að stofna fyrirtæki og einfalt að sækja um leyfi. Bjarni Harðarson, kaupmaður á Selfossi, lýsti því ágætlega fyrir nokkrum mánuðum hvað þurfti til að fá endurnýjað starfsleyfi fyrir kaffihúsið sitt. Hann þurfti að sanna að hann væri til, að hann byggi í húsinu sínu og að kaffihúsið væri til og viðurkennt sem hús, svo varð að sanna að virðisaukaskattsnúmerið tilheyrði rekstri hans og að lífeyrisiðgjöld væru í skilum og að lokum þurfti hann að leggja fram sakavottorð. Allt þetta þarf að gera á fjögurra ára fresti. - Skilur einhver hvers vegna kaffihúsaleyfi eru einungis veitt til svona skamms tíma?

 

Undanfarin ár hefur eftirlitsstarfsemi hins opinbera með fyrirtækjum aukist. Rekstrargjöld 23 helstu eftirlitsstofnana jukust um tæp 30% milli áranna 2010 og 2012 og sívaxandi hlutur kostnaðarins var sóttur í vasa fyrirtækjanna í landinu. Það er orðin brýn nauðsyn að stokka upp starfsemi þessara stofnana sem margar sinna áþekkum eða sömu verkefnum, eftirlitsmennirnir koma í heimsókn hver af öðrum og skoða sama hlutinn aftur og aftur.

 

Réttur fyrirtækja er óviðunandi við rannsókn mála

Það er nauðsynlegt að tryggja betur en nú er rétt fyrirtækja við rannsókn mála. Í fjölmiðlum hafa að undanförnu komið fram dæmi um framgöngu Fiskistofu, Samkeppniseftirlitsins og Seðlabanka Íslands við rannsókn mála. Framganga þeirra ber eftirlitsstofnunum ekki fagurt vitni. Þegar rannsókn á meintum brotum hefst, geta fyrirtæki búið við það árum saman að fá ekki að vita í hverju brot þeirra átti að vera falið. Það eru engin tímamörk á því að stofnanir skili niðurstöðu. Heimildir til að leggja hald á gögn eru ríkulegri en í nálægum löndum þar sem almennt eru tekin afrit af gögnum en ekki lagt á þau hald. Nauðsynlegt er að sett verði almenn viðmið um meðferð gagna. Það er einnig óviðunandi að unnt sé að óska eftir húsleitarheimild til að rannsaka meint brot en nýta síðan gögnin til að kanna allt önnur mál en upphaflega var ætlunin.

 

Samkeppnisreglur eru mjög mikilvægar til að tryggja virka og heilbrigða samkeppni á markaði, greiðan aðgang nýrra fyrirtækja, koma í veg fyrir ólögmætt samráð, misnotkun á markaðsráðandi stöðu og mismunun vegna opinberra afskipta. Samkeppniseftirlitið er mikilvæg stofnun til að tryggja þessa þætti. Þegar stofnunin hefur tekið ákvörðun geta fyrirtæki vísað málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kveður upp úrskurð í málinu. Það er hins vegar öfugsnúið, að vilji stofnunin ekki una úrskurðinum, getur hún vísað málinu til dómstóla. Eftirlitsstofnunin fer þá í mál við æðra sett stjórnvald. Með þessu er búið að taka úr sambandi möguleika fyrirtækja til að ljúka máli á stjórnsýslustigi. Þessa heimild Samkeppniseftirlitsins verður að fella niður. Almenn lagasetning til að tryggja rétt fyrirtækja er nauðsynleg sérstaklega í ljósi þess að sífellt fleiri og fleiri stofnanir hafa fengið heimildir til að leggja svokallaðar stjórnvaldssektir á fyrirtæki og til að kæra forsvarsmenn þeirra til lögregluyfirvalda.

 

Landbúnaður er mikilvægur en samkeppni er nauðsyn

Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að hér á landi sé rekinn öflugur landbúnaður þar sem afkoma bænda er tryggð, hvatt er til hagræðingar og opnað fyrir aukna samkeppni eins og kostur er. Það er eðlilegt að heimildir til innflutnings verði auknar og tollverndin endurskoðuð. Óviðunandi er að tollvernd á alifuglakjöt sé yfir 90% af innkaupsverðinu. Það hefur ítrekað komið í ljós að íslensk kjötvinnslufyrirtæki nota innfluttar vörur til vinnslu sinnar í stað innlendrar framleiðslu án þess að taka það sérstaklega fram. Ég heimsótti eitt slíkt fyrirtæki þar sem í öðrum megin í vöruskemmunni var innlenda hráefnið og hins vegar hið innflutta. Í vinnslunni var enginn greinarmunur gerður.

Séra Arnljótur Ólafsson, sem áður er vísað til, fæddist árið 1823, fyrir nær tvö hundruð árum, og sinnti búsýslu um áratugaskeið meðfram prestsstörfum og þingmennsku. Arnljóti var gildi samkeppninnar alveg ljóst en hann segir í Auðfræðinni: „Ef vér skerðum samkeppnina með lögum ... þá heftum vér eigi aðeins framkvæmdir manna, starfsemi þeirra og útvegi, heldur öftrum vér og hugskotsauga þeirra til að sjá og litast um, skilningi þeirra til að sundurgreina og samanbera" ... og ...„vilja þeirra til að ætla og áforma". Ég er sammála séra Arnljóti að frjáls verðlagning og samkeppni skili betri rekstri og ódýrari vöru og að það sé vafasamur greiði við landbúnaðinn að hluti hans skuli undanþeginn samkeppnislögum.

 

Tækifærin eru til staðar

Það eru mikil vaxtartækifæri framundan hér á landi. Þau byggja bæði á auðlindum landsins og á hugviti landsmanna. Til að nýta tækifærin þarf samstöðu og skýra stefnu um nýtingu auðlindanna, að hugmyndirnar séu ekki læstar inni í höftum heldur ríki hér umfram allt frelsi fyrirtækja og einstaklinga til að skapa sér samkeppnisforskot á alþjóðlegum mörkuðum.

 

Séu tækifærin ekki nýtt og alþjóðaviðskiptin takmörkuð þá versnar samkeppnisstaða þjóðarinnar. Aðrir sækja fram en við stöndum í stað. Lífskjör nálægra þjóða batna en við drögumst aftur úr.

Séra Arnljótur, sem hafði sótt sér hagfræðimenntun við Kaupmannahafnarháskóla fyrir um 160 árum, var ekki í nokkrum vafa um gildi frjálsra viðskipta en hann segir: „...því meiri erfiðleikar og því stærri er torfærur og tálmar eru á vegi viðskipta og verslunar, að sama skapi verður og fyrirhöfnin meiri, því örðugri viðskiptin...því dýrari verður fullnægjan njótendanum, er jafnan hlýtur að endurgjalda alla fyrirhöfnina". „Öll viðskipti manna, kaupskapurinn í landinu og verslun vor við útlönd, gjöra þá mannfélaginu það mikla gagn að hver maður getur neytt sem best hæfileika sinna, sparað sér innistæðu eða atvinnufé..."

 

Að endingu segi ég þetta: Tækifærin eru sannarlega til staðar. Í samkeppni og frjálsum viðskiptum er fólgin besta leiðin til að bæta samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs. Við verðum að treysta á greið og hindrunarlaus viðskipti til að bæta hag allra landsmanna, rétt eins og séra Arnljótur benti á. Með betri samkeppnisstöðu eykst verðmætasköpun og framleiðni í atvinnulífinu. Störfum fjölgar, kaupmáttur eykst, afkoma hins opinbera batnar. Lífskjör allra batna. Eða eins og séra Arnljótur orðaði þetta: „Hér kemur þá fram undrunarverð og dásamleg tilhögun, og hún er sú að hagur allra er hagur sérhvers."

 

Tengt efni:

 

Ný stefnumörkun SA: 10/10. Betri lífskjör allra

 

Hægt er að horfa á ávarp Björgólfs hér að neðan.

 

&nbs