Bakgrunnur stjórnarmanna ræður úrslitum

Í ljósi umræðu á Íslandi um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja er áhugavert að skoða bakgrunn þeirra fulltrúa sem valist hafa í stjórnir. Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman upplýsingar um bakgrunn stjórnarmanna í fimmtán stórum fyrirtækjum á íslenska hlutabréfamarkaðnum en mörg þessara fyrirtækja starfa á alþjóðlegum vettvangi.[1] Á undanförnum árum hefur konum með háskólamenntun og konum sem gegna ábyrgðarstöðum fjölgað verulega án þess þó að þeim hafi fjölgað samsvarandi í stjórnum fyrirtækja.

 

Reynsla af stjórnun grundvallarþáttur

Það er að mörgu að hyggja þegar skipað er í stjórnir fyrirtækja enda mikil ábyrgð lögð á herðar stjórnarmanna. En hvaða þættir eru mikilvægastir þegar kemur að því að velja í stjórnir? Greining á bakgrunni stjórnarmanna þeirra fyrirtækja sem SA tók til skoðunar leiðir í ljós að stjórnunarreynsla hefur mikla þýðingu. Yfir 95% þeirra hafa reynslu af stjórnarsetu, þ.e hafa setið í stjórn annarra fyrirtækja áður eða búa yfir reynslu af rekstri fyrirtækja. Rúmlega 2/3 hlutar stjórnarmanna sitja jafnframt í stjórn fleiri en eins fyrirtækis en í mörgum tilvikum er um svipað eignarhald fyrirtækjanna að ræða.

 

Eignarhald skiptir miklu máli

Þegar kemur að því að skipa í stjórnir fyrirtækja hefur eignarhald einnig úrslitaáhrif og þyrfti engan að undra að eigendur fyrirtækja vilji hafa áhrif á það hvernig þeim er stjórnað. Athugun SA leiddi t.d. í ljós að 65% stjórnarmanna eru sjálfir hluthafar í fyrirtækjunum eða sitja í stjórn fyrir hönd ákveðinna eigenda. Eigendur fjármagns eru því ráðandi í stjórnum fyrirtækja á Íslandi en þriðjungur stjórnarmanna situr í stjórnum umræddra fyrirtækja án þess að eiga þar hlut. Stjórnarseta þeirra skýrist væntanlega af reynslu þeirra en flestir stjórnarmannanna búa yfir mikilli reynslu á vinnumarkaði og hafa starfað sem framkvæmdastjórar hjá stórum fyrirtækjum. Oftar en ekki setjast þeir í stjórnir þeirra fyrirtækja sem þeir hafa áður starfað hjá sem framkvæmdastjórar og þekkja því vel til.

 

 

Hlutfall stjórnarmanna

Eignarhald[2]

65%

Stjórn annarra fyrirtækja

68%

Framkvæmdastjóri/forstjóri[3]

86%

 

Menntun hefur ekki afgerandi áhrif

Formleg menntun virðist ekki ráða eins miklu þegar kemur að vali stjórnarmanna. Tæplega þriðjungur stjórnarmanna þeirra fyrirtækja sem skoðuð voru hefur til dæmis ekki menntun sem tengist starfsemi fyrirtækjanna. Af 85 stjórnarmönnum hafa 28 lokið þriggja ára háskólanámi eða sambærilegri menntun en 32 hafa lokið framhaldsnámi á háskólastigi. Í stjórn fyrirtækjanna voru sex lögfræðingar og má ætla að þeir sitji í stjórn til þess að gæta hagsmuna ákveðinna hluthafa.

 

Margfeldiskosning tryggir áhrif minnihluta á Íslandi

Á Íslandi kveða hlutafélagalög á um að fara skuli fram svonefnd margfeldiskosning við val í stjórnir til þess að tryggja fulltrúa minnihluta stjórnarsæti. Víða erlendis fær stærsti hluthafi fyrirtækis hins vegar umboð til að ráða því hvaða einstaklingar sitja í stjórn fyrirtækisins og þar með hefur hann í hendi sér öll atkvæði stjórnarmanna og stjórnin verður mjög samstíga. Slíkt fyrirkomulag býður frekar upp á skipan fulltrúa sem ekki eru hluthafar, en hér á landi er svigrúm til þess minna.  


[1] 365 hf, Actavis, Alfesca, Bakkavör, Exista, FL-group, Flaga, Glitnir, Eimskipafélag Íslands, Kaupthing, Landsbanki Íslands, Marel, Nýherji, Straumur-Burðarás og Teymi.

[2] Þá er átt við eignarhald í fyrirtækinu sjálfu eða eignarhlut í tengdum fyrirtækjum.

[3] Fyrrverandi eða núverandi framkvæmdastjórar og forstjórar.