Atvinnulífið er hluti af lausn loftslagsvandans

Samtök atvinnulífsins á Norðurlöndunum sendu í dag bréf til forsætisráðherra Norðurlanda og umhverfisráðherra auk forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem hvatt er til þess að stjórnvöld og atvinnulíf vinni saman að því að finna lausnir á loftslagsvandanum. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ritar undir bréfið fyrir hönd SA en Geir H. Haarde, forsætisráðherra Íslands og Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, fengu það sent í dag ásamt öðrum forsætisráðherrum og umhverfisráðherrum Norðurlanda og Jose Manuel Barroso hjá ESB.

 

Í bréfinu kemur fram að samtök atvinnulífsins á Norðurlöndum ræði nú af fullum þunga um leiðir til að vinna gegn þeim loftslagsbreytingum sem eru að eiga sér stað. Samtökin hafa jafnframt tekið saman tillögur um hvernig hægt sé að ráðast gegn vandanum en það er mat þeirra að án aðkomu atvinnulífsins verði vandinn ekki leystur – atvinnulífið sé hluti af lausninni. Tillögurnar fela í sér sýn um nýtt alþjóðlegt samkomulag eftir að Kyoto-bókunin fellur úr gildi árið 2012 og undirstrika með hvaða hætti Evrópusambandið geti unnið gegn óæskilegum áhrifum loftslagsbreytinga með raunhæfum og hagkvæmum aðgerðum.

 

 

Samtök atvinnulífsins á Norðurlöndum binda miklar vonir við að loftslagsráðstefna aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna - sem nú stendur yfir á Balí - muni leiða til alþjóðlegs samkomulags ekki síðar en í árslok 2009. Eigi slíkt samkomulag að skila árangri verða þær þjóðir sem ábyrgar eru fyrir mestum útblæstri gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu að eiga aðild að því.

 

Þetta þýðir í raun að ríki OECD verða að setja sér sambærileg markmið og Evrópusambandið hefur sett sér að ná fyrir árið 2020 þó þannig að tekið verði tillit til sérstöðu einstakra ríkja. Jafnframt verða þau að tryggja að útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá þróunarríkjum verði takmarkað og að þeim verði gert að ná tilteknum árangri innan ákveðins tíma.

 

 

Forsenda fyrir því að slík stefnumörkun skili árangri er að samkeppnisstöðu fyrirtækja sem keppa á alþjóðlegum markaði verði ekki raskað og að unnið verði að því með fyrirtækjunum að takmarka útblástur á raunhæfan hátt. Mikilvægt er að fyrirtæki sem starfa innan sömu greinar búi við sömu eða svipaðar kröfur hvar sem þau eru staðsett í heiminum.

 

Samtök atvinnulífsins (SA) styðja að sambærilegt ákvæði og svokallaða íslenska ákvæði fylgi nýju alþjóðlegu samkomulagi. Í meðfylgjandi tillögum setja samtök atvinnulífsins á Norðurlöndunum fram skoðun sína á því hvert Evrópusambandinu og Norðurlöndunum beri að stefna til að árangur náist í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Það er mat þeirra að framlag atvinnulífsins sé mikilvægt í þeirri baráttu sem er framundan þar sem fyrirtæki geti dregið úr útstreymi með því að þróa nýja tækni, beita nýjum aðferðum og með því að stunda rannsóknir og nýsköpun.

 

Sjá nánar: Tillögur samtaka atvinnulífsins á Norðurlöndum (PDF)