Ár landvinninga í atvinnulífinu

 

Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, í áramótaviðtali Morgunblaðsins:

 

Ár landvinninga í atvinnulífinu

 

Árið 2004 einkennist af góðum árangri íslensks atvinnulífs og samfélagsins alls í efnalegu tilliti og eftirtektarverðum landvinningum einstakra fyrirtækja. Hagvöxtur hefur verið meiri hér en í flestum þeim löndum, sem við berum okkur saman við, og er útlit fyrir, að svo verði áfram um sinn. Kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri hér á landi en nú. Fjárfesting í iðnaði er í sögulegu hámarki vegna uppbyggingar orkuvera og stóriðju, gríðarlegur uppgangur hefur verið á hlutabréfamarkaði og íslensk fyrirtæki hafa margfaldað umsvif sín erlendis. Landvinningar íslenskra fyrirtækja erlendis eru mun meiri á þessu ári en dæmi eru um. Ef vel tekst til, er von til þess, að ávinningur þeirra muni skila sér í enn öflugra atvinnulífi innanlands.

 

Skynsemin réð för

Ánægjulegt er að geta horft til þess, að skynsemin hafi ráðið för við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði á árinu. Með samningum við helstu stéttarfélög á almennum vinnumarkaði var lagður grunnur að vinnufriði næstu fjögur árin. Mikilvægt var, að samið var við stéttarfélög sjómanna, en nú stendur yfir atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna um samninginn. Er von til, að sú mikla vinna, sem lögð var í samningsgerðina, skili sér í gagnkvæmum skilningi á samningsforsendum á næstu árum. Vissulega hafa kjarasamningar á almennum vinnumarkaði verið fyrirtækjum dýrir og leggjast þeir ofan á hærra hlutfall launa af verðmætasköpun en raunin er meðal keppinauta erlendis. Verðmætasköpun atvinnulífsins á þó að geta staðið undir auknum launakostnaði, ef vel tekst til með stjórn efnahagsmála, kjarasamninga opinberra starfsmanna og starfsskilyrði atvinnulífsins. Þar þarf að takast vel til, því Íslendingar eru meðal tíu tekjuhæstu þjóða heims, þegar litið er til verðmætasköpunar á hvern íbúa, en takmarkið hlýtur að vera að hækka enn í þeim samanburði og stefna á fyrsta sætið.

 

Þótt vel hafi gengið á flestum sviðum efnahagslífs á árinu, gefur þróun verðlags og hátt gengi krónunnar ástæðu til að hafa vara á. Aðhald þarf enn að auka í ríkisfjármálum til að draga úr þeirri þenslu. Halli hefur verið á rekstri bæði ríkissjóðs og sveitarsjóða samkvæmt uppgjöri fyrstu níu mánaða ársins, en því ætti að vera þveröfugt farið til að jafna hagsveifluna. Seðlabankinn hefur því hækkað stýrivexti ört, sem stuðlað hefur að hækkandi gengi krónunnar, en gengi hennar er nú í hámarki með tilheyrandi tekjuskerðingu innlendra fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni.

 

Mikil gengishækkun í tengslum við síðustu vaxtahækkun Seðlabankans bendir til þess, að gengi krónunnar sé næmara nú en áður fyrir vaxtamun gagnvart útlöndum, og setur það Seðlabankanum vissulega takmörk um það, hve langt er hægt að ganga í hækkun vaxta í því skyni að sporna gegn þenslu. Gengi krónunnar ræðst á frjálsum markaði og hafa gjaldeyrishreyfingar frá utanríkisverslun með vörur og þjónustu mun minni áhrif á stöðu gengisins en fjármagnshreyfingar í tengslum við verðbréfakaup og fjárfestingu vegna yfirtöku og samruna fyrirtækja. Það veldur því, að gengi krónunnar getur orðið fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni afar óhagstætt svo lengi sem Seðlabankinn telur þörf á að hafa vexti háa til að sporna gegn þenslu á vinnumarkaði og í atvinnulífi almennt hér á landi. Að óbreyttu má við því búast, að hátt gengi krónunnar muni skerða afkomu atvinnulífsins og höggva skarð í raðir fyrirtækja.

 

Á sama tíma og Seðlabankinn hækkar stýrivexti til þess að sporna gegn þenslu er sú sérkennilega staða uppi, að önnur stofnun ríkisins, Íbúðalánasjóður, á í samkeppni við fjármálafyrirtæki á lánamarkaði. Opinber lánastofnun stendur fyrir enn frekari aukningu útlána með tilheyrandi áhrifum á einkaneyslu og verðbólgu, sem því er sérstaklega orð á gerandi, að Íbúðalánasjóður greiðir hvorki tekjuskatt né ábyrgðargjald. Staða Íbúðalánasjóðs er þannig mjög á skjön við almennar hugmyndir um heilbrigða samkeppni og aðkomu ríkisins að samkeppnisrekstri. Því er brýnt að taka nú þegar hlutverk Íbúðalánasjóðs til gagngerrar endurskoðunar. Ef stjórnvöld ætla honum að starfa á samkeppnismarkaði, verður að búa honum sömu rekstrarskilyrði og öðrum fjármálafyrirtækjum.

 

Kjarasamningar haldi

Þegar horft er til næsta árs er ofarlega í huga mikilvægi þess, að markmið um tekjuafgang fjárlaga náist og brýnt, að ríkissjóður skili meiri rekstrarafgangi næstu árin en nú er stefnt að. Forsendur kjarasamninga koma til skoðunar í nóvember og er mikilvægt, að takist að hemja verðbólguna, eigi forsendur þeirra að halda. Í því sambandi er nauðsynlegt að gæta ýtrasta aðhalds í launaþróun hjá hinu opinbera, ekki síst í ljósi þess, að á undanförnum árum hafa laun þar hækkað langt umfram það, sem almennur vinnumarkaður hefur haft tök á. Þessu verklagi verður að linna og væri það verðugt markmið stjórnvalda að einsetja sér, að launakostnaður ríkissjóðs hækki ekki meira en launakostnaður á almennum vinnumarkaði. Þá verður áhugavert að fylgjast með þeirri atvinnuuppbyggingu, sem nú fer fram á Reyðarfirði og á Grundartanga, og fróðlegt verður að sjá, hver framvinda verður á hugmyndum um stækkun álversins í Straumsvík. En þótt fjárfrekar framkvæmdir á sviði stóriðju veki jafnan athygli, skipta ekki síður máli framkvæmdir fjölda smærri fyrirtækja, sem skapa breiddina í atvinnulífinu og leggja traustan grunn að batnandi lífskjörum til lengri tíma litið. Verður fróðlegt að fylgjast með nýfjárfestingu á þeim vettvangi á næstu árum. Á uppgangstíma í atvinnulífinu er jafnframt afar brýnt að efla í enn ríkari mæli nýsköpun íslenskra fyrirtækja og treysta undirstöður innlendra framleiðslu- og þjónustufyrirtækja; þar liggja atvinnutækifæri þeirra, sem kjósa að búa á Íslandi.

 

Til lengri tíma litið er mest um vert að hlúa að samkeppnishæfu starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja. Á sviði skattamála hafa orðið miklar breytingar til hins betra síðastliðin ár og fyrr í þessum mánuði ákvað Alþingi að afnema eignarskatt á fyrirtæki, en slík skattlagning á fyrirtæki heyrir til algerra undantekninga erlendis. Þrátt fyrir lofsverðar umbætur, er enn ýmissa skattalegra úrbóta þörf og má þar nefna mikilvægi þess að endurskoða álagningu neysluskatta, stíga frekari skref í lækkun tekjuskatts fyrirtækja, afnema stimpilgjöld á verðbréfaviðskipti og endurskoða álagningu vörugjalda, sem mörg hver þekkjast ekki meðal nálægra þjóða.

 

Á tímum hnattvæðingar og sívaxandi alþjóðlegrar samkeppni eru samkeppnishæf starfsskilyrði íslenskra fyrirtækja mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Þátttaka í alþjóðlegu atvinnulífi færir okkur tækifæri jafnt sem áskoranir. Við eigum að taka þeim og keppa af fullum krafti. Stöðugleiki í efnahagslífi, sveigjanleiki á vinnumarkaði, samkeppnishæft skattaumhverfi og öflugt menntakerfi eru þættir, sem við eigum að leggja megináherslu á til eflingar íslensku atvinnulífi. Náum við enn frekari árangri á þeim sviðum, eru okkur allir vegir færir í alþjóðlegri samkeppni; íslensku atvinnulífi og þar með íslensku samfélagi til hagsbóta. Íslendingar hafa staðið sig vel á þessum sviðum og höldum við áfram á sömu braut, höfum við alla burði til þess að vera áfram í fremstu röð meðal þjóða."