Ályktun stjórnar SA um kjarasamninga og efnahagsmál

Kaupmáttur launa hefur aukist mjög á núverandi samningstímabili og meira gerist meðal nálægra þjóða. Laun hafa hækkað mikið og verðbólga verið allt of mikil.  Nú er tími til kominn að hægja á launa- og verðbreytingum.

 

Stjórn Samtaka atvinnulífsins leggur megináherslu á að í komandi kjarasamningum verði svigrúm til launahækkana nýtt til hækkunar lægstu launa, tilfærslu lægstu kauptaxta nær greiddum launum og launaþróunartryggingar í því skyni að hækka laun þeirra sem einungis hafa fengið almennar launahækkanir á undangengnum misserum. Svigrúm atvinnulífsins til hækkunar á launakostnaði takmarkast við niðurstöðu kjarasamninga í nágrannalöndum okkar þar sem árlegar hækkanir hafa verið um 3%. Stjórn SA telur ekki tilefni til almennra launahækkana nú í ljósi undangenginnar launaþróunar og að slíkar launahækkanir yrðu einungis verðbólgufóður og þannig beinlínis skaðlegar íslensku efnahagslífi.

 

Stjórn SA styður áform um stofnun sérstaks áfallatryggingasjóðs í því skyni að standa fyrir þjónustu, endurhæfingu, stuðningi og aðhaldi við starfsmenn sem verða fyrir slysum eða veikjast. Núverandi réttindakerfi hefur alltof oft reynst vera einstefna í átt að örorku fyrir þá sem hafa veikst eða slasast. Nauðsynlegt er að huga fyrr að úrræðum en nú er gert og vinna gegn óvenju mikilli fjölgun örorkulífeyrisþega.

 

Stjórn SA hvetur íslensk stjórnvöld til ábyrgðar í hagstjórn og varar við nýrri lagasetningu sem dregur úr samkeppnishæfni atvinnulífsins. Íslenskt atvinnulíf þarf að búa við starfsskilyrði í fremstu röð til þess að standa undir hæsta launakostnaði í Evrópu. Nú er í farvatninu lagasetning á ýmsum sviðum sem íþyngir atvinnulífinu án sýnilegs ávinnings, þ.m.t. frumvörp til jafnréttislaga og breytingar á samkeppnislögum. Brýnt er að stjórnvöld taki tillit til varnaðarorða Samtaka atvinnulífsins vegna aukins kostnaðar atvinnulífsins og verri starfsskilyrða af þessum sökum. Stjórn SA leggur ennfremur áherslu á að launakostnaður opinberra aðila hækki ekki umfram það sem gerist í samningum SA á almennum vinnumarkaði. 

 

Samtök atvinnulífsins hafa þrýst á um aðhald í opinberum útgjöldum, breytingar á því verðbólgumarkmiði sem peningastefna Seðlabankans byggir á og að umgjörð hagstjórnar verði bætt með vandaðri vinnubrögðum við gerð hagtalna og spáa um framvindu efnahagsmála.  Ríkisstjórnin hefur ekki brugðist við ábendingum SA í þessum efnum þrátt fyrir skerandi þörf á úrbótum.  Stjórn SA telur svigrúm ekki fyrir hendi til nýrra kjarasamninga sem valda atvinnulífinu kostnaði nema tekið sé á þessum málum. 

 

Stjórn SA – 4. desember 2007