Ályktun fulltrúaráðs SA um kjarasamninga og efnahagsmál

Fulltrúaráð SA kom saman til fundar í morgun og ályktaði um kjarasamninga og efnahagsmál. Fulltrúaráð SA hefur æðsta vald í málefnum samtakanna milli aðalfunda. Í upphafsorðum ályktunarinnar segir m.a. að óvissa og óróleiki á erlendum og innlendum fjármálamörkuðum muni marka efnahagsframvinduna á næstu mánuðum og jafnvel misserum. Íslendingar muni ekki fara varhluta af þessari þróun sem auk hás olíuverðs og minnkandi sjávarafla muni leiða til þess að hagvöxtur verður að líkindum óverulegur á næsta ári. Við þessar aðstæður gangi Samtök atvinnulífsins til kjarasamninga við helstu viðsemjendur sína. Brýnt sé að niðurstaða þeirra verði til þess að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu og að verðbólga komist fljótlega á svipað stig og í viðskiptalöndunum.

 

Ályktun fulltrúaráðs SA frá 28. nóvember má lesa í heild hér að neðan:

 

„ Óvissa og óróleiki á erlendum og innlendum fjármálamörkuðum mun marka efnahagsframvinduna á næstu mánuðum og jafnvel misserum. Fjármálageirinn sem verið hefur ein helsta uppspretta vaxtar í íslenskum þjóðarbúskap undanfarin ár mætir nú hækkandi fjármögnunarkostnaði sem leiðir til aukinnar varfærni og minni umsvifa. Ákveðin hætta er á samdrætti í Bandaríkjunum sem smitast muni til annarra heimsálfa. Íslendingar munu ekki fara varhluta af þessari þróun sem auk hás olíuverðs og minnkandi sjávarafla mun leiða til þess að hagvöxtur verður að líkindum óverulegur á næsta ári.

 

Við þessar aðstæður ganga Samtök atvinnulífsins til kjarasamninga við helstu viðsemjendur sína. Brýnt er að niðurstaða þeirra verði til þess að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu og að verðbólga komist fljótlega á svipað stig og í viðskiptalöndunum. Við það ber að miða að launakostnaður vegna samninganna breytist ekki á næsta ári umfram það sem almennt gerist í kjarasamningum í viðskiptalöndunum. Mikilvægt er að það svigrúm verði nýtt til þess að bæta stöðu þeirra sem mest reiða sig á launaliði kjarasamninga, þ.e. þeirra sem taka laun samkvæmt lágmarkstöxtum samninga og þeim sem einungis hafa fengið almennar launahækkanir. Sú leið felur jafnframt í sér að þeir sem hafa notið launaskriðs fá ekki frekari hækkanir við gerð kjarasamninga að þessu sinni.

 

Þá er brýnt að samningsaðilar leggi sitt af mörkum til þess að stemma stigu við þeirri miklu fjölgun örorkulífeyrisþega sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Hluti skýringarinnar á fjölgun þeirra liggur í því hve fábreytt úrræði standa þeim til boða sem standa höllum fæti á vinnumarkaði, m.a. vegna veikinda eða slysa. Brýnt er að veita fólki aðstoð og stuðning eins fljótt og unnt er og í því skyni er skynsamlegt að stytta þann tíma sem launafólk á rétt á beinum greiðslum frá vinnuveitanda vegna veikinda og slysa en taka þess í stað upp greiðslu sjúkradagpeninga úr sameiginlegum sjóði sem jafnframt hafi það hlutverk að veita aðstoð og endurhæfingu.

 

Einn helsti vandi efnahagsstjórnar hér á landi liggur í mismunandi áherslum opinberra aðila sem meðal annars birtist í reiptogi Seðlabanka og Íbúðalánasjóðs þar sem annar aðilinn leggur áherslu á háa vexti en hinn á lága.  Þá hefur fjármálastjórn bæði ríkis og sveitarfélaga engan veginn stuðlað nægjanlega að því að stýra opinberum útgjöldum í samræmi við efnahagsástandið. Atvinnulífið gerir þá kröfu að allir opinberir aðilar sem áhrif hafa á efnahagsstjórn rói í sömu átt.

 

Peningastefna Seðlabankans hefur ratað í miklar ógöngur. Bankinn hefur hækkað vexti ótæpilega sem leitt hefur til langvarandi hágengistímabila og leikið útflutningsatvinnuvegina og önnur fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni grátt. Ávinningurinn hefur orðið minni en enginn í kjölfar gengisfalla og meðfylgjandi verðbólgu sem óhjákvæmilega brýst fram í lok hágengistímabilanna. Meiri fórnir hafa verið færðar en réttlætanlegt er. Samtök atvinnulífsins hvetja stjórnvöld til þess að endurskoða samkomulag sitt við Seðlabankann um verðbólguviðmið þannig að verðbreytingar á eigin húsnæði falli brott. Þá hvetja samtökin stjórnvöld til þess að endurskoða lögin um Seðlabankann þannig að horfið verði frá ósveigjanlegu verðbólgumarkmiði og unnt verði að taka tillit til annarra aðstæðna í þjóðarbúskapnum en verðbólgu við ákvörðun stýrivaxta.”