Almenn ánægja með breytingar á stjórnsýsluþætti

„Við erum almennt ánægðir með þá breytingu sem lögð er til á [stjórnsýslu samkeppnismála] og teljum að hún verði til góðs,“ segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Fréttablaðið um þau drög að frumvarpi viðskiptaráðherra um sameiningu Samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar í Samkeppniseftirlitið og stofnun Neytendastofu sem samtökunum voru kynnt á síðasta hausti.

 

Samtökin voru umsagnaraðilar þegar frumvarpið var í skoðun og segir Ari að þær megin athugasemdir sem þá hafi verið gerðar hafi lotið að heimild þessarar nýju stofnunar til að brjóta upp fyrirtæki. „Að okkar mati var sú heimild of loðin og óskýr og ekki bundin við brot á lögum og ekki virtist vera um neina frestun á þeirri framkvæmd að ræða þó slík mál færu fyrir dómstóla.“

 

Annað sem Samtök atvinnulífsins gerðu athugasemd við var að ekki væri tekið sérstakt tillit til lítilla fyrirtækja en samtökin meta það svo að rýmri heimildir eigi að gilda um þau gagnvart samkeppnislögum en um stærri fyrirtæki. „Það er eingöngu í því skyni að gefa litlu fyrirtækjunum góða möguleika á að vaxa með því að hafa samstarf sín á milli enda er slíkt algengt.“