Ágreiningur um vinnutímatilskipun ESB

Vinnutímatilskipunin sætir nú endurskoðun. Evrópuþingið hefur samþykkt tillögur sem fela í sér að vinnutímareglurnar verða hertar verulega verði þær samþykktar í ráðinu. Mjög skiptar skoðanir eru um ágæti þessara breytinga. UNICE, Evrópusamtök atvinnulífsins, telja að þær muni hafa skaðleg áhrif á samkeppnishæfni og benda á að það að minnka sveigjanleika í skipulagningu vinnutíma sé ósamrýmanlegt markmiðum Evrópusambandsins um aukinn hagvöxt og atvinnu.

 

Tillögur um þrengri reglur

Efnislega fela tillögurnar í sér að viðmiðunartímabil við útreikning meðalvinnutíma styttist þar sem fráviksheimildir eru þrengdar. Kjarasamningsheimildin er enn til staðar þannig að svo virðist sem þau viðmiðmiðunartímabil sem samið hefur verið um í kjarasamningum hér á landi ættu að geta haldist óbreytt. Þá er gert ráð fyrir að bakvaktir teljist í auknum mæli til vinnutíma og að valkvæða reglan, svokallað „opt out“ verði felld niður. Hún er notuð í Bretlandi og felur í sér að ríki geti valið fyrirkomulag sem heimilar að vikið sé frá einstökum reglum tilskipunar með samþykki viðkomandi starfsmanns. Þessi heimild hefur hvorki verið tekið upp í kjarasamninga né lög hér á landi. Tillögurnar gera einnig ráð fyrir að tekið verði upp í vinnutímatilskipunina ákvæði um samræmingu vinnu og fjölskyldulífs sem leggur beinar skyldur á vinnuveitendur. Þá er gert ráð fyrir að vinnutímareglur tilskipunarinnar gildi um alla starfsmenn aðra en æðstu stjórnendur. Þeir sem ráða vinnutíma sínum sjálfir eru nú undanskildir. Reglum um veitingu uppbótarhvíldar, náist tilskilin ellefu klukkustunda hvíld ekki, er einnig breytt, reyndar til bóta miðað við fyrri tillögu þar sem nú er gert ráð fyrir að um uppbótarhvíldina fari samkvæmt gildandi löggjöf eða kjarasamningum. Þessu til viðbótar kemur að vinnutími hjá öðrum atvinnurekanda skal talinn með við útreikning hámarksvinnutíma sem aftur takmarkar verulega möguleika fólks til að taka að sér aukavinnu. 

 

Pólitískt samhengi

Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjórnin muni leggja fram nýja tillögu til breytinga á vinnutímatilskipuninni á næstunni þar sem mið verður tekið af þessari niðurstöðu þingsins. Hvort svo verður í öllum atriðum er hins vegar óljóst. Ráðherraráðið tekur tilskipunina síðan til umfjöllunar. Þar ræðst niðurstaðan en ljóst er vinnutímareglunum verður breytt, hve mikið er enn óljóst. Málið hefur verið sett í pólitískt samhengi og tengt afstöðu almennings í Frakklandi til nýju stjórnarskrár Evrópusambandsins.