Afleikur

„Félagsmálaráðherra lék mikinn afleik með því að hækka á ný lánshlutfall og fjárhæðamörk hjá Íbúðalánasjóði. Við gerð kjarasamninga þann 22. júní sl. lögðu Samtök atvinnulífsins mikla áherslu á lækkun lánshlutfallsins til þess að stemma stigu við síhækkandi íbúðaverði og tryggja lækkun verðbólgunnar. Hækkun lánshlutfalls í 90% og hámarksláns í 18 milljónir gengur þvert á ákvörðun ríkisstjórnarinnar í kjölfar kjarasamninganna og á eftir að virka sem verðbólgufóður engum til gagns.

 

Bagaleg ráðstöfun

Þessi ráðstöfun er þeim mun bagalegri þar sem nú í dag hinn 1. mars tekur gildi   lækkun virðisaukaskatts á matvæli og fleiri vörur auk tollalækkana á búvörum og niðurfellingar ýmissa vörugjalda á matvæli. Verð á matvælum, veitingaþjónustu og nokkrum öðrum vörum lækkar af þeim sökum. Þessar aðgerðir eru að lang mestu leyti skref í rétta átt til þess að bæta skattkerfið og lækka þar að auki útgjöld heimilanna. Þær koma fram í lægri verðbólgumælingu nú en hafa þó ekki áhrif á verðbólguna til lengdar þótt aukin eftirspurn geti falið í sér ákveðna verðbólguhættu en það sama má reyndar segja um allar skattalækkanir.

 

Verðbólguhættan til lengri tíma af skattalækkunum er sýnu minni ef hagkerfið er í þokkalegu jafnvægi eða stefnir í þá átt eins og nú. Spár um framvindu efnahagsmála á þessu ári hafa flestar gengið út á fremur hægan hagvöxt miðað við þá ferð sem hefur verið á efnahagslífinu á undanförnum árum. Verðbólgan hjaðnaði mjög hratt í kjölfar kjarasamninganna 22. júní sl. og það virðist svo sem efnahagslífið hafi verið að ganga í gegnum mjög væga niðursveiflu sem ætti að fara að ganga til baka. Væntingar í þjóðfélaginu eru mjög miklar og atvinnuleysi hefur ekki myndast svo neinu nemi.

 

Einstakt tækifæri í hættu

Á árinu 2007 gefst einstakt tækifæri til þess að festa efnahagslegan stöðgugleika í sessi fyrir næstu ár. Það tækifæri kemur ekki aftur. Reikna má með því að ný uppsveifla hefjist í síðasta lagi á næsta ári og þá er brýnt að hafa náð verðbólgunni vel niður. Ef hún verður yfir 2,5% verðbólgumörkum Seðlabankans þegar uppsveiflan hefst verður hún viðvarandi yfir þessum mörkum árum saman og þá er alvarlega vegið að efnahagslegum stöðugleika á Íslandi og þeim grundvelli sem atvinnulífið hefur byggt á. Ljóst er að lítið má útaf bregða í hagstjórninni til þess að verðbólgan fari ekki á skrið ekki síst vegna þess að Seðlabankinn hefur málað sig út í horn með viðvarandi háu vaxtastigi sem er á góðri leið með að verðleggja krónuna út af markaðnum í lánsviðskiptum.

 

Hækkun lánshlutfalls og hámarksláns Íbúðalánasjóðs nú er ekki síst afleikur í því ljósi að kostnaður vegna íbúðahúsnæðis hækkaði um 1,8% í janúar og skýrði alfarið hækkun á vísitölu neysluverðs í byrjun febrúar. Þokkalegt jafnvægi hefur verið að myndast á fasteignamarkaðnum. Miklar verðhækkanir á undanförnum árum stöðvuðust á síðari árshelmingi 2006 og virtist sem markaðurinn væri að laga sig að veruleikanum án nokkurrar kollsteypu sem var mjög mikilvægt. Hækkunin í janúar var á skjön við þá þróun sem vænst var og gaf sterk skilaboð um að markaðurinn gæti verið að hitna um of á nýjan leik.  

 

Slæmt fyrir ungt fólk

Verðbólgan á síðustu tveimur árum var ekki síst tilkomin vegna verðhækkana á fasteignum. Verðhækkun fasteigna og breytingar á íbúðalánum voru síðan aðalhvatinn að hinni gífurlegu neyslubylgju sem stofnaði efnahagslegum stöðugleika í stórhættu. Mikilvægt er að koma í veg fyrir aðra bylgju af umframeyðslu sem gæti gerst ef framleiða á nýja gusu verðhækkana á fasteignum.

 

Hækkun íbúðalána er jafnframt afleikur vegna þess að hún nýtist ekki þeim sem hún á að gagnast fyrst og fremst, þ.e. yngra fólki sem er að koma undir sig fótunum. Verðhækkunin á eignunum gerir það að verkum að greiðslubyrði þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu eign eykst að mun. Unga fólkið verður áskrifandi að ótrúlega hárri greiðslubyrði ævilangt og tekur á sig skuldaklafa sem erfitt er að losna úr. Það hljómar vel að lána 90% íbúðalán en afleiðingarnar eru í mörgum tilvikum þær að ungt fólk getur aldrei eignast neitt í raun og veru. Fasteignamarkaðurinn er heldur ekki eins og eilífur keðjubréfahringur, heldur mun hann ganga í gegnum niðursveiflu eins og aðrir markaðir. Þá er ekki gott að hafa fengið mjög hátt lán til þess að kaupa á of háu verði.”    

 

Vilhjálmur Egilsson