Af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja hefur verið nokkuð í umræðunni að undanförnu hér á landi. Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað gert grein fyrir þeirri umræðu sem fram hefur farið á vettvangi Evrópusambandsins, nú síðast í grein í frétta-bréfi samtakanna í október sl. Í þeirri grein var því fagnað hvernig ekki einungis framkvæmdastjórn ESB heldur fjöldi evrópskra hagsmunaaðila á borð við atvinnurekendur, verkalýðshreyfingu o.fl. hafa nú komið sér saman um helstu skilgreiningar í þessari umræðu. Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja (e. corporate social responsibility) er skilgreind sem þær skuldbindingar sem fyrirtæki kjósa að taka á sig gagnvart starfsfólki, umhverfi og viðskiptavinum umfram það sem kveðið er á um í kjarasamningum, lögum eða reglugerðum. Gott orðspor er öllum fyrirtækjum mikilvægt og oft mikilvægasta eign fyrirtækja, ekkert síður en einstaklinga.

 

Mikilvæg umræða

Jákvætt er að þessi umræða fari nú fram hér á landi. Á Evrópuvettvangi hefur þessi umræða raunar lengst af að mestu einskorðast við stór fyrirtæki með starfsemi í þróunarlöndum og þau starfsskilyrði sem þau búa starfsfólki sínu þar, umgengni við náttúruna o.fl. Áherslan á að grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar séu virtar alls staðar þar sem fyrirtæki eru með starfsemi er að sjálfsögðu dæmi um eitthvað sem allir ábyrgir atvinnu-rekendur taka undir með glöðu geði. Nýverið hefur þessi umræða þó verið að færast yfir á smærri fyrirtæki og jafnframt yfir á starfsemi fyrirtækja heima fyrir.

 

Sköpun verðmæta

Mikilvægt er þó að menn missi ekki sjónar á aðalatriðunum í þessari umræðu. Meginhlutverk fyrirtækja er og verður að skapa verðmæti og skila arði. Grunnforsenda þess að störf verði til, að hið opinbera geti innheimt skatttekjur og að hægt sé að fjármagna velferðarkerfið er sú að fyrirtækin skapi verðmæti. Víða í Evrópu hefur atvinnulífið verið reyrt í viðjar óhagkvæmni og ósveigjanlegs starfsumhverfis. Stofnanir á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Efnahags- og framfarastofnunina OECD hafa ítrekað ályktað um nauðsyn þess að efla sveigjanleika á evrópskum vinnumarkaði. Ríkisstjórnir sumra Evrópuríkja glíma nú til dæmis við að draga úr uppsagnarvernd í því skyni að koma hreyfingu á atvinnulífið og fjölga störfum. Rík uppsagnarvernd er yfirleitt til orðin af góðum hug, en hefur því miður haft þau áhrif að draga úr vilja fyrirtækja til atvinnusköpunar og þannig takmarkað getu þessara þjóðfélaga til að standa undir dýru velferðarkerfi.

 

Hér á landi hafa menn blessunarlega haft meiri skilning á því en víða annars staðar að störf og aðrar hagsbætur samfélagsins af rekstri fyrirtækja eru afleiðing af því að þeir sem standa í rekstri koma auga á arðvænleg tækifæri til umsvifa. Reynslan sýnir að góð almenn starfsskilyrði sem gefa fyrirtækjum möguleika til að vaxa og bera arð eru vísasta leiðin að því marki að skapa atvinnu og skatttekjur sem rísa undir kröfum um velferð. Það verður að forðast skaðlegar takmarkanir á möguleikum til umbreytinga í atvinnulífi, eins og þær sem mörg Evrópuríki glíma nú við að vinda ofan af. Slík þróun væri mikill bjarnargreiði við íslenskt þjóðfélag.

 

Annar þáttur sem verður að gjalda varhug við er sá möguleiki að opinberir aðilar varpi ábyrgð á velferð og félagslegri þróun af sér sjálfum og yfir á fyrirtækin með ógagnsæjum reglum. Víða erlendis er rætt um það að stjórnvöld vilji frekar setja reglur um að fyrirtæki skuli gera hitt og þetta, heldur en að standa undir raunverulegum kostnaði með skattheimtu og framlögum á fjárlögum. Ástæðan sé sú að þá þurfi ekki að meta kostnaðinn og hann sé ekki eins sýnilegur og aukin ríkisútgjöld.

 

Hnattvæðingin

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja er oft rædd í samhengi við hnattvæðingu viðskipta, menningar og umsvifa fólks almennt. Hnattvæðingin felur í sér gríðarleg tækifæri, líkt og við Íslendingar þekkjum vel og þá ekki síst af þeim mikla árangri sem íslensk fyrirtæki hafa verið að ná erlendis. Hnattvæðingin felur jafnframt í sér áskoranir. Mikilvægi samkeppnishæfra starfsskilyrða hefur aldrei verið meira en einmitt nú. Hnattvæðingin er hins vegar ekki valkvæð, hún er staðreynd. Mikilvægasta verkefnið er því að búa íslensku atvinnulífi samkeppnishæf starfsskilyrði. Þannig hafa þau forsendur til að skapa verðmæti og þar liggja forsendur almennrar velferðar í samfélaginu.

 

Ari Edwald