Af kröfum um réttlætingu uppsagna

Iðulega kemur upp í umræðunni krafa þess efnis að íslensk stjórnvöld fullgildi samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um uppsögn starfs af hálfu vinnuveitenda, samþykkt nr. 158. Meginregla samþykktarinnar er að vinnuveitendum er bannað að segja upp fólki nema gild ástæða í sambandi við hæfni eða hegðun starfsmanns eða rekstrarlegar ástæður fyrirtækisins séu fyrir uppsögninni. Sönnunarbyrðin hvílir á vinnuveitandanum sem þarf því alltaf að réttlæta uppsögn.

 

Ákvörðun um fullgildingu þessarar samþykktar yrði jafnframt ákvörðun um grundvallarbreytingu íslensks vinnuréttar. Þar er það meginregla að vinnuveitandi og starfsmaður hafa gagnkvæman uppsagnarrétt að virtum lög- og samningsbundnum uppsagnarfresti. Vinnuveitandinn þarf því almennt ekki að rökstyðja uppsagnir starfsfólks og sýna fram á að fyrir þeim sé gild ástæða, þótt frá því séu undantekningar svo sem varðandi trúnaðarmenn stéttarfélaga, barnshafandi konur og foreldra í fæðingarorlofi.

 

Ósveigjanleiki og atvinnuleysi

Stöðnun í efnahagsmálum og mikið atvinnuleysi eru vandamál víða á meginlandi Evrópu. Mörg þessara ríkja eru sem kunnugt er þjökuð af stífum og ósveigjanlegum vinnumarkaðsreglum sem m.a. hafa þau áhrif að draga úr nýsköpun, viðbragðsflýti fyrirtækja, efnahagslegum umsvifum og ráðningum í störf. Uppsagnarverndin dregur þannig jafnframt úr möguleikum fólks á að komast inn á vinnumarkaðinn, ráðning starfsmanns verður áhættumeiri fyrir fyrirtækið. Afleiðingin er að fólki er síður gefinn kostur á að sanna sig í starfi, sem bitnar einkum á ungu fólki, konum sem eru að koma aftur inn á vinnumarkaðinn og þeim sem hafa átt við erfiðleika eða heilsufarsvandamál að stríða. Stjórnvöld í t.d. Þýskalandi og Frakklandi reyna um þessar mundir að vinda ofan af slíkum reglum, í því skyni að koma af stað auknum umsvifum í efnahagslífinu og draga úr atvinnuleysi. Alþjóðastofnanir á borð við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) hafa eindregið hvatt til slíkra breytinga og hefur IMF m.a. sagt að aukinn sveigjanleiki á vinnumarkaði evrulandanna gæti stuðlað að minnkun atvinnuleysis þar um 3%. Aukinn sveigjanleiki á vinnumarkaði er það sem þessi ríki skortir.

 

Íslendingar hafa borið til þess gæfu að viðhalda tiltölulega sveigjanlegum reglum á vinnumarkaði og þröskuldar í sambandi við mannaráðningar eru hér fáir. Óhætt er að fullyrða að það hafi skilað sér í betra atvinnuástandi og meiri möguleikum til hreyfanleika á vinnumarkaði en annars hefði orðið. Um þetta þarf að standa vörð.

 

Fá ríki hafa fullgilt

Samþykkt ILO nr. 158 hefur verið í gildi í yfir 20 ár en aðeins 33 ríki hafa fullgilt hana, þar af 9 af 28 aðildarríkjum EES. Samþykktin er ósveigjanleg og reglur hennar svara ekki þeim kröfum sem nú eru gerðar til sveigjanleika og hreyfinga á vinnumarkaði. Besta verndin fyrir starfsfólk er gott atvinnuástand. Reglur samþykktar ILO nr. 158 stuðla ekki að því markmiði.

 

Hrafnhildur Stefánsdóttir