Aðgerðaáætlun um aukna samkeppnishæfni

UNICE, Evrópusamtök atvinnulífsins, hafa kynnt sérstaka aðgerðaáætlun um leiðir til að efla samkeppnishæfni álfunnar. Samtökin benda á að liðin eru fimm ár síðan leiðtogar aðildarríkjanna samþykktu markmiðin, sem nefnd hafa verið eftir Lissabon, um að gera Evrópu að samkeppnishæfasta efnahagssvæði veraldar fyrir árið 2010.

 

Í skýrslunni er þrýst á um stefnubreytingar jafnt á vettvangi ESB sem á vettvangi aðildarríkjanna, sem samtökin segja nauðsynleg eigi Lissabon-markmiðin að verða að veruleika. Má þar nefna að dregið verði úr reglubyrði og fjárlagahalla, aukinn sveigjanleiki á vinnumarkaði og stuðningur aukinn við rannsóknir og þróun.

 

Í skýrslunni er jafnframt að finna könnun sem gerð var meðal 200 fyrirtækja innan ESB, þar sem fram kemur að fyrirtæki upplifa enn viðskiptahindranir á innri markaðnum.

 

Sjá skýrslu UNICE, aðgerðaáætlun um aukna samkeppnishæfni (pdf-skjal).

 

Samtök atvinnulífsins eiga, líkt og Samtök iðnaðarins, aðild að UNICE.