Að viðhalda frumkvöðlaandanum

Húsfyllir var á frumkvöðlamóti SA, HR og SI sem fram fór í Gyllta salnum á Hótel Borg. Þar fjallaði bandaríski fyrirlesarinn Larry Farrell um hvernig megi auka hagvöxt á Íslandi og skapa viðvarandi velmegun en hann sagði það aðeins mögulegt með því að örva nýsköpun og viðhalda frumkvöðlaanda íslensku þjóðarinnar. Rakti hann fjölmörg dæmi af stórfyrirtækjum og þjóðum sem fatast hefur flugið í gegnum tíðina en ástæðuna sagði hann vera þá að þeim hefði ekki auðnast að viðhalda kraftinum sem skóp velmegun þeirra í upphafi. Þetta þyrftu Íslendingar að hafa í huga á tímum mikils vaxtar - það væri viðbúið að úr honum myndi draga og framtíð þjóðarinnar myndi ráðast af því hvernig brugðist yrði við.

 

Stórt ekki alltaf betra

Larry Farrell kom víða við í fjörlegu erindi sínu. Fjallaði meðal annars um Walt Disney Steve Jobs, Kára Stefánsson og Ólaf Ragnar Grímsson ásamt því að greina ástæður þess að kaþólska kirkjan hefur haldið velli í gegnum tíðina! Farrell rakti ýmsar sögur af farsælum frumkvöðlum en hann hefur rannsakað grunnþætti skapandi hugsunar og hver galdurinn er á bak við velgengni  fyrirtækja. Ræddi hann sérstaklega um að vandi fylgir vegsemd hverri og að mikill vöxtur fyrirtækja geti verið upphafið að endalokum þeirra. Benti hann t.a.m. á að 84% af hundrað stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna á árunum 1900-2000 væru ekki lengur til og það sama ætti við um 70% fyrirtækja innan Fortune 500 á árunum 1955-2005. Þá benti hann á að 70% risa-samruna fyrirtækja á árunum 1990-2005 hefðu misheppnast.

 

 

Frumkvöðlar eru venjulegt fólk

Ef fyrirtæki eiga að njóta velgengni verða þau að framleiða framúrskarandi vöru og þjónusta við viðskiptavini verður að vera fyrsta flokks. Farrell benti á að þetta gleymdist oftar en ekki þegar fyrirtæki næðu vissri stærð og stjórnendur þeirra yrðu værukærir. Þá sköpuðust minni fyrirtækjum og frumkvöðlum tækifæri til að stíga inn á markaðinn og ná þar fótfestu. Vegna hnattvæðingarinnar og aukinnar alþjóðlegrar verslunar væru tækifærin fleiri en nokkru sinni – einkum fyrir litlar þjóðir.

 

Farrell sagði að ekki mætti gleyma því að frumkvöðlar væru flestir venjulegt fólk sem fengi frábærar hugmyndir og hrinti þeim í framkvæmd. Stjórnvöld þurfi að tryggja að hæfileikar slíks fólks fái notið sín og fyrirtæki verði að viðhalda frumkvöðlaanda innan veggja sinna til að lifa af. Vísaði Farrell til orða K.T. Li,  efnahagsmálaráðherra Taiwan, sem sagði eitt það mikilvægasta sem hann hefði uppgötvað á 50 ára ferli væri að búa vel að frumkvöðlum Taiwan. Farrell sagði tölurnar tala sínu máli, meðalhagvöxtur Taiwan hafi verið 9% yfir 50 ára tímabil og meðalverðbólga 2,2%. Á sama tíma hafi erlendar eignir Taiwan nálgast 200 milljarða dollara. Þetta væri góður vitnisburður um hverju skapandi hugsun og frumkvöðlaandi geti skilað þjóðum og einstaklingum en Taiwan hafi ekki átt neitt að aflokinni síðari heimsstyrjöldinni nema hugvit.

 

 

Uppskriftin að farsælli nýsköpun

Á frumkvöðlamótinu kynnti Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, jafnframt sameiginlegt rit samtaka atvinnulífsins á Norðurlöndum, The Nordic Recipe for Successful Innovation.

 

Sjá nánar:

 

The Nordic Recipe for Successful Innovation (PDF)

 

Greinar eftir Larry Farrell:

 

Back to the Basics (PDF)

 

The Governments’s Most Important Job (PDF)