Bótamet eitur í beinum þjóðar

Þegar skórinn kreppir og atvinnuleysi eykst beinast sjónir að atvinnuleysisbótum. ASÍ kom nýverið fram með tillögur þess efnis að hækka verulega atvinnuleysisbætur. Slíkar hugmyndir þarf að skoða af yfirvegun, ekki einungis í ljósi erfiðrar stöðu í efnahagsmálum heldur fyrirsjáanlegum langtímaáhrifum. Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðar og stjórnvöld geri sér grein fyrir að rétt viðbrögð við auknu atvinnuleysi er ekki hækkun atvinnuleysisbóta heldur sköpun almennra skilyrða fyrir varanlegri fjölgun starfa og að spornað verði gegn langtímaatvinnuleysi. Í millitíðinni er óhjákvæmilegt að fjölmargir þurfi að þiggja atvinnuleysisbætur þar til efnahagslífið nær fyrri styrk. Markmið atvinnuleysisbóta er að fleyta fólki yfir tímabundið tekjufall vegna starfsmissis og veita ráðrúm til að finna starf við hæfi. ASÍ krefst hins vegar svo mikillar hækkunar bóta að stórum hluta atvinnulausra yrði nánast tryggðar fullar fyrri tekjur í hálft ár. Tillögurnar eru rökstuddar með vísan til ástandsins á vinnumarkaði, þó flestum ætti að vera ljóst að næðu þær fram að ganga yrðu þær ekki aftur teknar.

Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðar og stjórnvöld geri sér grein fyrir að rétt viðbrögð við auknu atvinnuleysi er ekki hækkun atvinnuleysisbóta heldur sköpun almennra skilyrða fyrir varanlegri fjölgun starfa og að spornað verði gegn langtímaatvinnuleysi. 

Tillögur ASÍ eru þríþættar; 16 prósent hækkun hámarks tekjutengdra bóta, tvöföldun tímabils tekjutengdra atvinnuleysisbóta og hækkun grunnatvinnuleysisbóta um 10 prósent. Í krónum talið felur krafan í sér hækkun hámarksbóta úr rúmlega 456 þús.kr. í 529 þús.kr. og hækkun grunnbóta úr tæplega 290 þús.kr. í rúmlega 318 þús.kr. Þá krefst ASÍ breytinga á útreikningi tekjutengdra atvinnuleysisbóta þannig að skerðing vegna tekna hefjist við tekjur umfram lágmarkstekjutryggingu. Næði sú krafa fram að ganga myndu bætur til starfsmanns sem hafði 550 þús.kr. í laun áður, hækka um 100 þús.kr., eða úr 385 þús.kr. í 485 þús.kr. Að mati ASÍ eru slíkar breytingar, ef til þeirra kæmi, hóflegar og einfaldar og ástæðulaust að bíða með að hrinda þeim strax í framkvæmd.

Tillögur ASÍ letjandi til atvinnuleitar

Höfuðmáli skiptir að atvinnuleysisbótakerfið sé byggt upp þannig að hvati sé til atvinnuleitar. Tveir meginþættir skipta máli í því efni, fjárhæð atvinnuleysisbóta og hversu víðtækur réttur er til þeirra. Því minni sem munurinn er á atvinnuleysisbótum og launum starfsmanns fyrir atvinnumissi, þeim mun minni hvati er til atvinnuleitar, sem síðan þrýstir upp atvinnuleysi. Þetta hefur verið staðfest í fjölda fræðigreina. Við blasir að starfsmaður, sem hafði 550 þús.kr. í laun áður og fær 485 þús.kr. í tekjutengdar atvinnuleysisbætur, hefur lítinn hvata til að ráða sig til vinnu á ný vegna tekjutaps. Þegar tekið er tillit til óhjákvæmilegs kostnaðar við að sinna starfi, til dæmis ferðakostnaðar og leikskólagjalda, blasir við að frá tekjusjónarmiði er hvatinn lítill sem enginn við slíkar aðstæður.

Mikilvægt er að horfa á heildarmyndina. Við samanburð á fjárhæðum atvinnuleysisbóta milli landa er algengast að bera saman ráðstöfunartekjur fyrir og eftir atvinnumissi. Árið 2019 voru atvinnuleysisbætur á Íslandi þær sjöundu hæstu meðal OECD-ríkja í slíkum samanburði. Næði ASÍ fram kröfum sínum yrðu atvinnuleysisbætur þær allra hæstu innan OECD, þ.e. hvergi minni munur á tekjum fyrir og eftir atvinnumissi og þ.a.l. hvergi minni hvati til atvinnuleitar en á Íslandi. Álíka niðurstaða fæst þegar litið er til langtímaatvinnuleysis. Afleiðingarnar eru þekktar, atvinnuleysi ykist enn frekar og langtímaatvinnulausum fjölgaði með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið allt. Þá er betur heima setið en af stað farið.

Í apríl 2020 mældist atvinnuleysi 18 prósent. Atvinnuleysi er eitur í beinum þjóðarinnar og eitt mikilvægasta viðfangsefni næstu missera er sköpun arðbærra starfa. Efnahagsleg hagsæld byggir á því að skapa aukin verðmæti sem landsmenn allir njóta góðs af í formi bættra lífskjara.

Það verður ekki gert með róttækum breytingum á atvinnuleysisbótakerfinu þannig að heimsmet sé slegið í atvinnuleysisbótum. Slík aðgerð væri hvorki einföld né skynsamleg ráðstöfun.

Greinin er eftir Ásdísi Kristjánsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Hún birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. júní 2020