Barist við vindmyllur

Í umræðu um verðbólgu og verðtryggingu lána rifjast upp skáldsagan um Don Kíkóta sem gerði sér far um að berjast við ímyndaða eða alla jafnan hættulausa óvini. Á meðan veitingastaðir standa auðir, hótel eru tóm, margar verslanir hafa lokað dyrum sínum og við blasir einn mesti samdráttur lýðveldissögunnar skýtur upp kollinum sú krafa um að verðtryggð lán heimila skuli fryst vegna ótta um komandi verðbólguskot. Neysla heimila einskorðast í dag fyrst og fremst við nauðsynjavörur, þótt raftæki og líkamsræktarvörur séu helst undantekning frá því. Varnaraðgerðir stjórnvalda gegn COVID-19 veirunni hafa líkt og við var að búast bein áhrif á aðgengi og kaup heimila á neysluvörum og þjónustu. Á fyrstu viku samkomubannsins mældist t.a.m. 44% samdráttur í innlendri kortaveltu miðað við sömu viku fyrir ári samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Föt, skór, húsbúnaður, veitingastaðir, hótelgisting, flugfargjöld, klipping og snyrting eru dæmi um neysluvörur sem varla mælast til neyslu þessa dagana. Við bætist frosinn fasteignamarkaður og verðlækkun á hrávörum og olíu, en heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um 55% frá áramótum sem dæmi. Kraftar fallandi eftirspurnar, mikils framleiðsluslaka og verðhjöðnunar vegna lækkunar hrávöruverðs og alþjóðlegrar verðbólguhorfa vega einfaldlega þyngra um þessar mundir en verðhækkun innfluttra neysluvara vegna 15% veikingar krónunnar frá áramótum. Seðlabankinn og greiningaraðilar spá hóflegri verðbólgu framundan og fjárfestar vænta þess að verðbólga til skamms og meðallangs tíma verði í kringum verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þá eru væntingar um frekari vaxtalækkanir Seðlabankans. Skaðinn af því að kippa verðtryggingunni úr sambandi getur haft varanleg áhrif á fjármálamarkaði og leitt til mun hærri vaxtakostnaðar heimila og fyrirtækja en ella. Frysting verðtryggðra lána hljómar eins og einföld aðgerð en hún er mun flóknari í raunveruleikanum og kostnaðurinn er langtum meiri en sá vandi sem talið er að slík aðgerð leysi. 

Óvinurinn er þarna úti

Hinn raunverulegi óvinur er hins vegar ákaflega sýnilegur, efnahagslegur kostnaður vegna COVID-19 veirunnar mun hlaupa á mörg hundruð milljörðum króna. Kostnaðurinn er mældur í formi minnkandi verðmætasköpunar, fækkunar starfa, vaxandi atvinnuleysis og algers hruns í tekjum fyrirtækja. Efnahagslegt áfall sem dreifist á alla, fyrirtæki og heimili. Ólíkt fyrri samdráttarskeiðum sem vanalega haldast í hendur við gengisfall og verðbólguskot, koma áhrifin nú fram af fullum þunga í raunhagkerfinu. Spár gera ráð fyrir að atvinnuleysi í apríl nái sögulegum hæðum og verði 14% á sama tíma, m.v. 20 þúsund fari á hlutabætur, og forsendur eru til að ætla að landsframleiðslan dragist umtalsvert meira saman en í fjármálakreppunni fyrir rúmum 10 árum síðan.

Aðgerðir stjórnvalda beinast að því að lágmarka efnahagslegt tjón vegna faraldursins. Fyrsti aðgerðarpakkinn leit dagsins ljós í síðasta mánuði. Þá hefur Seðlabankinn lækkað stýrivexti um eitt prósent, aukið útlánagetu bankakerfisins um 400 milljarða króna og lofað 150 milljarða króna magnbundinni íhlutun með fyrirhuguðum kaupum ríkisskuldabréfa á markaði til að miðla stýrivaxtalækkunum bankans betur til lántakenda. Allar aðgerðir sem kynntar hafa verið lofa góðu en meira þarf að koma til. Efnahagshorfur hafa snarversnað frá því aðgerðirnar voru kynntar. Um þessar mundir standa stýrivextir Seðlabankans í 1,75% sem eru sögulega lágir nafnvextir en háir raunstýrivextir þegar litið er til yfirvofandi framleiðsluslaka. Þá eru raunvextir hærri hér en víða annars staðar. Stjórnvöld boða útfærslu á næsta aðgerðarpakka strax eftir páska og miðað við efnahags- og verðbólguhorfur er ekki spurning hvort, heldur hversu mikið Seðlabankinn lækkar stýrivexti á næstunni. Enn er beðið eftir því að Seðlabankinn hefji fyrirhuguð kaup ríkisskuldabréfa, það gerist vonandi fljótlega. Nú ríkir krísuástand. Þá skiptir öllu máli að viðbrögð stjórnvalda og Seðlabankans séu skjót og skilaboðin skýr. Beðið er eftir aðgerðum. Óvinurinn er þarna úti og hann er ekki ímyndaður. 

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA í Markaði Fréttablaðsins þann 8. apríl 2020