Ávarp formanns frá ársfundi Samtaka atvinnulífsins

Góðir félagsmenn Samtaka atvinnulífsins – nær og fjær.

Að þessu sinni höldum við ársfund Samtaka atvinnulífsins við þær sérstöku aðstæður að við getum ekki enn hist nægilega mörg og skipst á skoðunum augliti til auglitis líkt og vonir höfðu staðið til. Rafræn veröld hefur tekið yfir stærri fundi og viðburði að sinni. En við munum hittast fljótlega.

Það breytir þó ekki því að samtökin hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að gæta hagsmuna fyrirtækjanna í landinu ekki síst þegar kreppir að. Starfsemi fjölmargra fyrirtækja hefur orðið fyrir búsifjum af völdum COVID-19 veirunnar og vegna þeirra fjölmörgu takmarkana sem gripið hefur verið til. Viðleitni til að hefta útbreiðslu veirunnar á heimsvísu hefur sett okkur skorður. Markaðir hafa breyst og margir hafa orðið fyrir því að nauðsynleg aðföng skortir svo unnt sé að viðhalda hefðbundinni framleiðslu og þjónustu. Þessu hefur einnig fylgt hækkandi verðlag á alþjóðamörkuðum sem gætir hér sem annars staðar.

Nú er svo komið að verulega hefur dregið úr hættunni sem fylgir veirusýkingunni með því að stærstur hluti þjóðarinnar er að fullu bólusettur gegn henni. Þótt smit séu talin í tugum dag hvern nú um stundir þá eru þeir færri en áður sem veikjast alvarlega. Þetta kallar á breytta nálgun stjórnvalda sem hljóta að hafa að markmiði að halda daglegu lífi og starfi fólks sem næst eðlilegu. Eins verður að gæta þess að ekki verði fleiri í sóttkví en bráð nauðsyn krefur. Þá þarf að beita hraðprófum og sjálfsprófunum þannig að einstaklingar og fyrirtæki geti sem mest borið ábyrgð á eigin sóttvörnum og um leið heilsu. Það gildir almennt um hegðan fólks að vilja forðast mikla áhættu. Fyrirtækin reyna sömuleiðis með öllum ráðum að tryggja öryggi og heilsu sinna starfsmanna því áhættustjórnun er lykilþáttur í rekstri flestra fyrirtækja. Enginn vill verða fyrir tjóni af völdum stöðvunar eða truflunar á rekstri síns fyrirtækis.

Í ljósi þessa verða heilbrigðisyfirvöld smám saman að draga sig í hlé og fela ábyrgðina þeim sem best eru til þess fallnir að bera hana. Með þetta að leiðarljósi getum við séð fram á að samfélagið starfi að mestu eðlilega á komandi mánuðum og misserum.

Góðir félagar

Öll markmið lífskjarasamningsins sem gerður var fyrir einu og hálfu ári hafa náðst. Vextir hafa lækkað frá því sem var. Þó er viðbúið að eitthvað muni ganga til baka af þeirri lækkun eins og við höfum þegar séð. Stjórnvöld hafa staðið við gefin fyrirheit. Kaupmáttur launa hefur aukist. Við gerð samningsins var hins vegar alls ekki fyrirséð að allt efnahagskerfi heimsins yrði komið í hægagang ári eftir undirritun. Mikill samdráttur í tekjum flestra atvinnugreina hefur gert mörgum fyrirtækjum erfitt að standa við umsamdar launahækkanir. Það má því leiða líkum að því að atvinnuleysi hér á landi hafi orðið meira en ella. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi gripið til fjölmargra hjálparaðgerða þá koma þær aldrei í veg fyrir að margir – bæði fólk og fyrirtæki – hafa átt í erfiðleikum með að standa af sér samdráttinn og kreppuna sem fylgdi COVID-19.

Við höfum hins vegar séð það undanfarna mánuði að fólk vill ferðast. Ferðaþjónustan hefur braggast undra hratt. Landsmenn hafa verið á ferð um landið og það er ánægjulegt að eiga leið um fallega og áhugaverða staði og sjá fjölmarga ferðamenn sem hafa komið víða að til að sjá og njóta þess sem Ísland hefur upp á að bjóða.

Samtök okkar hafa unnið að öflugri stefnumótun fyrir ýmsa þætti starfseminnar og nýlega var kynnt einn afrakstur þeirrar vinnu á opnum fundi samtakanna undir heitinu Heilbrigðiskerfi á krossgötum. Þar er lögð áhersla á að gerðir verði samningar um alla heilbrigðisþjónustu, að fjármagnið fylgi einstaklingum sem allir hafi jafnt aðgengi að þjónustunni, að þjónustan verði veitt innan ákveðins skilgreinds tíma, að sett verði skýr markmið um gæði og öryggi þjónustunnar, að nýttar verði stafrænar lausnir eins og unnt er og að forvarnir á öllum æviskeiðum verði efldar. Hér er verk að vinna.

Í sumar var kynnt samantekt um 21 áskorun og lausn fyrir opinberan rekstur, skatta, rekstrarumhverfi fyrirtækja, sjálfbæra þróun, vinnumarkaðinn, menntamál og heilbrigðisþjónustu sem áður er vikið að. Öll stefnumótun samtakanna er unnin í samráði og/eða samtali við félagsmennina okkar og byggir á sýn þeirra um framtíðarhorfur og mati á aðstæðum og umhverfi hverju sinni. Einn liður í þessari vinnu eru þeir fjölmörgu fundir sem við höfum haldið með forsvarsmönnum aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins vítt og breytt um landið á undanförnum árum. Frá því í ársbyrjun 2020 hefur þetta ekki verið auðvelt en við náðum allmörgum fundum sl. vor. Fleiri fundir eru ráðgerðir á komandi hausti og vetri.

Einn mikilvægasti þátturinn í starfi samtakanna er að vinna að úrbótum á rekstrarumhverfi fyrirtækjanna þannig að það verði eins og best gerist í kringum okkur. Því miður er samkeppnishæfni Íslands ekki sambærileg því sem gerist á Norðurlöndum. Því veldur meðal annars flókið regluverk sem erfitt er að sjá í gegnum. Fjölmargar eftirlitsstofnanir sinna verkefnum sem skarast og ábyrgð er dreifð. Það tekur óratíma að fá leyfi fyrir margvíslegri starfsemi og einstökum framkvæmdum og mál virðast geta flækst milli stofnana og sveitarstjórna nánast endalaust. Dæmi um þetta eru vel þekkt t.d. í skipulags- og byggingamálum og veitingu starfsleyfa. Sjálfsagt er hluti af vandanum sá að sveitarfélögin í landinu eru mörg hver smá og vanbúin til að takast á við þau margvíslegu verkefni sem þeim er falið að sinna. Verkefnin á þessu sviði eru ótal mörg og það tekur langan tíma að vinna að úrbótum. Samtökin gæta þess við alla tillögugerð sem frá þeim fara að hagsmunir almennings og umhverfismál séu í öndvegi. Það er enginn að biðja um afslátt á kröfum heldur að ferlar og skipulag kerfisins sé endurskoðað með hagkvæmni og einföldun að leiðarljósi öllum til hagsbóta.

Það þarf ekki að ræða það ítarlega á okkar vettvangi að atvinnulífið skapar verðmætin sem stendur undir velferð landsmanna. Það er allra hagur að hér starfi öflug fyrirtæki sem leggja áherslu á verðmætasköpun, markaðssókn, nýungar og nýsköpun og leitist stöðugt við að gera betur, auka framleiðni, minnka sóun og draga úr umhverfisáhrifum.

Verkefnin við að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækjanna í öllum greinum eru óþrjótandi. Á ferðum okkar um landið höfum við að kynnst fyrirtækjunum og starfsmönnum þeirra og séð að þau eru rekin af miklum metnaði og ábyrgð. Þegar horft er fram á veginn er því ekki margs að kvíða.

Þannig á það líka að vera.

Takk fyrir.

Eyjólfur Árni Rafnsson er formaður SA. Ávarpið var flutt á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í Hörpu þann 9. september síðastliðinn.