Aukin lífsgæði ungs fólks með skerta starfsgetu

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins 6. janúar sl. hefur landsmönnum með svonefnt 75% örorkumat fækkað nokkuð undanfarin ár, eftir samfellda fjölgun undanfarna áratugi. Nú eru 19.749 Íslendingar með umrætt örorkumat, sem veitir rétt til mánaðarlegs örorkulífeyris, en voru 20.078 og 19.999 fyrir einu og tveimur árum. Hlutfall öryrkja af íbúafjölda landsins hefur fallið úr 5,6% í ársbyrjun 2019 í 5,3% af áætluðum íbúafjölda í ársbyrjun 2021. 

Að sama skapi fór nýgengi 75% örorkumats minnkandi síðustu tvö ár, en í hugtakinu felst fjöldi þeirra einstaklinga sem árlega fá umrætt mat. Nýgengið var 1.223 í fyrra, 1.273 árið 2019 og 1.611 árið 2018. Nýgengið nam 0,46% af meðalmannfjölda ársins 2018, 0,35% árið 2019 og 0,33% árið 2020.

Þessi þróun er í takt við nýja stefnu Tryggingastofnunar í örorkulífeyrismálum. Tryggingastofnun í samstarfi við félagsmálaráðuneytið, Vinnumálastofnun, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, félagsþjónustuna í Reykjavík og VIRK stóð að verkefni þar sem stefnt var að því að auka lífsgæði ungs fólk með skerta starfsorku með það að markmiði að lækka nýgengi örorkumats aldurshópsins 18-29 ára um 25% á árinu 2019. Það markmið náðist með samstarfi fyrrgreindra aðila og var verkefninu haldið áfram 2020. Stefnt var að því að auka enn frekar þátt endurhæfingar hjá ungu fólki með skerta starfsgetu.

Samtök atvinnulífsins fagna þeim árangri sem að framan er lýst. Árið 2016 var nýgengi örorku í fyrsta sinn meira en náttúruleg fjölgun vinnandi fólks. Sú þróun er mjög varhugaverð og því fagnaðarefni að vel gangi að snúa henni við.

Hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði er unnið að því að efla starfsgetu einstaklinga með heilsubrest sem stefna á aukna þátttöku á vinnumarkaði. Hjá sjóðnum starfa meðal annars atvinnulífstenglar sem aðstoða einstaklinga að lokinni endurhæfingu við að finna starf við hæfi en VIRK vinnur með atvinnulífinu að því að skapa fjölbreytt tækifæri fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu. Margir fá hlutastörf í byrjun en auka starfshlutfall í fullt starf í áföngum.

Ávinningur einstaklings með skerta starfsgetu af endurhæfingu hjá VIRK er þannig mikill. Fjárhagslegur ávinningur samfélagsins af starfsemi sjóðsins er jafnframt ótvíræður. Árið 2019 var hann metinn 20,5 milljarðar króna, að teknu tilliti til afdrifa einstaklinga ef þjónustu VIRK hefði ekki notið við.

Í nóvember sl. undirrituðu Samtök atvinnulífsins og Vinnumálastofnun hvatningu til atvinnulífsins þar sem skorað var á fyrirtæki og stofnanir að veita fólki með skerta starfsgetu tækifæri til starfa. Hjá Vinnumálastofnun geta atvinnurekendur sótt faglegan og fjárhagslegan stuðning við ráðningu starfsmanna með skerta starfsgetu. Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á að sveigjanlegur vinnutími og hlutastörf bjóðist þeim sem vilja leggja sitt af mörkum og hefur reynsla atvinnulífsins af verkefninu verið góð.

Með virkri starfsendurhæfingu og fjölbreyttum tækifærum er einstaklingum með skerta starfsorku veitt tækifæri til atvinnuþátttöku. Með réttum hvötum og tækifærum, eins og þeim sem hér hefur verið lýst, er mögulegt að lækka nýgengi örorku til frambúðar. Ávinningurinn er ótvíræður.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.