Ársskýrsla SA er komin út

Ársskýrsla Samtaka atvinnulífsins fyrir síðastliðið starfsár kom út í dag samhliða aðalfundi samtakanna sem hefst nú klukkan 12. Þar fara fram hefðbundin aðalfundarstörf og meðal annars verður greint frá kjöri formanns Samtaka atvinnulífsins og stjórnar SA 2021-2022. Rétt til setu á aðalfundinum eiga stjórnendur aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins ásamt starfsmönnum SA og aðildarsamtaka.

Í ársskýrslunni er er farið yfir síðastliðið starfsár samtakanna sem var um margt óvenjulegt. 

Hagspár tóku verulegum breytingum á árinu 2020 eftir því sem faraldurinn þróaðist hérlendis sem erlendis, enda ríkti nánast fullkomin óvissa um framvindu mála mestallt árið. Bráðabirgðaniðurstöður gefa til kynna að samdrátturinn í landsframleiðslu hafi að endingu numið 6,6%, sem er betri niðurstaða en vænst var. Landsframleiðsla á mann dróst  saman um 8,2% að raungildi á seinasta ári sem er mesti samdráttur sem mælst hefur hérlendis á þann mælikvarða. Gert er ráð fyrir að heimsframleiðslan hafi dregist saman um 3,3% á árinu 2020 vegna faraldursins. 

Sögulegt atvinnuleysi

Í upphafi ársins 2020 voru tíu þúsund skráðir atvinnulausir, samanborið við sex þúsund ári fyrr, og hlutfallslegt atvinnuleysi var 5,0%.
Þegar kórónukreppan skall á fjölgaði skráðum atvinnulausum í 39 þúsund, en hlutabótaleið stjórnvalda studdi við hluta þeirra. Þannig voru 24 þúsund að fullu atvinnulausir í mars en 15 þúsund í hlutastarfi og fengu hlutabætur frá Vinnumálastofnun á móti hinu skerta starfshlutfalli.

Hlutabótaúrræðið náði hámarki í apríl 2020 þegar 29 þúsund starfsmenn fengu hlutabætur en atvinnulausir í heild voru 49 þúsund. Hlutfallslegt atvinnuleysi mældist tæplega 18% og þar af 10% vegna þeirra sem voru á hlutabótum.

SA kom að fjölda úrræða stjórnvalda

Þá kynntu stjórnvöld á árinu fjölda úrræða fyrir íslenskum atvinnurekendum til að bregðast við áfallinu. Úrræðin hafa í flestum tilfellum miðað að því að verja störf, innviði og önnur verðmæti fyrirtækja. SA hafa á hverjum tíma rýnt í tillögur, veitt umsagnir og leitast við að liðka fyrir upplýsingamiðlun til félagsmanna samhliða því sem ný úrræði hafa verið kynnt til sögunnar.

Miðlun upplýsinga fljótt og örugglega á óvenjulegum tímum til félagsmanna skipaði ekki síður stóran sess í starfinu í ár. Reglulegir upplýsingafundir SA voru haldnir um sóttvarnaraðgerðir, útfærslur efnahagsaðgerða sem ríkisstjórnin kynnti í áföngum og horfur í atvinnulífinu til lengri og skemmri tíma. Til þess voru auk starfsliðs SA, kallaðir til stjórnmálamenn og sérfræðingar um efnið. Öllu var þessu miðlað með rafrænum hætti.

Nýtt og aðgengilegt hljóð- og myndver þar sem framleiðsla á efni innan úr Húsi atvinnulífsins fer nú að langmestum hluta fram, var tekið í gagnið. Þá hófst vinna við nýja heimasíðu samtakanna, sem verður tilbúin innan tíðar. Alls var vísað um 2500 sinnum til SA á síðasta ári í hefðbundnum fjölmiðlum, auk þess sem samfélagsmiðlar samtakanna voru efldir til muna.

Reglulegar kannanir meðal félagsmanna

Skömmu áður en kórónukreppan skall á, í febrúar 2020, sýndi ársfjórðungsleg könnun Samtaka atvinnulífsins meðal 400 stærstu fyrirtækjanna að efnahagsleg óveðursský höfðu hrannast upp. Þá töldu þó 20% stjórnenda aðstæður vera góðar en 30% höfðu talið svo vera þremur mánuðum fyrr. Í maí 2020, þegar kórónukreppan náði hámarki, taldi nánast enginn stjórnandi aðstæður vera góðar, en 90% töldu þær slæmar.

Stjórnendur lögðu sama mat á aðstæður í maí, september og desember 2020. Í febrúar 2021 tók þó brúnin að lyftast hjá mörgum þar sem bólusetningar gegn veirunni voru hafnar, bæði hérlendis og í viðskiptalöndunum, og útlit fyrir að um mitt árið eða fljótlega eftir það yrði mestu takmörkunum á ferðalögum og samkomum aflétt.

Á þessu og fleiru í starfi Samtaka atvinnulífsins má glöggva sig í ársskýrslunni, sem finna má hér.