400 stærstu: Óveðursský á lofti

Í febrúar var gerð könnun meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins á stöðu og horfum í efnahagslífinu. Á könnunartímabilinu fóru áhrif COVID-19 veirusjúkdómsins stigvaxandi, en könnuninni lauk áður en efnahagsleg höggbylgja skall á landinu í mars.

Niðurstöðurnar sýna því væntingar stjórnenda í febrúar sem gerbreyttust í mars vegna víðtækra ráðstafana stjórnvalda hérlendis sem erlendis til að takmarka útbreiðslu sjúkdómsins. Þannig eru þær ekki lýsandi fyrir núverandi stöðu efnahagslífsins heldur síversnandi aðstæður í aðdraganda efnahagsþrenginga.

Mat á núverandi aðstæðum versnaði
Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, lækkaði mikið frá síðustu könnun sem gerð var í nóvember sl. Einungis 20% stjórnenda töldu aðstæður í atvinnulífinu góðar, en 30% töldu þær slæmar.

Lítil von um bata eftir 6 mánuði
Stjórnendur höfðu litlar væntingar um að aðstæður yrðu betri eftir sex mánuði. 14% stjórnenda töldu að aðstæður bötnuðu en tæpur helmingur að þær versnuðu.

Nánast enginn skortur á var starfsfólki
Lítill skortur var á starfsfólki þar sem einungis 9% stjórnenda fundu fyrir því.

Væntingar við verðbólgumarkmið
Verðbólguvæntingar stjórnenda til eins árs eru við verðbólgumarkmið Seðlabankans eins og  undanfarið ár. Verðbólguvæntingar hafa minnkað þegar litið er til tveggja ára og eru einnig við markmiðið.  

Þá vænta stjórnendur þess að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra muni hækka að jafnaði um 1,3% á næstu sex mánuðum og að verð á aðföngum sem fyrirtækin kaupa af birgjum hækki um 1,9%.

Vænta stöðugs gengis krónunnar
Að jafnaði væntu stjórnendur 1,8% veikingar krónunnar á næstu 12 mánuðum.

Fjárfestingar atvinnuveganna minnka á árinu
Könnunin gefur til kynna töluverðan samdrátt fjárfestinga í atvinnulífinu milli áranna 2019 og 2020. 37% stjórnenda búast við að fjárfestingar fyrirtækjanna dragist saman milli ára en 15% búast við aukningu.


Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er könnunin ítarlegri með 20 spurningum. Að þessu sinni var hún gerð á tímabilinu 28. janúar til 28. febrúar 2020 og voru spurningar 20.

Í úrtaki voru 404 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu   202, þannig að svarhlutfall var 50%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.